,,Þú sofnaðir oní matinn þinn" er það eina sem ég man, eftir að ég sofnaði oní matinn minn. Sævar var að láta mig vita. Við stóðum í röð eftir leigubíl á Lækjargötu. (Eða, hann stóð og ég hékk uppréttur vegna þess eins að vöðvarnir í löppunum og bakinu kannast við þá stellingu, ekki vegna þess að mig langaði til þess.) Röðin var ekki hræðileg, þetta hafðist fyrir rest. Þegar við komum heim fann ég opinn flöskubjór í innanávasanum mínum. Hvað hafði hann verið þarna lengi? Hvar hafði ég verið? Þetta voru góðar spurningar en ég var þegar sofnaður.
Við Gunnar kíktum semsagt í afmælisteitið hans Danna. Hann á afmæli eftir tvo daga og hélt uppá það á Klassík Rokk við hliðina á Brodvei. Við fórum í pílukast og pool, sungum afmælissönginn og hlustuðum á trúbador. Það var helvíti fínt. Við gáfum karlinum þrjár myndasögur eftir Jason: You Can't Get There From Here, The Living and the Dead og I Killed Adolf Hitler. Ef Daníel væri ég þá væri hann hæstánægður. Ég vona að hann sé sáttur þótt hann sé hann sjálfur en ekki ég.
Og núna sit ég í vinnunni og horfí í gegnum þynnku sem gæti fengið fíl til að gleyma hvað hann heitir.
Og ég féllst á það að vinna á stöðinni þegar ég er búinn hérna. Kræst.
Our particles are in motion.
-b.
1 ummæli:
Gott hvernig þú náðir samt að hitta fram hjá mestu sósunni...
Skrifa ummæli