21 október 2012

Að kokka

Ég var að framkvæma tilraun í eldhúsinu og nú ilmar heimilið einsog súrsæta með vott af kanil. Ekki þessi oddhvassa súrsæta sem maður fær úr appelsínugulu flöskunni með drekanum á; ef sú er lækur þá er þessi frekar flói. Ég veit ekki hvernig ég get lýst því öðruvísi samt. Ilmurinn er sætur en líka sýrður, og það er eitthvað flæmi af allskonar bakvið.

..og uppskriftin er reyndar tekin af allskonar.is. Völundur eða frú Völundur, ef þú lest þetta einhverntíman á referrer-vappi: þú átt inni hjá mér eitthvað fallegt.

Nú er ég nefnilega allur í undirbúningi fyrir veislu sem á að hefjast eftir tæpa viku og ljúka eftir rétt rúma viku. Ég á ekki við að ég sé allur á kafi í vinnu, en það er einmitt meiningin: ég ætla að gera þetta jafnt og þétt yfir vikuna frekar en í flýti síðustu dagana á undan. Hingað til gengur það vel, en sjáum til hvernig vikulokin líta út.

Flest af því sem ég kem til með að bjóða upp á ætla ég að búa til sjálfur. Mér finnst hugmyndin heillandi og ég hef sérstaklega gaman af því. Ég hef líka verið dálítið iðinn við það upp á síðkastið, að búa til hitt og þetta í eldhúsinu sem ég hefði annars keypt tilbúið eða raða saman úr tilbúnu efni. Svo ég minnist ekki á bjórinn. (Og það kom mér reyndar dálítið á óvart um daginn, þegar ég var spurður hversu mikið ég hefði bruggað frá því ég byrjaði, að ég hafði lagt í 10 sinnum frá því í nóvember á síðasta ári, næstum því einu sinni á mánuði.) Útkoman hefur verið pínu misjöfn, en alltaf drekkandi og stundum mjög góð.

Og núna áðan fór ég að tengja þetta í huganum saman við það að skrifa eitthvað út frá sjálfum mér og senda áfram út í heiminn, eins og flösku af bjór eða krukku af salsa. Ég hef verið öllu latari við það.

Ég renndi í gegnum bloggsafnið á vitleysingar.com um daginn og það var ekki beint til þess að stappa í mig stálinu; ég var vissulega iðinn við kolann en jeminn hvað þetta var mikil þvæla oft og tíðum. Það er sosum ekki hægt að sakast við sjálfan mig fyrir tæpum tíu árum síðan, mig hefði bara ekki grunað að það skildi svona mikið á milli okkar. (Og svo er sú sýn e.t.v. sjálfsblekking af minni hálfu, já já.) Mér þótti þetta a.m.k. ekki neitt sérstaklega merkilegt.

En ég rakst líka á próförk fyrir Ljóðskáld eru hálfvitar stuttu seinna og las þar "Lesist ekki" í fyrsta sinn í lengri tíma. Það var eitthvað þar sem ég kannaðist við í sjálfum mér, einhver tilfinning fyrir veröld og rými og samsemd**. Þetta ljóð er einmitt það persónulegasta af öllum í bókinni (bókinni segi ég eins og það sé tilfellið; þessi þrjú a4 blöð) og það sem ég var hvort í senn ánægðastur með og skammaðist mín mest fyrir. Titillinn átti allra helst við mig: ég las það einusinni upphátt á blindafylleríi sem einhverskonar yfirlýsingu um rythma í prósaljóðum og svo aldrei aftur. Jæja, fyrr en um daginn.

Og í vikunni var ég að fara yfir umfjallanir á Bókmenntavefnum og leit á pistilinn minn um Radley fjölskylduna eftir Matt Haig. Ég var alltof lengi að berja honum saman, eða að byrja á honum fyrir alvöru, og þoldi ekki hversu flókið ég vildi gera þetta alltsaman. En hann er þokkalegur. Ég man það þegar ég les hann hvað það var við bókina sem fór svo endalaust í taugarnar á mér, og það má sosum rífast um það en mér fannst það nokkuð skýrt þarna. Aumustu punktarnir eru svo þegar ég lýg og segist hálfpartinn dást að bókinni fyrir að vera svo furðulega ónýt. Mér fannst ég þurfa að gera það þá.

Ég veit ekki hvert ég ætlaði með þetta. Að búa eitthvað til heima í eldhúsi og bera fram fyrir aðra. Mér finnst það gaman, ekki síður þega það er erfitt, og það lukkast stundum vel. En það er sennilega sama með annað einsog hitt að ég veit ekki fyrren eftirá hversu langt ég átti í land, eða hversu mikið ég var að gera útfrá ímynduðum öðrum frekar en sjálfum mér.

-b.

** Notar einhver þetta orð yfir 'identity'?