300 segir af stæltum gaurum sem fara í stríð. Og nú er heppilegt að ég skuli yfirleitt ekki vilja spilla sögu og þvíumlíku fyrir fólki, því það er engin frekari saga í gangi: gaurarnir fara í stríð, punktur. Þetta er í raun og veru mynd sem sýnir manni hversu mikið einfaldasta söguflétta getur gert fyrir bíómynd. Ég skemmti mér konunglega yfir henni framan af, en svo var komið langt í seinni helminginn þegar ég sá að það var andskotann ekkert að gerast.
Margir flottir rammar samt. Hún er falleg áferðar, það vantar ekki. Og svei mér þá ef þeir klipptu ekki helminginn af ,,we march" klifuninni út, sem ég man að fór endalaust í taugarnar á mér þegar ég las bókina.
The History Boys segir af nokkrum sagnfræðinemum og kennurunum þeirra, sem allir eru mismikið samkynhneigðir. En í rauninni er verið að sýna hvað gerist þegar sagnfræðinemar læra að elska póstmódernismann. Þetta er mynd sem er gerð uppúr leikriti (með sömu leikurum og voru á sviðsuppfærslunni) og er bara þónokkuð skemmtileg. Sirkabát andstæðan við 300.
Bobby er næstum því hrikaleg. Hún svona sleppur. Estevez leikstýrir (þokkalega vel) og skrifar (hræðilega illa). Hugmyndin er helvíti þétt: að fylgjast með liðinu sem særðist í skotárásinni á Robert Kennedy, frá því það kemur á hótelið og þartil það liggur í blóði sínu í eldhúsinu. En allar þessar sögur eru svo mikill sykur að það hálfa væri nóg. Og nú ætla ég að skemma söguna fyrir hverjum sem vill:
- Söngkonan lætur einsog tík alla myndina, en það er í lagi því hún játar að lokum fyrir hárgreiðsludömunni að hún sé alki.
- Strákarnir droppa sýru og sinna ekki skyldum sínum fyrir kosningamiðstöðina, en það er í lagi því löggan nær dópsalanum í lokin.
- Hótelstjórinn heldur framhjá konunni sinni, en það er í lagi því hann dömpar framhjáhaldinu áður en konan kemst að því.
- Mexíkóinn kemst ekki með pabba sínum á hafnaboltaleikinn, en það er í lagi því hann gefur miðana sína (selur þá ekki) og fær að vita að hann sé ,,ungur konungur." (Þessvegna er það hann sem fær að halda undir hausinn á Kennedy þegar hann liggur deyjandi á eldhúsgólfinu.)
- Yfirmaður Mexíkóans er rasisti, en það er í lagi því hann hefur líka gaman af hafnabolta.
- Parið unga giftir sig svo að gaurinn verði sendur eitthvað annað en til Víetnam þegar hann verður kvaddur í herinn (og svo þau fái peninga frá ríkinu), en það er í lagi því þau verða ástfangin nokkrum mínútum fyrir giftinguna.
- Og svarti kosningabaráttutappinn er reiður ungur maður, en það er í lagi því hann vantar bara konu til að róa sig niður.
Og allir virðast halda að Kennedy sé kristur endurfæddur.
Everything Is Illuminated er skemmtileg bók. Langtum betri en seinni bókin hans. Ég var svo viss um að ég ætti myndina á disk hérna einhverstaðar en það virðist ekki vera.. en ef ég man rétt þá þynnti hún söguna umtalsvert.
Og ég átti að fara á tónleika í kvöld, helvítis. Arcade Fire í KB Hallen. En svo fær söngvarinn víst ennisholubólgu og getur ekki stunið upp versi. Lélegt maður ha. Engin músík fyrir mig.
-b.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli