Þegar ég skrifaði um daginn að ég héldi að þeir væru svei mér þá byrjaðir á tröppunum, þá voru þeir byrjaðir á tröppunum. Næst þegar ég leit niður var þar flatt fall niður á forstofugólfið. Við tóku hræðilegir tímar, þarsem tvennskonar stigar voru notaðir til að komast á milli hæða. Sem var einstaklega einstaklega óþægilegt því allir nema einn búa á efri hæðinni, en eina klósettið er á neðri hæðinni. Já og sjónvarpið og eldhúsið og tölvan.
En núna kom ég heim áðan úr heimsókn og þá var búið að setja tröppurnar upp aftur. Það er reyndar búið að rífa slatta niður og steypa gólfið í millitíðinni, þannig að þetta lítur fráleitt eins út og áður. Og núna eru þær allar skakkar og skældar. Ég hefði áður getað farið þessar tröppur blindandi, haugfullur og sofandi, en núna virka þær ekki eins. Ég miða á þrep sem eru ekki lengur til staðar, en það munar samt svo litlu. Ekki alveg einsog draugfótur, en kannske draugtá.
Mér finnst þetta eiginlega verra en að missa þær svona alltíeinu, einsog mér sýndist hafa gerst um daginn. Núna verður einhverskonar lokastig til í minningunni, þarsem eitthvað var bara ekki einsog það átti að vera. Einsog þegar Snati fær slag og fer að bíta fólk áður en hann er loks svæfður.
Því undirmeðvitund mín er mjög upptekin af tröppum. Ég fór ekkert að spá í þessu af nokkurri alvöru fyrren fyrir mjög stuttu síðan, en ef ég er að sveima eitthvað í huganum, að hugsa um ekki neitt, þá sé ég mig gjarnan fyrir mér að fara niður tröppur sem ég hef rekist á á lífsleiðinni. Aftur og aftur. Þeir ganga gjarnan lengra niður en mig minnir að þeir hafi gert.. sem er kannske soldið spúkí. Það gæti verið að ég hafi haft gaman af því að leika mér í tröppum þegar ég var lítill. Ég man eftir tröppunum í Fagrahvammi, hvítu steintröppunum í Rauðagerðinu, svarta hringstiganum efst í Garðyrkjuskólanum.. jú og litlu tröppunum sem lágu uppí eldhúsið þar, báðum megin. Brakið í tröppunum uppá efstu hæð í Njarðargötunni. Sikk-sakk tröppunum vestan megin í grunnskólanum í Hveragerði, heimagerða stiganum sem lá uppí herbergiskytruna mína í Merkilandinu. Og svo framvegis.
En þessar tröppur skiptu mig semsagt talsverðu máli, svona þegar ég fer að pæla í því. Ég á eflaust eftir að muna þær betur en margt annað, sem ætti annars athygli mína og heilapláss betur skilið.
Það gekk lítið í ritgerðinni í dag. Hvernig endar þetta eiginlega?
Og hér eru undarleg kort.
-b.
ps. Blogger þurfti eitthvað að melda þetta og hleypti færslunni ekki í gegn fyrren í fimmtu tilraun eða svo. Þannig að ég var ekkert að koma úr heimsókn áðan neitt, ég sit á kaffihúsi í Reykjavík akkúrat núna. En þarna er þetta.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli