01 nóvember 2007

Þrjár kápur til viðbótar

Fyrst, hérna er e.t.v. besta 101 Reykjavík kápan sem ég fann. Ég veit ekki hvað stendur utaná henni og ég minnist þess ekki að appelsínur hafi komið neitt sérstaklega mikið við sögu, en hún grípur augað. Og svo eru appelsínur líka góðar.


Síðan er hérna viðtalsbók. Matthías Johannessen ræðir við Þórberg Þórðarson. Þarna er ekki alveg jafn mikið í gangi og á 101 hér fyrir ofan en þó alveg nóg. Það er stjarna á himni, titillinn er yfirlýsing sem er þrykkt upp í næturblámann. Rauður, gulur, blár, smá hvítur. Mjög præm og þjóðlegt. Eða kannske kitlar það mig bara hvað kápan er lík þeirri á Breakfast of Champions. Og þó ekki svo mjög.


Og að lokum er hérna bók sem ég keypti á útsölu í Eymundsson í gær. Ég var að fara í Bónus í Kringlunni og kíkti til Davíðs í leiðinni. Ég fór og skoðaði útsöluborðið, ráfaði um, sá Davíð í fjarska, las í bókum, beið eftir því að hann losnaði frá kúnna, las aðeins meira, keypti bókina, skoðaði í kringum mig og náði loks sambandi við Davíð þegar hann sá mig útundan sér og hélt ég væri kúnni. held ég. En þetta er semsagt kápan:


Og nú er hægt að smella á hana og lesa textann. Ég las innganginn áðan og hann er mjög fyndinn. Þetta er nördahúmor, rólegheitahúmor. Eitthvað sem passar til að hafa í sófanum á meðan maður borðar kleinu, drekkur kannske tebolla.

Kannske ég geri það þegar ég kem heim.

Og nú er ég búinn að ráða mig í meiri vinnu hérna á safninu. Sjáum hvernig það fer.

-b.

Engin ummæli: