Um leið og nýja árið byrjaði lauk þriggja daga fylleríi með látum. Ég lét Reykjavíkina eiga sig þessi áramót, og fann undir eins að það var góð ákvörðun. Matur í Þingborg, flugeldar í Grashaganum, nokkrir slagir í kana, bjór bjór bjór, pakkhúsið var stappað, í eftirpartíinu spilaði einhver á gítar og ég fór í þumlastríð. Ég vaknaði með orðið ,,postillur" á heilanum og fannst einsog húsfólkið ætlaði að lesa upphátt úr biblíunni með mér. Úti voru bílarnir þaktir ísnálum, að skafa rúðurnar var heilmikið verk. Ég sofnaði aftur og vaknaði ennþá þreyttari, handónýtur af völdum uppsafnaðrar þynnku, meikaði ekki að fara í bíó hvað þá annað.
Þetta hafði ég á heilanum þegar ég vaknaði í seinna skiptið:
..og fagrar vonir tengir líf mitt við
Bara þessi eina lína. Og þetta er meira að segja bara hálf lína, svona þannig séð, fyrri hlutinn er þessi: ,,Þig, sem í fjarlægð fjöllin bak við dvelur,". Þig hvað? Það er ekki fyrren í næstu línu sem það kemur í ljós: ,,Hugur minn þráir, hjartað ákaft saknar."
En ég mundi ekkert af þessu, það var bara þessi eina lína. Sjö orð aftur og aftur í sama rythmanum. Hvaðan kemur þetta?
-b.
5 ummæli:
Hefurðu verið eitthvað lasinn, karlinn? Þetta er úr afar vinsælu lagi sem var mikið spilað í Óskalögum sjúklinga um árabil og var megahit. Sérstaklega mikið spilað fyrir sjúklinga utan af landi sem vitanlega dvöldust bak við fjöllin frá sendanda kveðjunnar séð. Það hefur verið upplífgandi fyrir veika fólkið að heyra niðurlagið: "Þú ljúfa minning eftir skildir eina, sem aldrei gleymist meðan lífs ég er."
Lagið er eftir Karl Ottó Runólfsson, lúðrasveitarforkólf, en textinn eftir einhvern Cesar.
http://frontpage.simnet.is/jommi/_Textar/i_fjarlaegd.htm
Jú ég fann einmitt sömu síðu með smá gúgli, og þannig orðin í kringum þessa línu mína. Og hana rétta meira að segja, því í minningunni var hún ,,bjartar vonir tengdi." Sem rústar stuðluninni.
En það er samt gaman að heyra þetta með Óskalög sjúklinga, eitthvað sem ég vissi ekki að hefði verið til. Ég hef einmitt verið að berjast við þrálátt kvef undanfarinn mánuð með samasem engum árangri.. þá hafa heillakveðjur aftan úr grárri óminnisvídd náð til mín í millibilsástandi brennivínsdauða og aktúal svefns, í gegnum mjúkan raunveruleika nýjársnætur með sínum talandi húsdýrum og hvaðeina.
Þá er það kannske farið að skipta máli að textinn sé í nútíð en minningin í þátíð.
Þetta finnst mér skemmtileg hugmynd.
Óskalög sjúklinga var fastur þáttur á RÚV í áratugi. Þar voru vinsæl lög á borð við "Hraustir menn" með Karlakór Reykjavíkur og Guðmundi Jónssyni, Ingibjörg Þorbergs réð þar ríkjum og eitt megahittið var "Ó Jesú bróðir besti" sungið af Sr. Þorsteini Björnssyni fríkirkjupresti. Ég hef einhverntíma haldið því fram að Sr. Þorsteinn hafi fengið meiri spilun á RÚV en Presley.
Annað tengt Óskalögum sjúklinga, þessi tilvitnun (vafalítið bjöguð í minni endursögn) er eignuð Halldóri Laxness: ,,Það er merkilegt hvað músíkalskt fólk er heilsuhraust."
Prakkarakarlinn hann Kiljan.
Árni Bergmann sagði einhverntíman í kennslustund að hefðu Íslendingar fengið að ráða þegar RÚV byrjaði útsendingar hefði ekkert verið spilað annað en karlakórar. Þá hefðu ráðamenn stöðvarinnar þröngvað annarskonar mússík uppá landann þartil hann baðst vægðar.
En nú sel ég það ekki dýrara en ég keypti það. Eða man það, öllu heldur.
Skrifa ummæli