05 mars 2007

Ég tel kindur

Ég skil ekki hversvegna ég get ekki bara farið að sofa. Ég hef nákvæmlega ekkert að gera, en tilhugsunin um svefn fær mig til að skrifa um hluti sem ég skil ekki.

Afhverju talar fólk annars um hluti sem það skilur ekki? Eða, öllu heldur, hversvegna talar fólk um það að það skilji ekki ákveðna hluti? ,,Ég skil ekki xyz." Og hvað með það?

Á hinn bóginn má segja að þetta sama fólk haldi samtölum gangandi, á meðan ég leyfi þeim að hrasa á skallann, sprikla, blæða út og deyja í rigningunni.

,,A fanatic is someone who can't change his mind and won't change the subject." Kvótað eftir minni. En eru hugsjónir eitthvað annað en skoðanir? Hugsjón versus skoðun. Segir það mér eitthvað? Mér finnst fólk sem hefur hugsjónir athyglisvert, á sama máta og manni gæti fundist raðmorðingjar athyglisverðir. En ég get ekki einusinni slegið í það með mjöðminni: það að koma hlutum í verk er ekki endilega slæmt, sama hversu zen maður reynir að fíla sig.

Og þarf ég að mótmæla sjálfum mér í lok hverrar efnisgreinar? Munum kenninguna um vegasaltið og tvær tilbúnar hliðar hvers máls. Ef ég færi mig aðeins til vinstri eru góðar líkur á því að heilum annarra þyki skemmtilegra að færa sig til hægri. Ekki til að jafna út hallann heldur til að mótmæla. Ekki þegar við erum að tala um neitt sem skiptir máli, samt.

Þetta er 1980. Ég nálgast fæðingarárið mitt. Endurómar 101 Reykjavík, bergmál úr innbundnum blaðsíðum. DA-dara DA-dara DA-dara. Tölum saman einsog við séum bara til á prenti.

Vitleysingar hafa verið hljóðir síðan í febrúar. Enginn minnist á bjórafmælið þetta árið. Er það slæmt? Fjögur og hálft ár er kreisí. Og hvar eru allir eiginlega?

Ég hélt óafvitandi uppá bjórdaginn með því að smakka allskonar bjór. Ég á eftir að borga fyrir hann því ég átti engan pening. Síðan fékk ég pening og fór þá að drekka með norskum sálfræðistúdentum hérna einhverstaðar fyrir norðan. Ég hefði betur sleppt því.

It's a nice day for a fight wedding

Ég á mandarínur, en ekkert hrökkbrauð.

Á morgun ætla ég að kaupa bók. Eða bækur.

Ennþá furðulegra því þegar ég loksins læt undan og halla mér á koddann finnst mér þægilegt að sofna. En ég vil ekki taka lokaákvörðun um málið, ég þarf að bíða þangaðtil ég læt undan og lognast útaf.

Og þetta er allt eitthvað sem mér finnst ég vera að endurtaka. 1980. Tuttugu í viðbót. Ég er rúmlega 24 ára gamall. Í gamla daga væri ég líklegast dauður. Það var Flash Gordon og hún kom út sama ár og ég. Það er álitamál hvort okkar hefur elst betur.

Djöfulinn geri ég í sumar?

(Fyrir utan það að fara á Hróarskeldu. Þangað langar mig. Koma ekki allir með?)

-b.

Engin ummæli: