11 mars 2007

Ég er Lesbók

Í sambandi við smekklausa pönnið mitt þá vil ég benda á að Lesbókin birti núna síðast minningargrein um karlinn með yfirskriftinni ,,Baudrillard allur - þar sem hann er séður." Sem mér finnst alveg jafn smekklaust en ekki eins sniðugt.

Því ég er svo sniðugur, það er það sem ég geri hérna allan daginn.

Undir yfirskriftinni ,,Ístöðulausir kjósendur" skrifar Gunnar Hersveinn:
Tómas Guðmundsson skáld beitti oft þverstæðum í skáldskap sínum til að varpa óvæntu ljosi á hluti. Setning sem kennd er við hann er eitthvað á þessa leið: ,,Ístöðuleysi er mín sterkasta hlið." Fullyrðingin er hugarhögg því gert er ráð fyrir að ístöðuleysi sé óumdeildur ókostur. Það er m.ö.o. talinn galli að geta ekki verið stöðugur í skoðunum sínum, málflutningi og afstöðu. Ístöðuleysi beinlínis merkir að vera laus í rásinni, hvikull, veiklyndur og jafnvel huglaus. Hinn ístöðulausi er í vafa og hikar andspænis vali.
Stjórnmálaflokkar nú um mundir keppast við að finna leiðir til að höfða til ístöðulausra kjósenda – óákveðnir kallast þeir. Óákveðnir, sem eru a.m.k. þriðjungur kjósenda, eru stundum skjallaðir með fullyrðingum um að þeir séu mikilvægir og dýrmætir kjósendur. En hvernig skapast þetta ístöðuleysi?

Mín spurning er ,,hvaðan kemur þessi helvítis vissa?"

Því hvenær hættir hættir fólk að fylgja manni með 'réttar' skoðanir og hvenær byrjar maðurinn að mynda sér 'réttar' skoðanir svo fólkið fylgi? (Og þá erum við að gefa okkur að skoðanir skipti yfirhöfuð máli, sem þarf alls ekki að vera. Samkvæmt nýjum könnunum sem hafa verið í fréttum og ég nenni ekki að leita að í augnablikinu, kemur fram að andlitsfall frambjóðanda hefur jafn mikil áhrif og hvað annað á hugsanlega kjósendur.) Kannske er það málið að ég velkist í vafa um sirkabát allt, og vantreysti fólki sem þykist visst í sinni sök. Hvernig dirfist þú að hafa myndað þér skoðun þegar þetta og þetta og þetta mælir gegn þér? Á hinn bóginn er það rétt sem Gunnar segir, að tilfinningin fyrir þessu ístöðuleysi sé almennt sú að þar sé fundinn veikleiki. Stjórnmálamenn standa fastir á sínum skoðunum, ergó þeir eru traustir sem jörðin og skulu leiða landið. Og svo framvegis.

En það sama á við um frelsaða, AA-liða, sölumenn, talnafræðinga.. Fólk sem veit hvað er í gangi og eyðir tíma sínum í að sannfæra aðra. Og mér finnst ég hafa rausað um þetta milljón sinnum áður. Hvern er ég að reyna að sannfæra?

Blarg. Það er sunnudagur og ég ætla niður að setja í vél. Klukkan er hálfsjö, dagurinn nýbyrjaður hjá sumum okkar. Sokkar í poka. Hér nota allir bláa fimmtíu lítra IKEA poka undir tauið.

-b.

Engin ummæli: