19 apríl 2025

Hafþór Smári Sigþórsson, 1991-2025

Hann Hafþór bróðir minn fannst látinn heima hjá sér að morgni mánudags 7. apríl. Útförin fór fram miðvikudaginn var, þann 16. apríl. Hann var jarðaður í Hraungerðiskirkjugarði.

Ég veit ennþá ekki hvað kom fyrir hann, ef ég má orða það þannig. Hann bjó á Andrastöðum á Kjalarnesi og hér er lýsing sem ég held að nái yfir allt saman: "Andrastaðir er heimili fyrir karlmenn með fjölgreiningar sem glíma við fjölþættan vanda, oft með geðröskun, fíkniefnavanda, þroskaskerðingar, einhverfu og skyldar raskanir og eiga í erfiðleikum með að fóta sig í samfélaginu."

Á Andrastöðum átti hann sitt eigið herbergi, hafði aðgang að annarri aðstöðu og þar er starfsfólk til staðar allan sólarhringinn. Mér skilst að starfsfólkið hafi litið inn til hans á sunnudagskvöldi og þar hafi allt verið í lagi. Á mánudagsmorgun koma þau aftur til hans og þá er hann dáinn. Það var hringt á sjúkrabíl og reynd endurlífgun en án árangurs.

Hafþór glímdi já við geðröskun og fíkniefnavanda. Aðallega áfengi, ef mér skjátlast ekki. En það sem hann vildi helst gera var að drekka spritt. Hann var í stöðugum samræðum við fólk sem aðrir hvorki sáu til né heyrðu. Hann svaf ekki á næturnar, átti erfitt með að vera einn. Plássið á Andrastöðum kom eftir mikið erfiði og mikla vinnu af hálfu foreldra hans, og var gríðarlegur fengur fyrir hann og alla í kringum hann. En hann vildi ekki vera þar, talaði allavega þannig. Ég held að honum hafi einfaldlega ekki liðið vel í veröldinni sem við hin erum svo upptekin af. Þegar Óskar bróðir lenti á spítala vildi Hafþór ekki heyra það. En ég hitti hann síðast í þeirri jarðarför. Hann sagði það ekki við mig en mér skilst hann hafi talað um að hitta Óskar aftur í blómalandinu.

Hann var alltaf blíður og indæll, hvað annað sem gekk á innan og utan. Hann fann uppá skemmtilegum jólagjöfum ár eftir ár. Hann lék á gítar og söng, spilaði tónlist og gaf út. Fyrir utan smávægilega árekstra sem ég eigna sjúkdómnum frekar en honum sjálfum þá á ég ekkert nema góðar minningar um Hafþór. Það þótti öllum vænt um hann og það er ósanngjarnt og heimskulegt og sárt að hann sé dáinn.

Hafþór fæðist þegar ég er tíu ára gamall, að verða ellefu. Myndirnar ef þessum árum eru óskýrar en ef ég súmma út þá var ég voða mikið að passa þá Tóta, fara með út á róló. Sennilega sjaldnar en mér þykir það vera, þetta var ekki það sem mér þótti skemmtilegast. En þeir eru börn og svo verð ég unglingur sem gerir öllum lífið leitt og svo flyt ég að heiman og maður snýr sér við og þeir eru fullorðnir. Ég var hreinlega aldrei í miklu sambandi við hann. Glöggir lesendur koma nú e.t.v. auga á ákveðið þema í þessum skrifum.

Ég skrifaði um Óskar bróðir hérna síðast en þeir Hafþór deyja með sex vikna millibili. Það eitt og sér er eitthvað svo út í hött að ég finn ekki orð til að lýsa því. En gerir það að verkum að ég reyni að ráða í þetta sem eina upplifun. Sorrí strákar.

Hér er lítil saga sem ég hef sagt örfáum og þau horfa á mig einsog ég sé klikkaður:

Mánudaginn 7. apríl var ég í vinnunni. Við fengum heimsókn frá bókasafnsfræðingum frá Żory í Póllandi og við kynningarstjórinn hittum þau og sögðum frá því sem við erum að gera í miðlun á bókasafninu og svo framvegis. Þau voru áhugasöm og yndisleg, framsýn og opin eins og bókasafnsfræðingar eru gjarnan. Þegar þau skildu við okkur gáfu þau okkur gjafir. Það var svört pappaaskja með grænu bandi utanum. Við opnuðum öskjurnar niðri á skrifstofu og þar voru lyklakippur með lógói bókasafnsins þeirra.

Alveg beisikk en mjög fallega gert af þeim. Nú höfum við hérna á safninu nýverið lagt af aðgangslyklakerfi sem hafði verið frá því ég byrjaði. Þá var ég alltaf með gráan plaststaut á lyklahringnum í vasanum og hann var í sjálfu sér lyklakippan, það sem ég greip í í staðinn fyrir einn af ekta lyklunum. En nú var hann semsagt farinn í ruslið. Þannig að ég var lyklakippulaus og þetta hitti vel á, þegar ég opnaði pakkann tilkynnti ég skrifstofunni að nú væri ég kominn með nýja lyklakippu, og færði hana uppá hring minn og oní vasa.

Seinnipart sama dag fæ ég skilaboð frá mömmu um að hún vilji hitta mig uppí Breiðholti, ég fer þangað og fæ að vita að Hafþór Smári sé dáinn. Og seinna um kvöldið er ég að segja konunni minni frá öðru sem gerðist í dag og dreg fram lyklakippuna og hún bendir mér á að þessi lyklakippa, þ.e.a.s. hluturinn sem lógóið er grafið oní, er útskorinn fjögurra laufa smári.

Ég erfði hring sem Óskar bróðir átti, hann er silfurlitur með einhverskonar steinum í, sitthvoru megin við hauskúpu. Á honum stendur "Freedom or Death". Það er sennilega ekkert sem lýsir honum betur en það. Hringurinn er of stór fyrir mig, ég batt hann í leðurreim og hef hann um hálsinn. Og nú hef ég tótem fyrir Hafþór bróður líka, frá því eftir að hann dó en áður en ég vissi. Ég veit ekki hvort ég get kallað það tilviljun eða hendingu, þetta virkar einsog hálft skref í báðar áttir.

Ég finn ekki skýringu á því hvers vegna þessi lyklakippa er smári frekar en eitthvað annað. Þetta er ekki mótíf sem ég sé notað annarstaðar í tengslum við bókasafnið eða bæjarfélagið. Á wikipedia síðunni fyrir Żory stendur að ein möguleg skýring á nafni bæjarins sé sú að það sé dregið af gömlu pólsku orði sem merkir að brenna skóglendi, og tengist því þá að rýma landsvæði til búsetu. Það er víst fátt sem ekki brennur en svo sprettur eitthvað yfirleitt upp í kjölfarið, og blómalandið já hví ekki það.

-b.

11 mars 2025

Óskar Örn Guðmundsson, 1984-2025

Hann Óskar bróðir minn dó á aðfararnótt mánudags 24. febrúar síðastliðinn. Hann hafði legið á gjörgæslu Landspítalans frá því uppúr hádegi laugardagsins 15. febrúar. Jarðarförin verður frá Selfosskirkju á morgun, þann 12. mars. Hann verður svo jarðsettur þar.

Óskar hefði orðið 41 árs þann þrettánda mars. Hann var næstelstur í hópi átta bræðra — sex sammæðra og fjögurra samfeðra. Þegar ég orða það þannig þá hljómar dæmið ekki eins og það gangi upp, en fjölskyldumynstur er ekki eitthvað sem við troðum okkur ofaní heldur öfugt.

Fjölskyldan bjó víða fyrstu árin, og eftir að foreldrarnir skildu bættust fleiri staðir við. Eins og ég man söguna þá átti Óskar í barnæsku lengsta viðkomustaðinn hjá pabba sínum og fjölskyldu á Baldursgötu í Reykjavík, og hjá mömmu sinni og fjölskyldu okkar á Heiðarvegi á Selfossi. Við þrír elstu bræðurnir fórum á milli bæja um helgar til að vera hver með öðrum og hinum foreldrunum og yngri bræðrum.

Í mínum augum var Óskar óhræddur og beint áfram. Hann átti auðvelt með að eignast vini og ná fólki á sitt band, hann var óhræddur að reyna nýja hluti, læra eitthvað nýtt. Hann hafði góða nærveru, þýða rödd og var léttur í fasi. Óskar hafði næmt auga og gott eyra fyrir orðanna hljóðan, hann hafði gaman af að teikna og búa til tónlist. Á síðustu árum fann hann sig helst í rapptónlistinni og gaf út lög og plötur með Sigga bróður okkar, í hljómsveitinni Blóðbönd. Fyrir utan allt annað þá þykir mér vænt um að geta spilað lögin þeirra og heyrt röddina hans þar.

Óskar var einu og hálfu ári yngri en ég, sem eru stundum engin ósköp og öðrum stundum himinn og haf. En þegar við vorum að skríða á unglingsaldur þá var það hann sem vissi hvað var töff, hvert maður átti að fara og hvar að vera. Hvort sem það var tíska, matur, tónlist, bíómyndir, tölvuleikir eða spil, þá var það ég sem elti Óskar frekar en öfugt. Og ef við vorum á ókunnum slóðum þá kom það iðulega í hans hlut að tala fyrir okkur báða.

Ég á örfáar minningar af okkur Óskari eftir að við uxum úr grasi. Við fórum hvor í sína áttina. Við heyrðumst í síma og í skilaboðum en sáumst sjaldnar. Ég þakka fyrir það að hafa fengið að alast upp með honum, ég var ríkari af því að eiga hann að bróður og ég vissi alltaf, eða gaf mér alltaf, að hann væri þarna jafnvel þó hann stæði ekki við hliðina á mér. Og núna er farinn.
 
Fjölskyldan fer í sundur að ég held í lok árs 1987 eða í byrjun 1988, ég þá fimm ára og Óskar rúmlega þriggja eða að verða fjögurra ára. Siggi yngri bróðir okkar ekki orðinn eins árs. Miðað við það hvernig maður sér veröldina í dag þá virkar hugmyndin fáránleg, að skipta börnunum á milli sín. Eins og þau séu plötusafn. En fólk er nú yfirleitt bara að reyna sitt besta. Á hinn bóginn þá er annar aðilinn stundum sú týpa sem brennir plöturnar sem hinn hafði safnað, í einhverskonar gremjukasti yfir því að vera hafnað. Og þá hugsar maður illa til þess að senda barnið sitt til að búa með þeim. Bara svo ég grípi ímyndað dæmi algerlega úr lausu lofti.
 
Af því leiðir að minningin um bróður minn er nánast frá upphafi minning um einhvern sem er ekki hjá mér lengur. Kannske hitti ég hann næstu helgi. Kannske fæ ég ekki að fara. Kannske er hann í útlöndum eða veikur eða kannske er ekki fært. Og ef ég kemst yfir til hans þá er aldrei að vita hvernig ástandið verður heima hjá honum, heima hjá honum þar sem ég er velkominn en á svo sannarlega ekki heima. Og stundum finn ég að hann er einmana og vill ekki skilja við okkur, og samviskubitið yfir því að skilja hann eftir er ennþá að naga mig, það eru komin bráðum þrjátíu ár síðan.
 
Það vaxa á manni aumir punktar sem hefðu annars ekki. Ég man ekki hvaða bíómynd við horfðum á á meðan hann lá á spítalanum, þar sem einhver lendir í slysi og er haldið í öndunarvél. Við horfum á The Americans þar sem bróðir rússneska slánans er drepinn í Afganistan. Ég hlusta á síðustu plötuna sem bandið hans gaf út og Óskar rappar um það að selja einhverjum dóp sem drepur viðkomandi. Krossgátan í dag spyr um skírnarnafn Schindlers, sem tók saman listann.

Ég sagði syni mínum að ég væri að skrifa minningu um hann Óskar frænda sem dó. Hann sagði mér að ég gæti endað á þessum orðum, og ég bara geri það:

Megi hann fara upp til Guðs og njóta lífsins eftir dauðann á himninum. Amen.