30 nóvember 2007

Björn, Matthías og orðabókin

Einhverra hluta vegna hef ég alltaf haldið að ,,athafnaskáld" væru einfaldlega afkastamikil skáld. Ég veit ekki í hverskonar samhengi ég hef séð þetta orð venjulega, ef til vill hef ég skilið það sem svo að viðkomandi menn (og konur?) væru, auk þess að vera áhrifamikil í atvinnulífi og þessháttar, skrifandi skáld. Nú var ég að fletta í gegnum Fjötra okkar og takmörk: Helgispjall eftir Matthías Johannessen og rakst á þetta orð enn eina ferðina, en nú fletti ég því upp. Þá eru athafnaskáld einstaklingar sem hafa verið afkastamiklir brautryðjendur í atvinnulífi.

Og hér væri hægt að fara mikinn um muninn á athafnaskáldum og athafnamönnum. Er það ekki?

Annars eru þessi helgispjöll hans Matthíasar nokkuð áhugaverð.. Þetta eru allnokkrar bækur sem eru gefnar út í takmörkuðu upplagi, 200 stykkjum hver sýnist mér, númeraðar eða áritaðar. Það er þessi sem ég tók fram áðan, svo hef ég hérna Eintal á alneti, Sagnir og sögupersónur, Grímu gamals húss, Við Kárahnjúka og önnur kennileiti og Spunnið um Stalín. Þær eru fleiri. Mér sýnist þær allar fylgja sömu formúlunni, karlinn skrifar um eitthvað sem honum dettur í hug í fjölmörgum stuttum köflum. Hérna er einn sem ég tók niður í gær, úr Eintali á alneti:
Ég hef minnzt á fegurstu ástarsögu íslenzkrar tungu. Hún er ein setning í Íslendinga sögu. Yfir henni er einhver jarðneskur svali sem mig minnir á morgungeisla í sporrækri dögg. Það er annarskonar tilfinning í ástum Beru og Ljósvíkingsins. Samt þessi nálæga heiðríkja einsog í Jónsmessunæturdögginni, en ástir Solveigar og Sturlu Sighvatssonar rísa úr grasinu við Örlygsstaði einsog helgisaga úr hillingum: Hvort gerðu þeir ekki Solveigu? Og einskis spurði hann annars.

En hver er þá fegursta ástarsaga heimsbókmenntanna? Kannski þær sem ég nefndi, kannski einhverjar aðrar, ég veit það ekki. En eftirminnilegasta ástarsagan er áreiðanlega þessi eina lína, þessi hverfuli fögnuður Kierkegaards, þessi undarlega alsæla í næsta nágrenni við hyldýpi örvæntingarinnar, þessi vímukennda fullnæging sem eiturlyfjaneytendur eltast við sýnkt og heilagt: Tilveran öll var einsog ástfangin af mér...(!)

Sjálft andartakið (!) En það virðist ekki beinlínis vera það ástand sem búddatrúarmaðurinn sækist helzt eftir, takmarkið mikla: að losna við sjálfan sig einsog hvert annað mein. Sturla Sighvatsson af öllum mönnum var nær því að höndla þetta eftirsóknarverða takmark í þeirri einu setningu um Solveigu sem varðveitzt hefur en Constantin Constantinus í setningunni um ást tilverunnar á aðalpersónu endurtekningarinnar og sæluvímuna í tengslum við hana.

Þetta er náttúrulega misgáfulegt, sýnist manni.. og misáhugavert. En formið er skemmtilegt: Stuttar færslur um eitt og annað, maður getur gluggað í eina, tvær eða þrjár án þess að leggjast í langdreginn lestur. Hæfilegt fyrir létt-athyglisbrostna lesendur einsog mig.

Og hann er vel lesinn, karlinn. Skrifar góðan texta. Verst hvað hann er mikill helvítis sjálfstæðismaður.

Um leið og ég fletti upp athafnaskáldinu fletti ég upp ,,jörvagleði". Nema hvað ég fann hana undir ,,jörfagleði". Jæja. En orðabókin segir svo:

,,Jörfagleði: Árleg skemmtun, haldin á Jörfa í Haukadal. Bönnuð á 18. öld."

Síðan segir að þetta geti líka merkt taumlausa skemmtun og gleði.. einsog ég skildi það fyrir. Ég hafði samt ímyndað mér að ,,jörvi" (eða ,,jörfi") væri annað nafn fyrir mann, einsog ,,gumi" eða ,,fýr". Gaman að vita að þetta nafn sé dregið af staðnum þarsem sérstök skemmtun var haldin hérna í den. Frekar sértækt, sýnist manni.

-b.

Es. Hér er eitt orð í viðbót sem ég var að fletta upp og virðist heldur sértækt: Hrunadans. Sko:

,,Gálaust atferli sem leiðir til glötunar (eftir þjóðsögunni um dansinn í Hruna þegar kirkjan þar sökk)". Þar höfum við það.

Engin ummæli: