28 febrúar 2008

Grettir, Jón og Marvin

Fyrir tæpu ári benti ég á gaur sem klippti línurnar hans Grettis útúr Grettis-skrítlum og gerði þær talsvert fyndnari fyrir vikið. Þá sjaldan sem ég les Gretti síðan hef ég haft þetta bakvið eyrað. Og tíðin var góð.

Nú sé ég að einhver hefur fjarlægt Gretti allan. Sem er mjög rökrétt framhald, og bráðsnjallt. Skrítlurnar eru enn fyndnari. Og manni dettur í hug myndhöggvarinn, sem heggur burt allan óþarfa þartil myndin - sem var alltaf til staðar inní berginu - kemur í ljós. Jim Davis og co. henda grjóti í mannfólkið og betri menn höggva úr því brandara. Myndhverfingin er gölluð en samt svo rétt.



Ég veit ekki hvort það er beint samband á milli þessarra Grettis-fiktara. Það skiptir ekki öllu máli.

Og nú kemur tenging: Þessar Grettislausu Grettis-skrítlur sýna geðsjúklinginn Jón, sem talar við sjálfan sig og eyðir stundum fleiri en einum ramma í þögla vanlíðan. Þarna er verið að búa til absúrd húmor úr hefðbundu formúlugríni, sem er meira og minna það sem Steve Martin segist hafa reynt að gera þegar hann var að þróa sitt uppistand.

Ég var einmitt að klára Born Standing Up eftir Steve Martin núna rétt í þessu, sem er nokkurskonar ævisaga. Mér þykir hálfóþægilegt að lesa ævisögu þarsem ég hef verið svo hneykslaður á ævisögulestri fólks í kringum mig.. en þessi bók renndi á vissan hátt frekari stoðum undir þessa fordóma mína. Ég las bókina vegna þess að ég hef gaman af uppistandinu hans, og það var oft áhugavert að lesa um það hvernig hann byrjaði í geiranum, með hverjum hann var að túra, hvernig hann þróaði settið sitt o.s.frv. En jafnvel þótt yfirlýst markmið hans með bókinni hafi verið að skoða þetta æviskeið sitt nánar þá kemst hann ekki hjá því að ræða um fjölskyldumál og kærustur. Sem mér finnst engan veginn áhugavert.

Það er deginum ljósara að þetta blandast allt saman, uppistandarinn er mótaður af samskiptum sínum við foreldra sína allt einsog því hvað hann les eða sér útum gluggann. En einsog gamanmálin hans eru framúrstefnuleg og spennandi þá er fjölskyldudramað eitthvað sem mér finnst ég hafa séð í sjónvarpinu tíu sinnum áður: Ofbeldisfullur og afskiptinn faðir sem er ómögulegt að gera til geðs, systkini sem talast varla við og móðir sem verslar og segir ekki orð. Og allt leysist á endanum, allir skilja sem vinir.

Ég ímynda mér staðlaðan ævisögukúnster sem hrópar ,,En þetta gerðist í alvörunni! Þetta upplifði maðurinn!"

Og hvað með það?

En það má vel vera að ég sé að snúa þessu á hvolf, og að sagan sé höfuðatriði fyrir þá sem helst vilja lesa ævisögur, ekki sannindin. Plebbinn sem gólar í hausnum á mér um alvöru og staðfestar heimildir er e.t.v. hugarburður einn.

Hvað sem því líður þá er sagan frekar mistæk. Ég myndi samt mæla með henni fyrir áhugamenn um uppistand Martins eða uppistand almennt. Sögurnar af götunni og klúbbunum eru oft kostulegar. En bókin útskýrir a.m.k. hversvegna Martin er svona tregur til að veita viðtöl sem hverfast ekki útí sketsa: Einkalíf kómíkerans er ekkert sérlega fyndið, einsog hann tekur fram oftar en einusinni. Sjóið er sjó, og rjóminn er skilinn eftir á sviðinu.

...

Föruneyti hringsins er að klárast, en það er nóg af sögu eftir í eyrun. Ég fékk nýja amazón sendingu um daginn og á þessvegna nóg á skjáinn líka. Hinsvegar vantar mig eitthvað að lesa. Æ mig auman.

-b.

Engin ummæli: