Ég fellst nú ekki á allt sem karlinn hendir fram, en sumar þessarra skýringa eru margt sniðugar. Samband Skarphéðins Njálssonar við föður sinn lítur t.a.m. allt öðruvísi út núna heldur en þegar ég las bókina.. Eins furðar hann sig á því að fólk geti tekið Gunnar á Hlíðarenda alvarlega þegar hann segir konu sinni og móður að vefja bogastreng úr hárlokk þeirrar fyrrnefndu. Mér sýnist það ekkert ólíklegra en að fleygja manni af spjótsoddi yfir stórfljót, en hvað gengur Gunnari þá til ef hann veit að verkið er óvinnandi? Kristján vísar í ljóð eftir Sigurð Breiðfjörð að nafni ,,Hallgerður Langbrók", þarsem skáldið heldur uppi vörnum fyrir blessaða húsfreyjuna. Ég fletti þessu ljóði upp. Þar segir mælandi:
Hún þó væri hefndargjörn
og hjartað nokkuð baldið,
flestu held ég finnist vörn
ef fallega á er haldið.
Þegar dæma einhvern á,
oss það fræðin letra,
fallegt er að færa þá
flest á veginn betra.
Og nokkru seinna:
.Boginn þegar brostinn er,
býður hann fljóði sínu
fýlulega: ,,Fá þú mér
flygsu úr hári þínu".
Meingjörð slíka man hún þá
og mótsögn þessu veitir.
Svo réð Gunnar falla frá,
frægasti maður um sveitir.
Eg um það í efa geng,
aðsóknin þó biði,
að brúðir hefðu bogastreng
búið til af liði.
Hefði Gunnar hlíta þótt
höfuðs snúi reyfi,
lokkinn mundi hann sjálfur sótt
og sýslað fátt um leyfi.
Sem er náttúrulega alveg rétt. Sigurður dregur þá ályktun að einhver hafi bætt þessu inní söguna til þess að sverta Hallgerði en það er voða einföld afgreiðsla einhvernvegin. Kristján telur að orðaskiptin hjónanna séu svartasti gálgahúmor: Þau viti bæði að maður getur ekki vafið bogastreng úr mannshári, en megi nú til með að djóka aðeins hvort í öðru rétt áður en Gunnar verður skorinn niður. Sem er miklu skemmtilegri textaskýring. Hér er hans rökstuðningur:
Hetjur eiga að segja eitthvað kaldhæðnislegt á dauðastundinni til þess að sýna að þær kæri sig kollóttar um gang örlaganna. Þá loksins ná Gunnar og Hallgerður saman þegar aðstæðurnar þvinga hann til þess að sýna gráglettinn hálfkæring með því að syrja hvort ekki sé bara hægt að flétta einhvern spotta úr hárinu á henni! Hún svarar með því að leika leikinn með honum og fyrirgefur honum kinnhestinn þar með. Hún ,,hefnir" með öðrum orðum kinnhestsins með því að neita honum um eitthvað sem kemur ekki að gagni hvort sem er. Sé lesið á þennan hátt liggur auðvitað ljóst fyrir að Rannveig gamla er steinhætt að skilja yngra fólkið. Það er líka erfitt fyrir hana að taka kaldhæðnislega afstöðu til dauða sonarins.
[...]
Að mínu mati er þessi spurning [Hallgerðar: ,,Liggur þér nokkuð við?"] hrein írónía. Það er flokkur manna á hlaðinu á Hlíðarenda. Þeir eru búnir að gera hverja tilraunina af annarri til þess að brjótast inn og drepa Gunnar, bónda hennar, og þar að auki búnir að vinda þakið ofan af skálanum. Sé litið til þess hvernig umhorfs er á sviðinu þá er miklu frekar ástæða til þess að telja að hér sé um gráglettinn hálfkæring að ræða.
Það sem mér finnst mest bera í móti þessu er að Gunnar er ekkert sérlega fyndinn gaur. En kannske er þetta einmitt rétti tíminn til að slaka aðeins á?
Myndasöguaðlögunin í Hetjunni eftir Emblu Ýr Bárudóttur og Ingólf Örn Björgvinsson, sem kom út fyrir jólin, gengur ekki svona langt, en þar eru greinilega engin illindi á milli þeirra þegar hún segir honum að fara í rassgat og mæta dauða sínum. Þau eiga voða fallegt móment saman og bókin sleppir orðum Rannveigar um að skömm Hallgerðar ,,muni lengi uppi". Það er líka fín nálgun, þannig. Myndasagan leysir margt helvíti vel þykir mér..
Augnablikið þegar Gunnar ákveður að ,,fara hvergi" er sérstaklega áhrifaríkt, bæði vegna þess hvernig það er uppsett og eins vegna þess að hann segir ekki orð. Engir bleikir akrar, engin slegin tún. Hann snýr baki í bróður sinn, horfir tilbaka og maður veit alveg hvað hann ætlar án þess að heyra Línuna enn einu sinni.
En þá er ég kominn útí allt annað. Rausa bara um Njálu.. það er sosum hægt að rausa um margt ómerkilegra.
-b.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli