29 febrúar 2008

Sumir keyra til Keflavíkur, aðrir fljúga til Parísar

Hallur kom heim í Skaftahlíðina í gær með tösku og flugmiða. Við gláptum á tvo X-Files þætti og fórum svo í bælið. Hver í sitt bæli, vitaskuld. Hvað er þetta. Útúrsnúningar og dylgjur eru þetta alltaf. Ég á ekki eitt aukatekið o.s.frv.

Annars hafði ég gaman af því að velja góða X-Files þætti. Það gæti verið lítið verkefni fyrir mig að katalóga þessi ósköp, hvað virkar og hvað ekki, stýra vongóðum glápurum framhjá hrikalegu þáttunum (sem eru þónokkrir) og vekja athygli á æðislegu þáttunum (sem eru líka nokkrir, þó það nú væri). Það er spurning.

En Hallur var semsagt kominn til að leggja sig um nóttina og fara svo með Inga Birni á Leifsstöð, en ég var búinn að lofa því að keyra þá niðreftir. Við lögðum af stað um fimm og vorum komnir á fínum tíma. Ég tók í hendur og kvaddi strákana og jafnvel þótt það væri strangt til tekið ekki hægt að miða út gönguleiðir þarna á staðnum - þá taka við blindgötur, snarpar beygjur og snúningar í innskráningu og öryggisleit - þá þóttist ég sjá að þeir stefndu beina leið á barinn.

Ég heyrði annars í Inga Birni áðan og þeir voru kátir, í metróinu á leiðinni til Montparnasse. Í kvöld opnar sýningin þeirra Frikka og félaga. Það verður partí, hugsa ég.

Ég keyrði heim frá Leifsstöð, sofnaði kaldur og þreyttur og svaf yfir mig. En það kom ekki að sök. Nú stend ég vaktina niðrá safni, sjoppan lokar eftir rúma fjóra tíma. Hvað er að heyra, er strax komin helgi?

Það eru annars þrjár vikur í mína utanlandsferð. Ég bíð rólegur.

-b.

Engin ummæli: