19 apríl 2025

Hafþór Smári Sigþórsson, 1991-2025

Hann Hafþór bróðir minn fannst látinn heima hjá sér að morgni mánudags 7. apríl. Útförin fór fram miðvikudaginn var, þann 16. apríl. Hann var jarðaður í Hraungerðiskirkjugarði.

Ég veit ennþá ekki hvað kom fyrir hann, ef ég má orða það þannig. Hann bjó á Andrastöðum á Kjalarnesi og hér er lýsing sem ég held að nái yfir allt saman: "Andrastaðir er heimili fyrir karlmenn með fjölgreiningar sem glíma við fjölþættan vanda, oft með geðröskun, fíkniefnavanda, þroskaskerðingar, einhverfu og skyldar raskanir og eiga í erfiðleikum með að fóta sig í samfélaginu."

Á Andrastöðum átti hann sitt eigið herbergi, hafði aðgang að annarri aðstöðu og þar er starfsfólk til staðar allan sólarhringinn. Mér skilst að starfsfólkið hafi litið inn til hans á sunnudagskvöldi og þar hafi allt verið í lagi. Á mánudagsmorgun koma þau aftur til hans og þá er hann dáinn. Það var hringt á sjúkrabíl og reynd endurlífgun en án árangurs.

Hafþór glímdi já við geðröskun og fíkniefnavanda. Aðallega áfengi, ef mér skjátlast ekki. En það sem hann vildi helst gera var að drekka spritt. Hann var í stöðugum samræðum við fólk sem aðrir hvorki sáu til né heyrðu. Hann svaf ekki á næturnar, átti erfitt með að vera einn. Plássið á Andrastöðum kom eftir mikið erfiði og mikla vinnu af hálfu foreldra hans, og var gríðarlegur fengur fyrir hann og alla í kringum hann. En hann vildi ekki vera þar, talaði allavega þannig. Ég held að honum hafi einfaldlega ekki liðið vel í veröldinni sem við hin erum svo upptekin af. Þegar Óskar bróðir lenti á spítala vildi Hafþór ekki heyra það. En ég hitti hann síðast í þeirri jarðarför. Hann sagði það ekki við mig en mér skilst hann hafi talað um að hitta Óskar aftur í blómalandinu.

Hann var alltaf blíður og indæll, hvað annað sem gekk á innan og utan. Hann fann uppá skemmtilegum jólagjöfum ár eftir ár. Hann lék á gítar og söng, spilaði tónlist og gaf út. Fyrir utan smávægilega árekstra sem ég eigna sjúkdómnum frekar en honum sjálfum þá á ég ekkert nema góðar minningar um Hafþór. Það þótti öllum vænt um hann og það er ósanngjarnt og heimskulegt og sárt að hann sé dáinn.

Hafþór fæðist þegar ég er tíu ára gamall, að verða ellefu. Myndirnar ef þessum árum eru óskýrar en ef ég súmma út þá var ég voða mikið að passa þá Tóta, fara með út á róló. Sennilega sjaldnar en mér þykir það vera, þetta var ekki það sem mér þótti skemmtilegast. En þeir eru börn og svo verð ég unglingur sem gerir öllum lífið leitt og svo flyt ég að heiman og maður snýr sér við og þeir eru fullorðnir. Ég var hreinlega aldrei í miklu sambandi við hann. Glöggir lesendur koma nú e.t.v. auga á ákveðið þema í þessum skrifum.

Ég skrifaði um Óskar bróðir hérna síðast en þeir Hafþór deyja með sex vikna millibili. Það eitt og sér er eitthvað svo út í hött að ég finn ekki orð til að lýsa því. En gerir það að verkum að ég reyni að ráða í þetta sem eina upplifun. Sorrí strákar.

Hér er lítil saga sem ég hef sagt örfáum og þau horfa á mig einsog ég sé klikkaður:

Mánudaginn 7. apríl var ég í vinnunni. Við fengum heimsókn frá bókasafnsfræðingum frá Żory í Póllandi og við kynningarstjórinn hittum þau og sögðum frá því sem við erum að gera í miðlun á bókasafninu og svo framvegis. Þau voru áhugasöm og yndisleg, framsýn og opin eins og bókasafnsfræðingar eru gjarnan. Þegar þau skildu við okkur gáfu þau okkur gjafir. Það var svört pappaaskja með grænu bandi utanum. Við opnuðum öskjurnar niðri á skrifstofu og þar voru lyklakippur með lógói bókasafnsins þeirra.

Alveg beisikk en mjög fallega gert af þeim. Nú höfum við hérna á safninu nýverið lagt af aðgangslyklakerfi sem hafði verið frá því ég byrjaði. Þá var ég alltaf með gráan plaststaut á lyklahringnum í vasanum og hann var í sjálfu sér lyklakippan, það sem ég greip í í staðinn fyrir einn af ekta lyklunum. En nú var hann semsagt farinn í ruslið. Þannig að ég var lyklakippulaus og þetta hitti vel á, þegar ég opnaði pakkann tilkynnti ég skrifstofunni að nú væri ég kominn með nýja lyklakippu, og færði hana uppá hring minn og oní vasa.

Seinnipart sama dag fæ ég skilaboð frá mömmu um að hún vilji hitta mig uppí Breiðholti, ég fer þangað og fæ að vita að Hafþór Smári sé dáinn. Og seinna um kvöldið er ég að segja konunni minni frá öðru sem gerðist í dag og dreg fram lyklakippuna og hún bendir mér á að þessi lyklakippa, þ.e.a.s. hluturinn sem lógóið er grafið oní, er útskorinn fjögurra laufa smári.

Ég erfði hring sem Óskar bróðir átti, hann er silfurlitur með einhverskonar steinum í, sitthvoru megin við hauskúpu. Á honum stendur "Freedom or Death". Það er sennilega ekkert sem lýsir honum betur en það. Hringurinn er of stór fyrir mig, ég batt hann í leðurreim og hef hann um hálsinn. Og nú hef ég tótem fyrir Hafþór bróður líka, frá því eftir að hann dó en áður en ég vissi. Ég veit ekki hvort ég get kallað það tilviljun eða hendingu, þetta virkar einsog hálft skref í báðar áttir.

Ég finn ekki skýringu á því hvers vegna þessi lyklakippa er smári frekar en eitthvað annað. Þetta er ekki mótíf sem ég sé notað annarstaðar í tengslum við bókasafnið eða bæjarfélagið. Á wikipedia síðunni fyrir Żory stendur að ein möguleg skýring á nafni bæjarins sé sú að það sé dregið af gömlu pólsku orði sem merkir að brenna skóglendi, og tengist því þá að rýma landsvæði til búsetu. Það er víst fátt sem ekki brennur en svo sprettur eitthvað yfirleitt upp í kjölfarið, og blómalandið já hví ekki það.

-b.