27 janúar 2007

Auglýsendur og aspartam

Þegar ég hitti Inga og Steinar á Þjóðminjasafninu um daginn sagði sá síðarnefndi mér að kíkja á heimildarmynd að nafni The Persuaders. Sagði að hún fjallaði um auglýsingataktík og væri helvíti áhugaverð. Ég fann hana á demonoid stuttu seinna, og ætlaði að fara að hala henni niður þegar ég sá að þetta var ekki heimildarmynd heldur fjórir þættir úr breskri spæjaraseríu frá áttunda áratugnum, með Roger Moore í aðalhlutverki.

Nú hef ég verið kallaður sjónvarpssjúklingur, en ég er ekki alveg kominn þangað ennþá, held ég.

En ég fann þessa mynd núna áðan. Maður getur séð hana á pbs.com, sem mér finnst frábært. Henda þessu bara á netið, fjandinn hafi það.

Ef maður hefur eitthvað fylgst með umræðunni um auglýsingaiðnaðinn, séð The Corporation o.s.frv., þá kemur fyrri hluti myndarinnar ekki svo mjög á óvart. En þegar þeir fara að fjalla um franska geðlækninn sem hannar kóða, sem fyrirtæki fara síðan eftir í sköpun vörumerkja og auglýsingagerð, þá er farið að hitna í kolunum. Kauði vann mikið með einhverfum börnum þegar hann var yngri, og þurfti af eigin sögn að finna leiðir til að koma á tjáskiptum án þess að notast við orð. Sú reynsla hefur síðar malað honum gull í auglýsingageiranum, þarsem hann fílósóferar um allan fjandann.. og það virkar!

Að því er virðist, að minnsta kosti.

Ég gæti talið upp dæmi, en kíkið bara á þessa mynd. Þessi franski gaur er í fjórða hluta.

Síðustu tveir hlutarnir finnast mér síðan einstaklega áhugaverðir, þarsem ég er nýbúinn að klára sjöundu seríu af The West Wing, en sú fjallar að mestum hluta um forsetakosningar í BNA. Þarna er rætt við Frank Luntz, sem hefur m.a. unnið við framboðsherferðir Rudy Giulianis og Silvio Berlusconis; og ber ábyrgð á nokkrum frægum nafnaskiptum repúblikana.. ,,death tax" í stað ,,estate tax". ,,climate change" í stað ,,global warming". Það er minnst á ,,war on terror" í stað ,,war on Iraq", en ég náði nú ekki hvort hann er skrifaður fyrir því.

En fjandinn, þarna er gaur að vinna með texta og áhrif þess á manneskjur, með það fyrir augum að selja fólki frambjóðendur. Ekki með því að höfða til þeirra á grundvelli sambærilegra hagsmuna eða sjónarmiða, heldur með því að komast að því hvaða orð virka á hvaða fólk, og selja því hagsmuni og sjónarmið frambjóðandans (eða flokksins) með því að nota þessi orð.

Ég get eiginlega ekki farið útí West Wing-tenginguna því hún er breið og mikil. En í þessari síðustu þáttaröð er verið að sýna hvernig þetta er gert, meira og minna. Þeir gera grín að því hversu margar ræður þarf að semja fyrir kosninganóttina, allt eftir hvort sigur fæst eða ekki, hvar hann fæst, meðal hverra o.s.frv. Í upphafinu þarf grey maðurinn að ,,narrowcast"-a sér meðal fólksins á endurvinnslustöðunum. Það er sífellt verið að vinna með orðræðuna, finna upp ný slagorð og prófuð svör við erfiðum spurningum. En auðvitað er maður að halda með aðalpersónunni, og hann þarf ekki nema að halda eina óskrifaða ræðu til að maður taki allt braskið í sátt.

Manni sýnist það samt frekar ólíklegt að þannig horfi það við í raun og veru.

...

Önnur mynd sem ég sá í kvöld heitir Sweet Misery: A Poisoned World. Það fóru greinilega ekki miklir peningar í framleiðsluna, og það er ekki verið að skoða ,,báðar hliðar málsins," en upplýsingarnar eru nokkuð sláandi. Hún fjallar um aspartam, sem ég hef oft og lengi heyrt fleygt að sé bölvað eitur, en það má finna í öllum andskotanum, aðallega sykurskertum eða -lausum drykkjarvörum. Þetta er sætuefni sem var, að því þarna er haldið fram, sett á markaðinn án þess að hafa staðist nokkurskonar próf til að skera úr um hvort það væri skaðlegt mannfólki eður ei. Í rannsóknum sem voru framkvæmdar, en ekki nýttar í reglusetningum um efnið, mynduðust æxli í rottum og apar fengu flog. Fólk sem hefur innbyrt þetta í stórum skömmtum (sex til tíu diet coke dósir á dag í lengri tíma, til dæmis) hefur fengið heilaæxli, flogaköst og skerta hreyfigetu.

Og svo dregst Donald Rumsfeld inní þetta, af öllum mönnum, en hann var víst forstjóri þess fyrirtækis sem hratt því í gegn að koma aspartam á markaðinn, í trássi við tilmæli sérfræðinga innan Bandarísku matvælastofnunarinnar, á áttunda áratugnum.

Ég myndi ekki mæla með þessari mynd, þarsem hún er ekkert sérlega skemmtileg, en ég er nú sannfærðari en áður um að aspartam sé bölvað eitur.

Svo mörg voru þau orð.

-b.

Engin ummæli: