Mér kom varla dúr á auga í nótt, því ég vissi að með fyrra máli myndi ég þurfa að skrifa hluti úr höfðinu á mér. Þetta er vítahringur, sjáðu til: Maður tæmir hugann í gegnum fingurna og svo fyllir maður hann aftur í gegnum augun, af ótta við að heilinn gleymi því hvernig það er að vita hluti. Éttu þetta, éttu hitt, í guðs bænum ekki stilla þig tóman og skilja mig eftir í garðinum.
Í gær svaf ég svefni hinna fávísu alveg framá hádegi. Svo renndi ég austur og hitti þau Jón Özur og Elínu í gamla gula skólanum þarsem við ræddum ljóð. Myrkrið helltist yfir mig þegar ég fékk ljóðabunkann í hendurnar. Í bókstaflegum skilningi. Það kom uppúr kafinu að rafmagnsleysið var samkvæmt áætlun, hafði verið auglýst með nokkrum fyrirvara. Og það tók skjótt af.
Í valdi embættis míns sem meðlimur dómnefndar krassaði ég á blöð, hló upphátt, barði mér á brjóst, grét bláum tárum og flokkaði jafnóðum í ,,já", ,,nei" og ,,hættu nú alveg".
Embætti hafa þessi áhrif á mig.
Þetta kom nú kannske betur út en maður þorði að vona. En þetta er víst alltsaman trúnaðarmál og niðurstöðurnar verða ekki gjörðar kunnar fyrren á föstudaginn, þannig að maður segir ekki orð.
Síðan kíkti ég til Halls seinna um kvöldið og skoðaði myndirnar sem hann var að mála. Helvíti er hann fær þessi strákur. Einsog kanarnir, vinir mínir, segja: Hann er að fara á staði.
-b.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli