Í dag fór ég og hellti klinkbauknum mínum í teljara í bankanum.
Síðasta haust henti ég alltaf klinkinu, sem ég kom með heim í vösunum, oní tóma pringles dollu (nákvæmlega einsog þessa til hægri). Nennti hreinlega ekki að bera það á mér og fara að telja túkalla og fimmeyringa oní hendina á afgreiðslufólki, og svo er þetta drasl líka níþungt. Ég hélt eftir þessum stóru, tíu og tuttugu króna peningunum, en allt litla ruslið fór í baukinn. Og í dag leysti ég það út í seðlum. Það fór í 430 krónur tæpar. Fjögurhundruð krónur er einmitt það sem ég átti eftir á debetreikningnum mínum út mánuðinn, og þarna var sú upphæð dobbluð. Mér finnst það frábært.
En við erum samt að tala um núðlur og hrökkbrauð í matinn oftar en ella.
..sem mér finnst reyndar ekkert svo slæmt heldur. Ég man ekki hvort ég hef tekið það fram opinberlega, en núðlur og hrökkbrauð með osti er með því besta sem ég fæ. Allavega hér, þarsem ég er einmitt núna. Einir og sér eru þessir hlutir ekkert spes, en þegar þeir koma saman er það einsog kartöflur og smjer. Og maður er fáránlega snöggur að rusla því saman. Ég efast samt um næringargildið, þannig að ég keypti líka appelsínur og vínber (fín).
Og hérna er sko ekkert að snjóa. Gefið mér snævi lagðar götur, almenningssamgöngur í molum og stilltan himinn frekar en rigningu og myrkur í steinsteypu. Hann rignir einsog hann hafi ekkert annað að gera, og blæs af gömlum vana. Maður stendur hokinn og gapir yfir andleysinu.
...
Skilaði tveimur bókum á söfnin í dag, einni í hvort. Ég hélt þeir myndu taka af mér eistun og skírteinin kannske líka, en þurfti ekki að borga meira en fimmtíukall allt í allt. Löngu kominn yfir frestinn, og einhver að bíða eftir annarri þeirra.. Bókasöfn eru æði.
-b.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli