20 nóvember 2007

Hvað varð um Treb Walker?

Nú fyrir jólin kemur út ný bók um Bert Ljung, vin okkar allra, dagbókarvörð og bókmenntahetju minnar ungu kynslóðar. Sjáið hér kápumynd í slæmri upplausn:



Bert hefur tekið stakkaskiptum, á kápunni er hann orðinn að japanskri teiknimyndafígúru. Höfundar bókaflokksins, Sören Olsson og Anders Jakobssen, hafa einnig vent kvæð sínu í kross, en bókin nefnist Bert og kalda stríðið:
Bert er nítján ára taugahrúga sem býr nálægt finnsku landamærunum á sjötta áratug síðustu aldar. Hversdagslegar áhyggur unglingsáranna blandast nú saman við ídeológíska tilvistarkreppu og sjúklegt ofsóknarbrjálæði, þar sem Bert les heimspeki og stjórnmálafræði til undirbúnings háskólanáms, veltist á milli kommúnisma og kapítalisma, en treystir hvorugu. Dagbókin reynist besti vinur hans í þessari skuggaveröld hugmyndafræðanna, þar mátar hann við sig öfgasjónarmið á báða vængi og reynir fyrir sér í yfirlýsingum og hápólitískum stíl.

Við þetta bætist sífellt þrúgaðra andrúmsloft á heimili Berts. Kvöldmatarborðið var eitt sinn öruggur og skemmtilegur vettvangur þar sem Bert gat rætt málin, stór sem smá, við foreldra sína. En síðan Bert eignaðist nýja litlu systur hefur mamma hans hegðað sér skringilega. Hún skrifar bréf sem enginn má sjá, og fara ekki í póst með öðrum bréfum; hún bannar Bert að nota símann; hún hverfur lögum stundum og birtist aftur, drukkin og illa til reika, án þess að gefa nokkrar skýringar. Og síðast en ekki síst þá hefur Bert nýverið fengið þann grun sinn staðfestan að móðir hans sé að lesa dagbókina hans!

Spennan magnast þegar Bert treystir Áka fyrir þessum grunsemdum sínum, en hann svíkur vinskap þeirra og fer með upplýsingarnar beinustu leið í Stjórnarráðið. Skömmu síðar hverfa bæði mamma Berts og litla systir sporlaust, og nú finnur Bert hvergi dagbókina sína...

Já, það lítur út fyrir að Bert hafi vaxið úr grasi, á fleiri en eina vegu. Er þetta holl lesning fyrir yngri kynslóðina, spyr ég?

-b.

Engin ummæli: