Þegar það er korter í lokun þá fer ég að rausa eitthvað. Fólk skrifar ekki jafn mikið á netið og það gerði hérna í den. Allavega ekki fólkið sem ég þekki. Í staðinn fer það í vinnu, eignast börn, leggur parket.
Ég byrjaði á Bert-bókinni núna í dag en ég veit ekki hvort ég held það út. Þar er annað sem var einfaldara í fyrndinni. Bókin virkar dálítið á mig einsog Leaves of Grass, þarsem allskonar textabrotum ægir saman. Bert skrifar í dagbókina sína og svo krassar hann yfir og skrifar eitthvað annað, límir inn úrklippur úr blöðum, myndir af hinu og þessu, heilu blaðsíðurnar af hamri og sigð.. Það má sjá mismunandi rithendur líka, sem ég veit enn ekki hvað á að fyrirstilla. Þetta gæti alveg verið gaman, en bókin er fokking 800 síður!
Hver hefur tíma fyrir svona lagað?
Ég sendi eftir pakka frá amazon um daginn. Hann inniheldur myndefni og lesefni. Ég á von á honum um mánaðamótin. En tveim dögum eftir að ég sendi eftir pakkanum kom The League of Extraordinary Gentlemen: Black Dossier út. Ég verð hugsanlega að senda eftir henni líka. Ef fréttir segja rétt frá þá verður hún ekki til almennrar sölu utan Bandaríkjanna. Maður þarf því að panta hana sérstaklega. Tildæmis frá amazon.
Og fyrir utan það þá er víst von á viðhafnarútgáfu sem kemur meðal annars til með að innihalda hljómplötu þarsem Moore syngur einhvern fjára. Kreisí gaur.
Þrjár mínútur í lokun og það er eitthvað barn að öskra af sér úlpuna inná kaffistofu. Hvað er að þessu liði?
-b.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli