18 febrúar 2008

Sumarfríið í ár

Ég á bókað flug til Kaupmannahafnar annan júlí næstkomandi. Og ég á líka bókað flug heim þann áttunda júlí næstkomandi. Glöggir lesendur hafa þegar komið auga á þá staðreynd að utanferðin faðmar fyrstu helgina í júlí, þegar tónlistarhátíð er haldin í Hróarskeldu ár hvert. Þeir vita einnig að Kaupmannahöfn er steinsnar frá Hróarskeldu, og draga þá ályktun að þessi skreppitúr minn hafi eitthvað með téð festival að gera.

Og svona ykkur að segja, glöggu lesendur, þá er það alveg rétt.

Við Davíð og Egill erum allir þrír búnir að panta okkur flug með sömu vélum og ætlum á tónlistarhátíð. Hversu svalt er það á skalanum einn til tveir?

Einsog sjá má á heimasíðu hátíðarinnar þá eru rétt rúmir 132 dagar í herlegheitin. Þar má einnig skoða heldur stuttan lista af böndum sem eru þegar búin að skrá sig á svið, en hann lengist þegar nær dregur.. Ég hef aldrei verið yfirmighrifinn af Chemical Brothers og það virðast allir fíla Band of Horses nema ég og Jakob í skemmunni, en nú skal karlinn sjá Radiohead. Fokk já. Sjö ár síðan síðast beibí, von að mann sé farið að klæja.

Þá er bara að fara að skoða tjöld, versla fána, sauma búninga, bæta stígvélin, kaupa batterí, pakka teipinu..

Uppfært um kvöld sama dags: Nú er ég kominn með miða á Kelduna sjálfa. Þeir fást í Skífunni. Allt á pappírum maður, skjalfest og staðfest og kom nú snart fest.

-b.

Engin ummæli: