20 október 2017

Það sem hvarf fyrir stuttu síðan

Tilhugsunin um að festast, fagurfræðilega, hugmyndafræðilega, í unglingsárunum er hrikaleg og óumflýjanleg. Ég er að teygja unglingsárin rétt uppfyrir tvítugt hérna held ég.

Ég man ekki alltaf hver ég var þegar ég skrifaði það sem ég skrifaði hér á þessa síðu. En ókunnugleikinn er aldrei meiri en þegar facebook birtir mér "minningar" frá því fyrir fjórum eða fimm árum síðan. Topp tíu Bítlalög? Hvaða maður er þetta? Var sú tíð að ég las Kjarnann í vikulegri útgáfu? Þessi nýliðna framtíð er ekki gleymd einsog dagar sem mokast yfir, hún er gleymd einsog draumur.

Á hinn bóginn: þetta eru einmitt ekki minningar heldur það sem annars mígur niður grindina.

...

Ég er að ljúka við Sæmd eftir Guðmund Andra og mér leiðist hún að mestu. Megnið af bókinni gerist í höfðinu á þremur aðalpersónum og ég fletti og fletti og ekkert gerist. Gröndal fleytir kerlingar á minningum sem gætu orðið að sögu ef hann dveldi nú við þær að einhverju ráði, en í staðinn glitrar allt í fallegum tilvísunum í textana sem Gröndal skrifaði sjálfur, ekki best-of en meira svona sampla-súpa. Í umfjöllun um bókina talaði vera um fanfiction minnir mig, það er ekki fjarri lagi.

Á einum stað rifjar Björn Olsen upp grein sem hann skrifaði gegn kaupfélagi fyrir norðan. Hann er að tala við vini sína en í stað þess að segja þeim það sem honum finnst, þá fer hann með útdrátt úr grein sem hann skrifaði fyrir nokkrum árum, á einum stað vitnar hann í sjálfan sig orðrétt.

Ég fæ það á tilfinninguna að hér sé of mikil virðing borin fyrir heimildunum, að þetta sé trailer fyrir Dægradvöl og önnur samtíða skrif.

Reyndar er þessi kafli þar sem Olsen vitnar í sjálfan sig með því áhugaverðasta sem birtist í bókinni. Þar dúkkar upp draugamynd af Kaupfélagi Skagfirðinga, en þá sem kímeru gyðinga-okurlánara og einokunarverslunar. Olsen sér tilraunir til framfara í hinu neikvæðasta ljósi sem hann þekkir, og kannske ekki að ósekju. Einsog segir áður í bókinni þá sjá Olsen og samkennarar hans (nema Gröndal, naturligvis) illskuna sem náttúrulögmál. Hvenær verður lánastarfsemi okurlánastarfsemi? Hvenær verður innkaupasamfélag til þess að útiloka alla aðra verslun á svæðinu?

Olsen sér okurlánastarfsemi ekki nema í formi samtaka gyðinga, kaupfélagið verður þá að bænahúsi sem hann vill brjóta niður svo ekki standi steinn yfir steini. Öll áherslan á aga og þjóðveldi tekur þá beina línu í nasisma framtíðarinnar. Það er hálfstuðandi hvernig bókin sem annars fer frekar mjúkum höndum um Olsen, hann sem þykir vænt um son Slembis, hann sem spilar á gítar og yrkir og talar á háfleygum nótum um guð og fegurðina, hvernig hún sýnir að blind staðfesta, húmorsleysi og hefnigirni leiðir fólk í allra verstu átt.

...

Við Nanna erum að fara í leikhús í kvöld. Sjá Tímaþjófinn.

...

Ég glugga í bækurnar sem eru að detta inn og jesús góður hvað þetta virkar allt einsog sama sullið. Veröld dásemdar lof að ég þarf ekki að færa einhverja konkret skoðun í letur.

-b.

10 október 2017

Blade Runner 2049

Mér sýnist ég vera í minnihluta þeirra sem ekki fíluðu nýju Blade Runner myndina.

Ég myndi segja að hér eftir komi nokkrir léttir spojlerar.

Hún vinnur í sömu fagurfræði og gamla myndin gerði svo vel, en hún fer líka aðrar slóðir. Sem er fínt. Hún lúkkar vel. Og ég var alveg kátur með hana fyrir hlé. 

Ég sagði við Gunnar Marel að ég hreinlega kviði fyrir því að sjá Harrison Ford á skjánum. Ég var sannfærður um að hann myndi draga myndina oní ræsið.

En hann þurfti ekki einusinni að birtast á tjaldinu; áður en við sjáum honum bregða fyrir heyrum við hann vitna í Fjársóðseyjuna, algerlega út í loftið, línu sem bætir engu við og hefur enga tengingu við neitt. Það að Deckard hafi lesið Fjársjóðseyjuna síðan við sáum hann síðast á væntanlega að segja okkur eitthvað? Um þroska persónunnar í millitíðinni? Það er nefnilega hluti af mýtósi gömlu myndarinnar að Deckard sér kollega sinn lesa bókina á sjúkarhúsi í senu sem var klippt útúr gömlu myndinni. Fjársóðseyjan er komin úr höfundarrétti, á að heita klassík þó enginn lesi hana lengur, er þar af leiðandi seif leikmunur til að hafa í höndum í sjúkrahússenu.

En hún birtist (næstum því) í gömlu myndinni! Og þá þarf að finna henni stað í nýju myndinni!

Það eru allnokkur svona atriði: hlutir, línur og smáatriði sem eiga að kallast á við gömlu myndina. Og sá fyrirferðamesti og tilgangslausasti þeirra allra er Harrison Ford.

Semsagt: hann fer með línuna úr Fjársjóðseyjunni, hann lemur Ryan Gosling, gefur hundinum sínum viskí, fílar Elvis, vorkennir sjálfum sér fyrir að hafa yfirgefið barnið sitt, en hei það þurfti einhver að gera það. Þess utan hefur hann ekkert hlutverk í þessari mynd. Hann hittir vonda kallinn (sem geri heldur ekkert í þessari mynd), hann er handsamaður og er næstum því drukknaður og við eigum að vera á nálum yfir því hvort hann lifi en svo man hann alltíeinu hvernig bílbelti virka og þá er hættan liðin hjá.

Hann er leikmunur sem var í gömlu myndinni -- og þá þarf að finna honum stað í nýju myndinni! 

Nema það er ekki hægt að veifa honum framaní tjaldið, blikka alla í salnum "manstu?" og stinga honum síðan aftur oní vasa. Nei, ef Harrison Ford mætir í tökur þá þarf hann að hafa eitthvað að gera. Þannig að tekur við myndinni af Gosling, meira og minna, og í kjölfarið meikar ekkert sens.

Senan þegar "plottið" kemur saman í neðanjarðarbyrginu eða hvað þetta var. Hún sem dæmi. Hvernig tengist hún restinni af myndinni, nema bara til að segja okkur hvað Gosling vissi ekki fyrir hlé? Og hvernig er hægt að halda því fram að endirinn á myndinni komi þessari mynd hérna, Blade Runner 2049, þessari sem við erum að horfa á akkúrat núna, að hann komi henni nokkuð við? Þetta er endir á einhverri ímyndaðri kvikmynd sem við eigum að sjá fyrir okkur gerast inná milli gömlu myndarinnar og þessarar, vegna þess að það var ekki hægt að leyfa Deckard og Rachael að flýja í friði.

Myndin snertir á þessu í tvígang og í bæði skiptin er það Harrison Ford sjálfur sem færir það í orð. Gosling spyr hversvegna hann hafi flúið frá konu og barni, Ford segir: "sometimes, to love someone, you've got to be a stranger." Myndin þarf ekki á Harrison Ford að halda. Það er augljóst af því hversu litlu hlutverki hann þjónar, og hversu vel gengur áður en hann mætir á svið. Það besta sem hann hefði getað gert væri að halda sig frá henni. Vertu ókunnugur mister Ford. Í almáttugs bænum.

Seinna býður vondi kallinn honum að fá Rachael aftur, hann geti smíðað hana uppá nýtt og þau Ford geti lifað hamingjusöm til æviloka. Ford segir nei, og finnur formlega ástæðu til að hafna eftirmyndinni, en ástæðan er augljóslega sú að jafnvel þótt Rachael hafi verið tilbúningur þá er eftirmynd hennar alltaf bara eftirmynd, og þá vantar blaðsíðurnar inná milli: lifuðu árin sem gefa sambandinu gildi. 

Þessi grey maður, Harrison Ford, býr með þeirri bölvun að hafa leikið aðalhlutverk (eða þvísemnæst) í Raiders, Star Trek og Blade Runner, og lifa nógu lengi til að láta plata sig í framhaldsmyndir allra þriggja. Og af því hann á enn að heita stjarna, þá þarf að smíða allskonar vesen í kringum hann til að réttlæta það að koma honum fyrir í þessum seinni tveimur.

Og það eru ekki bara þessar sæfæ framhaldsmyndir sem hann togar á skjön.

Við Nanna horfðum á rómantíska gamanmynd um daginn sem var svona hálfrómantísk og sennilega fyndin á köflum? Hún heitir Morning Glory. Rachel McAdams leikur nýjan pródúsent á morgunsjónvarpsþætti, sem er stýrt af Diane Keaton og Harrison Ford. McAdams hittir nýjan gæja (Patrick Wilson) og þau verða fljótt og örugglega ástfangin, ekki mikið drama í gangi þar. En svo dömpar hún honum hálfpartinn um miðja mynd og við tekur kafli sem er svona hálfpartinn samt alls ekki byrjun á ástarsögu milli McAdams og Ford. 

Þar koma allir kunnuglegu kaflarnir úr rómantísku ástarsögunum, þar sem þessi úrilli gaur fer rosa mikið í taugarnar á henni, og hann er alltaf meira og meira hissa á því hversu fær hún er í starfi. Hann lýgur að henni og fer á bakvið hana til að redda fréttamanns-egóinu og hún dáist að honum fyrir það. Síðan sannfærir hann hana um að taka ekki við betra djobbi, sem hana langar í, en vera frekar áfram hjá sér í morgunþættinum, þar sem hann getur haldið áfram að gera lítið úr henni.

Þannig kemur einhverskonar lúkning á þeirra faglegu ástarsögu. Það sem gerist næst er þetta:

McAdams nær aftur í gæjan sem hún saltaði að ástæðulausu fyrir sirka 40 mínútum.

Og Ford tekur saman við Keaton og þau rölta inní sólarlagið. Þetta hafði aldrei verið gefið í skyn fram að því.

Þannig að Ford tekur við hlutverki í þessari rómantísku fréttastofugamanmynd, sem gæti verið tvöföld ástarsaga ásamt smá vinnudrama, en vegna þess að hann er úrill górilla er sagan beygð í kringum hann þartil hún stendur á haus. Þetta má eiginlega ekki vera eiginleg ástarsaga, vegna þess að það eru 36 ár á milli þeirra og það er óhuggulegt. En þetta má vera ástarsögulíki, með árekstrum og upphrópunum og misskilningi og þar fram eftir götunum, og á augnablikinu þar sem hæfilega misaldra par myndi kyssast og slútta myndinni getur McAdams sótt gæjann í ísskápinn og Ford látið sig hafa að leiða burt konu sem er bara fjórum árum yngri en hann.

Sem sagt. Harrison Ford er skaðvaldur. Hann er hálfáttræður steypuklumpur sem Blade Runner 2049 dregur fram til að sækja blessun yfir framhaldsmyndina, og hann þakkar fyrir sig með því að þvinga lestina út af sporinu og draga hana með sér oní skurð. Það er ekki einusinni einsog hann taki myndina af Gosling, heldur stöðvast myndin bara um leið og þeir þurfa að skipta henni á milli sín allt í einu! Og svo heldur hún áfram í sporunum í rúmlega klukkutíma eftir það. Jesús almáttugur hvað myndin er löng eftir hlé.

Ég hafði lesið að Villeneuve væri að leikstýra myndinni en ég mundi það ekki þegar ég fór á hana. Arrival fannst mér æðisleg, Prisoners, Enemy, Sicario, allar frábærar. Það er sosum ekki alltaf hægt að gera öllum til hæfis en það er hægt að stórauka líkurnar á því að halda góðri hrinu gangandi og hún er að gleyma Harrison Ford.

-b.

12 maí 2017

Bjórpunktar úr Berlínarferð

Ég var semsagt í Berlín fimmtudag til mánudags, 4.-8. maí síðastliðinn. Mig langar að punkta aðeins hjá mér um bjórleiðangra, því maður er fljótur að gleyma. En fyrst,

Formáli


Þetta var kynnisferð með vinnunni, við vorum að skoða söfn og fleira hér og þar í borginni. Þar var fátt sem kom á óvart, bókasöfnin þar eru að hugsa á svipuðum línum og við. En söfnin þar eru betur sótt. Það var allskonar dótarí sem mér fannst gaman að sjá og pæla í hvernig mætti færa yfir á það sem við gerum, en ég nenni ekki að skrifa um það hér.

Nema eitt: Við fórum á nýtt bókasafn Humboldt háskólans, sem var stórglæsilegt. Háskólinn sjálfur er víst ekki svo gamall á þeirra mælikvarða, ég man ekki hvort hann sagði 200 eða 300 ára. Bókasafnið hafði þróast úr því að vera læst herbergi hér og þar í hinum ýmsu deildum yfir í stærri einingar, og nú hafa þau opnað þetta stórglæsilega safn. Sem er öllum opið, ekki bara háskólanemum (hvað þá bara nemum þessa tiltekna háskóla) en það er þó aldurstakmark. Gestafjöldinn er hálfgert vandamál, safnið er aðlaðandi staður.

Og það var aðallega það sem ég greip á meðan við vorum þar, ég fékk þessa Bókhlöðutilfinningu, nema aðeins ýktari, þar sem maður finnur að það er búið að hanna rýmið fyrir lestur og lærdóm. Bókakosturinn var alls ekki áberandi; gestirnir gátu pantað bækur og nálgast þær auðveldlega en rýmið miðaðist ekki við bókahillur heldur vinnusvæði. Mig langaði pínu bara til að vera þar eftir.

En!

Ég gerði það ekki vegna þess að þegar heimsóknatörninni lauk vildi ég drekka bjór.

Ég var með nokkra staði punktaða á korti. Ég sótti maps.me appið til að eiga kort offlæn (ég hef síðar frétt að google maps bjóði uppá niðurhal -- en ekki hvað! -- og hefði sennilega kosið það frekar, geri það næst). Punktaði hina og þessa staði niður og sá þannig út hverskonar túra ég gæti farið þennan og hinn daginn.

Fimmtudagur


Flaschbierschop við Fehrbelliner Strasse


Ég kíkti þar vegna þess að það var tiltölulega stutt frá hótelinu, ég var of þreyttur til að setjast inná bar og ætlaði að kaupa einn eða tvo til að tékka á, koma svo aftur seinna til að versla ef það væri varið í staðinn.

Það var varið í staðinn en ég kom auðvitað aldrei þangað aftur. Það var of mikið að sjá og gera.

Þetta var endurtekning á Amsterdam að því leyti, þar var búð sem ég heimsótti fyrsta kvöldið og náði svo aldrei að sækja aftur, svo ég fór heim með blint bland í poka.

En semsagt, þessi staður var flottur. Lítil hola en alls ekki gamaldags, bjór uppum alla veggi, nokkrir kælar, ekkert flokkunarkerfi sem ég kom auga á -- þó það hljóti að hafa verið til staðar. Þarna var líka hægt að kaupa bjórtengdan snafs og þessháttar, falleg kraft-framleiðsla sem ég hefði skoðað betur hefði ég komið aftur. Þeir voru með amk. einn kassa af Einstök, white ale ef ég man rétt? (Það var eini íslenski bjórinn sem ég sá bregða fyrir þarna úti.)

Ég keypti nokkrar flöskur af lókal bjór, drakk bara eina þeirra, einhvern kaffibættan pale ale sem var ekki neitt neitt. Það var böns af spennandi flöskum þarna en ég semsagt „geymdi“ að skoða þær betur og fór sem fór.

Ég held ég tali ekki um einstaka bjóra, vísa frekar í untappd-prófílinn þar sem þetta er meira og minna loggað. Netið var svona og svona.

Föstudagur


Mikkeller bar við Torstrasse


Fræðslurúnturinn endaði þar rétt hjá og við Ragna kíktum í tvo. Annars hefði ég nú sennilega ekki leitað hann uppi, það er stutt að fara á Hverfisgötuna. Barinn var einsog við mátti búast: settlegt innvols, góð þjónusta, góður bjór í dýrari kantinum m/v Berlín.

Það var ekki mikið að gera þarna um sexleytið, ég kom aftur þar seinna um kvöldið og þá var þéttsetinn bekkurinn.

Brewdog við Rosenthaler Platz


Þarna fór ég um kvöldið, ég skrifaði um þá tilfinningu hér í gær. Hverfið var frekar einmanalegt, komið rökkur og ég var pínu óviss um hvert ég væri að fara. En þegar ég kom fyrir hornið og sá barinn þá var hann einsog ljósapera sem flugurnar suðuðu í kringum. Þar voru allir. Ég fékk sæti á bekk fyrir framan staðinn, pantaði nokkra bjóra og pítsu, sem var góð.

Þeir voru með bjórkæli við enda barsins, ég spurði, verandi Íslendingur, hvort ég mætti nokkuð kaupa bjór til að taka með útaf staðnum. Barþjónninn benti mér á að það væru tvö verð við hverja dós og hverja flösku: Það lægra ef maður tæki með sér heim, það hærra ef maður vildi drekka á staðnum. Þá lagðist semsagt oná smávegis gjald. Corking fee. Ég tók með mér þrjú stykki, þar á meðal eina flösku af ítölskum RIS sem ég á eftir að opna.

Laugardagur


BRLO Brewhouse við Schönenberger Strasse


Óheppni: staðurinn sjálfur var lokaður fyrir einkasamkvæmi.

Heppni: bjórgarðurinn fyrir aftan var opinn og það var fínasta veður.

Óheppni: þeir seldu bara lítinn hluta bjóra sinna útí garð, þetta mest normal dót og bara sína framleiðslu.

En semsagt, þessi staður var frekar stór, leit út einsog stafli af flutningagámum. Ég kom útúr lestarstoppinu og þar var flennistór borði sem auglýsti staðinn, inngangurinn var svo handan við hornið. Ég hafði þrammað víða um borgina, kom þarna seinnipartinn og það var ósköp gott að geta sest niður í nokkra.

Bjórarnir voru fínir á heildina litið. Það var alltaf smá svona röff eftirbragð sem ég tengi við pilsnermalt? Ekkert sælgæti sem ég myndi leita í aftur, en vel brúklegt fyrir nokkra tíma í bjórgarði -- og nokkrum herðum og höfðum skárra en eintómur pilsner, en það var sosum aldrei á dagskrá.

Vagabund Brauerei við Antwerpener strasse


Lítill staður í Wedding sem gerir sinn eigin bjór. Þeir voru með lítinn kæli fullan af allskonar fínu dóti, engu sem kom á óvart en gott að geta gripið til. Kranalistinn ekki langur en það þarf heldur ekki ef maður vill sama bjórinn aftur.

Þeir gera góðan bjór, staðurinn er þægilegur, góð tónlist, fínt andrúmsloft. Þjónustan var ekki uppá marga fiska svo ég myndi ekki endilega mæla með honum fyrir það sem er kallað mixed company. Aðspurðir hvort þeir ættu eitthvað óáfengt fyrir góðtemplara buðu þeir uppá gvendarbrunnvatn. Jæja.

Ég myndi fara þangað aftur einn míns liðs, RIS-inn var með þeim bestu sem ég smakkaði í ferðinni.

Sunnudagur


Muted Horn við Flughafenstrasse


Ég spurði ekki hvort nafnið (og meðfylgjandi lógó) væri innblásið af The Crying of Lot 49, því ef það væri ekki myndi ég gráta. Þetta var annars of gott. Fallegur staður, opinn, góð útisæti, góð þjónusta, böns af borðspilum og annarskonar spilum fyrir gesti, og langur og flottur kranalisti. Smakkbakkarnir voru á góðu verði, Boneyard hafði tekið yfir kranana hjá þeim kvöldið áður eða þaráður svo það var smá nammi frá þeim enn á krana, en allt var gott.

Þarna var ég búinn að gefa seinni viðkomu í Flaschbierschop á bátinn, en það var önnur sjoppa öllu nær sem ég vildi heimsækja á leið niðrá hótel. En ég ílengdist og hætti við það. Keypti þess í stað eina fimm bjóra á barnum og á fjóra til góða heima í kæli. Það kom beygla á tappann á einum þeirra á leiðinni heim, svo við Nanna drukkum hann kvöldið sem ég kom heim.

Það voru svona tveir staðir enn sem ég hefði endilega viljað heimsækja (Hopfenreich, Drink Drunk Berlin), og svo nokkrir í viðbót sem ég hefði bætt á listann ef ég hefði haft tíma til (Kaschk, Monterey). En sá tími fór í skoðunarferðir, túristun, örstuttan verslunarleiðangur og svefn.

Ég þarf bara að fara aftur.

-b.

10 maí 2017

Þetta virkar ekki lengur, það heyrist ekkert

Ég fór til Berlínar um daginn.

Líkamleg tilfinning sem fylgir því að vera kominn ofaní miðjuna á einhverju kerfi sem ég hef aldrei snert áður, sem þarfnast bygginga sem eru stærri en mínar byggingar, sem þarfnast mannfjölda sem er stærri en minn mannfjöldi, sem byrjaði áður en mitt byrjaði, sem hefur gert betur en ég. Hún er í hálsinum, brjóstinu og bakvið augun.

Líkamleg tilfinning sem fylgir því að ganga uppá mannvirki sem var þar fyrir hundrað árum, og svo ekki fyrir fimmtíu árum, og er þar svo aftur núna; halla sér yfir handriðið, lesa nöfnin sem eru greipt í koparinn og ímynda sér á nokkurra sekúndna fresti að gæinn fyrir aftan mig grípi um ökklana á mér og vippi mér yfir, hvers vegna ég veit það ekki. Hún er í lærunum.

Líkamleg tilfinning sem fylgir því að ganga uppúr neðanjarðarlestarstöð nokkru norðar eftir myrkur og vera allt í einu einn af þremur eða fjórum á ferli, gangan tekur aðeins lengri tíma en á kortinu og maður man ekki alveg hvað rak mann þangað fyrr en kemur fyrir hornið og þá eru allir mættir þangað á undan manni. Hún er á enninu. Og í maganum.

Líkamleg tilfinning sem fylgir því að ganga einhver helvítis ósköp til að skoða bara meira, með bakpoka fullan af drasli sem maður tekur aldrei upp, og ágerist og rénar ekki fyrren á bekk á litlu torgi í garði sem lítur út fyrir að halda áfram útí hið óendanlega, kortið segir að þarna inni séu styttur sem heiti nöfnum en ef maður fer út í það kemst maður aldrei að sjá það sem er hinumegin við götuna. Hún er í kálfunum, iljunum, mjóbakinu.

Tilfinning sem fylgir því að sitja á bauta sem er hluti af minnismerki um afskaplega háa tölu af dauðum einstaklingum, skella uppúr yfir einhverju sem Kurt Vonnegut sagði í fréttaviðtali um bandaríska pólitík; ganga ofaní þetta sama minnismerki stuttu áður, hægt og þétt en allt í einu sér maður ekkert nema línustrikaða ganga plús og mínus, og þarna bregður fólki fyrir og svo hverfur það fyrir hornið; lesa síðar að sumir bautanna halli og það sé hluti af verkinu, en að sprungurnar sem eru farnar að myndast á nokkrum þeirra séu það ekki, og að auðvitað hafi þurft að þrífa hakakrossa af þeim, og að til þess hafi þeir verið húðaðir með sérstöku efni, og að fyrirtækið sem útvegaði efnið sé á einhvern hátt tengt efnaframleiðslu fyrir þriðja ríkið í denn. Hún er ekki í líkamanum, hún er annarstaðar.

-b.

01 janúar 2017

Best ársins 2016

Ólíkt því sem verið hefur í seinni tíð þá ætla ég að hefja þessi árslistaskrif áður en árið rennur út. Ekki svo löngu áður, nú er 29. desember.. en vonandi lýk ég þessu fyrir mars á næsta ári. [Meira og minna. Ég geymdi 99% klárað draft þar til í dag, 26. júní. Bæti við einni línu eða svo og birti núna.]

Ég var reyndar að renna yfir lista ársins 2015 og það kom mér á óvart hvað ég var skýr á köflum. Lýsingin á Gerplu er bara fín. Vel gert ég fyrir tæpu ári síðan!

Hvar byrjum við. Bækur?

BÆKUR

Ég hef trassað pappírs-lestrardagbókina mína en það kemur fyrir að ég muni eftir Goodreads. Ef ég renni yfir það sem ég hef skráð árið 2016 þá standa þessar uppúr:

Freedom eftir Jonathan Franzen

Geirmundar saga heljarskinns eftir Bergsvein Birgisson

Ef að vetrarnóttu ferðalangur eftir Italo Calvino, þýðandi Brynja Cortes Andrésdóttir

Það er sennilega ódýrt að segja að þær standi uppúr: á þessum góða Goodreads lista eru bara ein önnur skáldsaga og eitt smásagnasafn: Stefnuljós eftir Hermann Stefánsson og Sofðu ást mín eftir Andra Snæ Magnason. Báðar eru mjög fínar. Þetta eru allt góðar bækur, enda lauk ég við þær allar; ég gæti sennilega talið upp nokkrar sem ég hóf og henti frá mér ef ég myndi þær. En hvernig sem á það er litið var þetta ekki mikið lestrarár.

Stefnuljós skilur einhvernveginn ekki jafn mikið eftir sig og aðrar bækur Hermanns. Sofðu ást mín kom mér talsvert á óvart. Ég hefði ekki búist við slæmu smásagnasafni frá Andra Snæ, ég á ekki við það. En það er eitthvað við bókina sem ég hefði ekki tengt við hann fyrirfram. Aðrir hafa talað um að hún sé persónuleg og innileg -- sem er rétt, en ég myndi frekar nota orðið berskjaldað. Og í öllum þessum tilfellum held ég að við séum að tala um söguna Legoland. Að hinum sögunum ólöstuðum. Nema Hamingjusaga, ég er til í að lasta hana við betra tækifæri.

Um Freedom gæti ég reyndar sagt það sama og Stefnuljós: hún skilur ekki jafn mikið eftir sig og The Corrections. En hver gerir það sosum? Freedom er sprúðlandi, hún er margradda flettireka, fjölskyldusaga, samtímasaga, saga um kapítalisma og.. heimsku? En í þeim skilningi að fólk breytir gegn hagsmunum sínum og betri vitund allan daginn alla daga.

MYNDASÖGUR

Hluti af 100 Bullets (Dirty), Injection. Böns af slæmu dóti!

2016 mun og hafa verið árið þegar ég sætti mig við að Alan Moore hefur misst það, og það sem meira er: að það gerðist fyrir rúmum 10 árum síðan, að minnsta kosti. Lost Girls er rusl, Leagoe oEG: Century sömuleiðis, Black Dossier var í endurliti óskaplega underwhelming.

En, furður furða, Warren Ellis stendur honum á sporði (í þessum slagsmálum uppáhaldshöfundanna sem eru aldrei til nema í höfðinu á lesendum og einstaka sinnum í höfði Alan Moore sjálfs) þar sem hann er enn að gera gott gott stöff einsog Injection.

SJÓNVARP

The Good Wife var fyrirferðarmeiri en mig hefði grunað. Nanna horfði á þá alla í gegn og ég sá þarafleiðandi helling af þeim. Tuttugustu og fyrstu aldar lögfræðidrama, sem reynir að snúa uppá formið á allskonar vegu, ég hafði oft mjög gaman af þeim.

Game of Thrones og The Americans það eina sem ég sá í gegn, af því sem kom út á árinu. Ég er límdur yfir GOT en ekki yfir mig hrifinn, Americans er hinsvegar það besta sem ég veit.

Bojack Horseman, 2-3. Ég hef verið dálítið hugsi yfir áfengisneyslu í sjónvarpi undanfarið.

Á mínu heimili koma tímabil, ekki ósvipuð rigningartímabilum annarstaðar í veröldinni, þegar Friends er í sjónvarpinu. Einn daginn kem ég heim og Netflix er stillt á Friends, og það er svo þangað til Chandler segir "Where?" og gengur útúr íbúðinni. Það kemur Bojack og áfengi ekki við nema til að segja að í einhverjum Friends þáttanna sem sýnir hvernig líf vinanna var áður en þættirnir hófust -- áður en Ross var kokkálaður, áður en Rachel trúlofaðist, áður en og áður en -- kemur fram að vinirnir hafi áður fyrr hist á bar. Barinn hafi vikið fyrir Central Perk og þau hafi einfaldlega haldið áfram að hittast á sama stað, en við allt aðrar aðstæður. Á barnum eru bjórflöskur og billjarður. Á kaffihúsinu eru kaffi, sófar, sætabrauð. Barinn var fyrir fólk á miðjum þrítugsaldri, ríflega þrítugir vinirnir drekka frekar kaffi.

Brandarinn er þessi: Chandler fréttir af fyrirhuguðum breytingum og segir: "Bara kaffi? Hvar eigum við þá að hittast?"

Og meiningin á bakvið brandarann er þessi: Chandler gefur sér að þeirra kynslóð blandi geði á barnum, en sannleikurinn er sá að þau eru að eldast og þjóðfélagið að breytast. Brandarinn bakvið brandarann er sá að um leið og þau eldast nenna þau síður að finna sér annan stað, og láta einsog þau kjósi kaffihúsið á gamla staðnum frekar en bar annarstaðar.

Ég las þetta líka alltaf sem yfirlýsingu Friends um eignarrétt sinn á tíunda áratugnum. Níundi áratugurinn hafi tilheyrt Cheers oní kjallara í Boston, þar sem fólk annaðhvort dældi bjór og lúkkaði ágætlega, eða drakk hann dag eftir dag og var frekar aumkunarvert. Nú drykkju hetjurnar kaffi og skrýtna fólkið og lúserarnir serveruðu það.

Ég er enn að koma mér að efninu!

Hinsvegar hafa aldrei komið How I Met Your Mother tímabil á mínum bæ. En ég hef séð allnokkra þætti og þar drekka hetjurnar bjór á barnum þar sem þau hittast reglulega. Þannig að kannske er kynslóðaskiptingin ekki svo skýr.

Málið er að ef söguhetjurnar drekka áfengi svo til daglega stendur valið á milli þess að gera þær aumkunarverðar að einhverju leyti, eða gera lítið úr neyslunni sem þær stunda. Cheers myndi ég segja að fari fyrri leiðina, HIMYM fer seinni leiðina; ekki vegna þess að þættirnir leggi upp með það endilega, heldur vegna þess að áhrifin sem neyslan hefur á daglegt líf persónanna er svo misjöfn.

Bojack Horseman hefur eitthvað að segja um neyslu áfengis og vímuefna og þættirnir gera það með því að normalísera neysluna til að byrja með, en koma síðan með skell þar sem uppsafnaður ólifnaður hefur einhverskonar afleiðingar. Þetta er vandmeðfarið vegna þess að ef byttan heldur ótrauð og óminnkuð áfram eftir að hafa fengið skellinn þá voru afleiðingarnar engar í raun og veru. Bojack er á grensunni vegna þess að þeir hafa notað þetta í bæði 1. og 3. seríu.

Rick & Morty 1-2. Alger Harmon. Sitkom í öllum mögulegum veröldum. Hvað vill maður meira?

Milli jóla horfði ég á slitur af OA og loks síðustu tvo þættina í heild. Lokasenan var stuðandi og áhrifamesta set piece sem ég sá í sjónvarpi á árinu, og sennilega lengra tilbaka. Má þetta? hugsaði ég. Er þetta hægt? Og það var hægt. Senan lenti ekki alveg á fótunum, svimaði dálítið í restina, en hvílíkt heljarstökk.

Í fyrra hafði ég W/ Bob & David hér í þessum flokk. Það var vel. Í ár hlustaði ég (og horfði) á uppistandsplöturnar þeirra beggja, Amateur Hour með Bob Odenkirk og Making America Great Again með David Cross. Þær eru báðar arfaslakar. Odenkirk stillir því þannig upp að hann sé ekki uppistandari og að þetta sé meira og minna tilraun til að segja brandara á sviði. Það tekst þokkalega, en platan er samt ekkert sem nokkur þarf að heyra, þrátt fyrir einn eða tvo virkilega góða brandara. MAGA sýnir bara að Cross er ekki fyndinn á sviði lengur. Hann á töluvert inni fyrir Shut Up You Fucking Baby og It's Not Funny en MAGA er hálf vandræðaleg á köflum.

Og talandi um vonbrigði með ný uppistönd frá góðum uppistöndurum: Crying and Driving með Paul F. Tompkins og Speaking for Clapping með Patton Oswalt. Báðir hafa gert svo miklu, miklu betur. Tímasetningin á útkomu Speaking for Clapping er slæm, svo ekki sé meira sagt. Frásögn Oswalts af láti eiginkonu hans er hrikaleg.

Gott sjónvarp úr svipaðri átt hinsvegar: Garfunkel & Oates. Sjúklega gott stöff. Spesjallinn þeirra, Trying to be Special, er líka fyndinn, en þættirnir steinliggja fyrir mér.

BÍÓ

Ég fór ekki í bíó í ár og ég held áfram að segja hverjum sem nennir að heyra að ég hafi hætt viðskiptum við kvikmyndahús eftir að hafa séð Hobbitann 2 í Smárabíó fyrir þremur árum síðan. Þetta er svona týpískt hipstera gaspur og í þessu máli hæfir það mér: ég er of töff til að fara í þetta ömurlega bíó.

Þó ég hætti að fara í bíó átti ég það nú samt til að sjá kvikmyndir heima hjá mér en nú virðist ég hafa hætt því líka, eða því sem næst. Úlfhéðinn er ekki kominn á það stig að vilja sitja undir heilli bíómynd í senn, svo það er eftir. En einsog stendur er einfaldlega ekkert bíó í gangi, hvorki fyrir mig né hann.

Því sem næst, því ég sá a.m.k. eina kvikmynd á árinu sem mér fannst þess virði að mæla með, það var Anomalisa, stop-motion myndin eftir Charlie Kaufman, í leikstjórn þeirra Duke Johnson. Hún kom mér gersamlega á óvart. Höfundamark Kaufmans er greinilegt en það breytir öllu að hann skuli skrifa fyrir brúður, ekki síst vegna þess að sagan tekur mið af forminu: hún gæti ekki gengið upp í læf aksjon, vill ekki vera þar.

Ég er ósköp meðvitaður um það að þessi kvikmynd sem ég er svo hrifinn af er formtilraun, metafiksjón og saga um hvítan karlmann sem á erfitt með að tengjast fólkinu í kringum sig. Ég verð að halda því fram án þess að geta nefnt dæmi um lélegar myndir sem tikka í þessi box, að myndin sé samt sem áður stórkostleg.

Sicario var önnur.

TÓNLIST

Það var fátt um uppgötvanir á árinu. Ég hlustaði allnokkrum sinnum á Hamilton söngleikinn. Annars var þetta ár enduruppgötvunar. Ég smakkaði á The Mountain Goats fyrir tæpum tíu árum síðan en datt þó ekki í rásina. Í ár hlustaði ég á þátt tileinkaðan hljómsveitinni og féll þá flatur fyrir plötunni The Sunset Tree og spilaði hana í tætlur. Ég endurnýjaði kynnin við All Hail West Texas, sem er æðisleg, og fann mig aðeins í Tallahassee. En The Sunset Tree er einhverskonar meistaraverk.

Þá var Mr. Beast með Mogwai á lúppu í aðdraganda jóla, ef ég man rétt þá náði ég henni ekki á sínum tíma, ekki einsog Happy Music... eða Rock Action, en nú var einsog hún opnaðist. Jólaplata.

That's all she wrote.

HLAÐVARP

Ég gerðist áskrifandi að Howl.fm á árinu, sem þýðir að ég held áfram að hlusta á sömu þættina og áður (sirkabát) en borga þeim sem búa þá til nokkra hundraðkalla á mánuði. Ég hætti reyndar að hlusta á Comedy Bang Bang! eða því sem næst, það slokknaði á einhverju annaðhvort hjá mér eða þeim. Og ég er alveg hættur að hlusta á Spontaneanation (Spontanianation?) því ég nenni ekki spunanum þeirra -- en Tompkins er ennþá uppáhalds grínistinn minn.

Ég gerðist líka „patreon“ hlaðvarpsins The Projection Booth, sem þýðir það sama til þeirra. Að vísu hef ég ekki hlustað á nema lítinn hluta þeirra TPB þátta sem hafa komið út síðan ég gerðist áskrifandi, myndirnar sem hafa verið til umfjöllunar höfða ekki svo mjög til mín. En þættirnir sem ég þó sæki eru alltaf þess virði, og þeir sem ég hef þegar sótt í sarpinn til þeirra hafa oft og tíðum verið algerir dýrgripir.

Hollywood Handbook hafa haldið áfram að vera pesta hlaðvarp veraldar. Þáttastjórnendurnir, Sean og Hayes, hafa líka komið fram sem gestir á Spont og Doughboys og ra-hústað þeim.

Ég hef líka sótt aftur og aftur í þann grunna, sæta brunn sem heitir The Reality Show Show. Þetta er podkastið sem Sean og Hayes voru með áður en þeir hófu Hollywood Handbook. Það byrjar sem frekar normalt poppkúltúr podkast sem fjallar um raunveruleikasjónvarp. Þeir fá til sín gesti sem horfa annaðhvort á raunveruleikasjónvarp eða eru í bransanum, og tala um þætti vikunnar, gera grín að því sem þeim finnst hlægilegt o.s.frv. Þátturinn þróast hægt og rólega yfir í það sem þeir fóru að gera með Hollywood Handbook, þar sem persónurnar "Sean" og "Hayes" verða sífellt meira áberandi, leiða umræðuna að sínum eigin hugðarefnum og sinni skálduðu tilveru.

Ég mæli ekki með þeim við nokkurn mann. Alls ekki hlusta á þetta!

En ég geri það vegna þess að ég er forfallinn aðdáandi og ræð ekki við mig.

Kurt Vonneguys hóf göngu sína á árinu. Þættirnir koma út mánaðarlega, tveir gaurar sem vinna á Cracked fjalla um bækur Kurt Vonnegut. Hingað til hafa þeir tekið fyrir Player Piano, Sirens of Titan, Mother Night, Cat's Cradle og síðast God Bless You, Mr. Rosewater. Þeir eru mjög færir þáttastjórnendur, hafa mikinn áhuga á bókunum og koma frá sér túlkun og pælingum á mjög skemmtilegan hátt. Hver þáttur er frekar langur, sem er alls ekki mínus þegar það er af nógu að taka í þessum dásamlegu bókum. Og ég er hlutdrægur, rétt eins og þeir: Vonnegut er bestur.

The West Wing Weekly byrjaði líka árið 2016 og er vel þess virði fyrir þá sem fíla The West Wing.

Og High & Mighty, þáttur og þáttur, hann er fyndinn.

-b.