02 janúar 2007

Brjótum allt sem brotnar

Ég vaknaði núna áðan við það að karlarnir á heimilinu réðust á stigann sem gengur á milli hæðanna í húsinu. Ég hef enn ekki litið niður til að sjá hvernig gengur, en ég heyri hamarshögg og viðarplötur rifnar í sundur. Þarna hljóp Þorri upp með kúbein í höndunum sem er litlu minna en hann sjálfur. Það er spurning hversu lengi ég verð fastur hérna uppi.

Nei jæja, það var víst bara veggurinn á milli stigans og gömlu forstofunnar, og svo loftið á forstofunni, sem voru rifin út. Tröppurnar eru í heilu lagi ennþá, en það eru miklar framkvæmdir í burðarliðnum. Búið að fylla upp í djúpið sem var í þvottahúsinu, brjóta þar niður veggi og svo stendur til að rífa tröppurnar út og setja inn nýjar. Snúa þessu öllu á haus og færa eldhúsið og ég veit ekki hvað og hvað. Það verður gaman að sjá hvernig þetta lítur út í vor.

Í dag er víst vörutalningardagur og því jafnvel minna um að vera í Selfossbænum en venjulega. Svei mér þá ef þeir eru ekki byrjaðir á tröppunum þarna niðri.

-b.

Engin ummæli: