Sú var tíðin að við lásum bækur Steinbecks. Eldri bækurnar hans einsog Þrúgur reiðinnar og Tortilla Flat og Mýs og menn. Síðan hefur hann skrifað ýmsar marklitlar bækur. Nú er alllangt síðan ég var að reyna að lesa East of Eden þar sem áreynsla höfundarins sem hefur týnt afli sínu orkaði þannig að það lá við maður fengi vöðvagigt af því að lesa bókina. En þrátt fyrir þessa vondu bók var Steinbeck mér kær: maðurinn sem hafði skrifað Þrúgur reiðinnar. Ég hætti að lesa þessar nýju bækur sem komu við og við þótt ég blaðaði stundum í þeim og þóttist sjá að þar var ekki lengur maðurinn sem hafði skrifað Þrúgur reiðinnar. Maður hætti að spyrja: hvað skyldi Steinbeck vera að skrifa?
Hjá erlendum rithöfundum heyrði ég ekki talað um hvað Steinbeck skrifaði heldur hvort hann drykki mikið whiský. Rithöfundurinn hafði orðið eftir í þátíðinni. Þgar hann virtist alveg gleymdur kom í ljós að einhverjir mundu eftir honum og hann fékk Nóbelsverðlaunin vegna bókanna sem hann skrifaði fyrr löngu. Þrúgur reiðinnar sem var beisk þjóðfélagsádeila þrungin mannúð og sársauka höfundar sem vildi ekki láta níðast á fólki og hataði þau þjóðfélagsöfl sem troða á litilmagnanum.
Í íslenzkum þjóðsögum er talað um umskiptinga. Þar segir frá því þegar gjörvileg börn hurfu og í staðinn kom vera með sál ófreskjunnar. Sama haust og Steinbeck fékk Nóbelsverðlaunin sýndi amerískur vinur minn í Róm mér feiknamikinn doðrant sem var orðabók yfir enska tungu. Þetta var efnilegur rithöfundur. Steinbeck hafði gefið honum bókina og skrifað langa tileinkun sem hófst á orðunum: í upphafi var orðið, og fjallaði um mátt og ábyrgð orðsins. Um skyldur og forréttindi rithöfundarins sem máttur orðisins veitir honum. Þetta var svo góð hugleiðing að ég sagði við þennan vin minn: jú það er allt í lagi þó hann fái Nóbelsverðlaun. Hvað hefur komið fyrir þennan mann sem núna skrifar greinar frá Vietnam og lýsir hernaðarleiðangri í amerískri flugvél á þennan hátt: ,,Ég vildi að ég gæti sagt ykkur frá þessum flugmönnum. Þeir gera mig sjúkan af öfund. Þeir stjórna farartækjum sínum á sama hátt og maður hefur stjórn á glæsilegum vel þjálfuðum veðhlaupahesti..." Nokkru seinna eru þeir orðnir einsog ,,múrsvala að kvöldlagi". Þannig vefur höfundur sig frá einni líkingu til annarrar í indæli morðleiðangursins. Hann situr dolfallinn einblínandi á hina óviðjafnanlegu flugmenn og hrifningin verður æ geystari: ,,Ég horfi á hendur þeirra og fætur á stjórntækjunum, þessi fíngerða samhæfing minnir á öruggar en þó hæglátar hendur Casals á sellóinu."
Þegar maður sem hefur skrifað góðar bækur einhverntíma er farinn að skrifa svona hlýtur að vera brýnna fyrir hann að ná sambandi við lækni heldur en prentara.
,,Hendur þeirra eru vissulega hendur hljómlistarmanns og þeir leika á stjórntæki sín eins og hljoðfæri og þeir dansa á þeim einsog ballerínur." Svona ofskynjanir hljóta að vera forvitnilegar fyrir lækni, reynið bara að sjá þetta fyrir ykkur. Og loks segir Steinbeck af þessu sérstaka tilefni: ,,Minnist þess er þið voruð börn og ykkur dreymdi, að þið flygjuð frjáls og lífið var dásamlegt?" ... ,,Ég verð að fullnægja þrá minni með því einu að horfa á þá."
Þegar bráir af höfundinum ofurlítið segir hann: ,,Mér þykir fyrir því að hafa gleymt mér í hrifningunni, en ég varð að fá útrás, annars hefði ég sprungið." Af hrifningu? Þegar hann er fluttur á vit amerískrar hersveitar í frumskóginum rennur víman á hann aftur og frammi fyrir þessum mönnum þar sem honum birtast ,,andlit svört eða hvít" (sem) ,,hafa sökum svita og ryks orðið nokkurnvegin rauðgrá", segir maðurinn: ,,Getið þið skilið hinn snögga hreyknisblossa, sem kviknar innra með manni, þegar hann skynjar, að hann tilheyrir sama kynstofni og þessir menn?" Hvaða kynstofni?
Hann segir síðan: ,,Ég býst við að sú tilfinning sé andstæða þess skammarhrolls, sem ég hef fundið til, er ég sé víetnikkana heima í skítugum fötum, illa innrætta, súrþefjandi auðnuleysingja og hina ógeðslegu og eyðimerkurlegu göngufélaga þeirra."
Svona sér nú rithöfundurinn fyrir sér það fólk sem er á móti stríði.
Hann veit alveg hvað þeim gengur til, og segir: ,,Óhreinlynd mótmæli þeirra þess efnis, að samvizka þeirra banni þeim að drepa fólk eru dálítið heimskuleg. Þeir eru ekki í þeirri hættu. Ég býst við, að aðaláhyggjur þeirra séu, að einhentur, hálfblindur 12 ára drengur í Víetcong-hreyfingunni geti lamið þá með knippi af þroskuðum banönum."
Þetta er nýstárlegur skilningur á stríði. Rithöfundurinn er stoltur af þeim mönnum sem þora í þennan tilnefnda einhenta hálfblinda 12 ára dreng þegar hann reiðir bananaknippið á loft. Þetta er göfugur hernaður samkvæmt útlistun rithöfundarins og ég efast um að þeir andstæðingar stríðsins sem hann lýsir svo fagurlega hefðu getað magnað fram svo átakanlega mynd af grimmd og rangindum þessa stríðs og hinum vonda málstað sem Steinbeck þjónar.
Þrátt fyrir viðbjóð og fyrirlitningu verður maður hryggur að horfa upp á niðurlægingu af þessu tagi.
Ekki vissi ég að Steinbeck hefði verið svona mikill málsvari Víetnam-stríðsins.. Enda er ég lítt lesinn í þeim báðum, Thor og Steinbeck. En þarna hefur aðdáun breyst í vongrigði og þaðan í viðbjóð, og karlinn situr ekkert á þeirri skoðun sinni. Klassi.
-b.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli