22 maí 2007

Beygja, kreppa, sundur, saman

Sjöhundruð tuttugu og tveir. Ég hef ekkert til að skrifa um en við skulum sjá hvort eitthvað hrekkur ekki úr loftinu ef við berjum í veggina. Mig vantar að komast af stað. Ég veit hvað ég ætla að segja á næstu blaðsíðum í Ritgerð en þetta er munurinn á því að skrifa fyrir sjálfan mig og að skrifa fyrir annað fólk: Hérna get ég skrifað það sem mér dettur í hug, af því það skiptir ekki máli. En ef ég ætla að skila þessum skrifum eitthvað og láta annað fólk lesa það, þá þarf það sem ég skrifa að mynda heild.

Hérna fyrir neðan er nýjung í gangi hjá blogger. Það er ,,save now" takki, blár við hliðina á appelsínugulum ,,publish post" takka. Ég get ýtt á þennan bláa og vistað það sem ég hef skrifað sem uppkast. Nemahvað, nú er blogger farinn að gera það sjálfkrafa.. á mínútu fresti eða svo? Þarna gerðist það. Þegar ég hvíldi mig á milli setninga. Punktur, slak, seiv. En núna verður sportið að halda áfram og áfram svo blái takkinn breytist aldrei í grátt ,,saved".

Og halda bara áfram að skrifa og skrifa þannig að ekkert geti gerst og ekkert breytist. Sem hljómar arrgghh. Hann seivaði. Ég vil ekkert seiv.

Nei þetta er erfitt sport. Maður þarf líklega að redda sér einhverjum lyfjum til að geta haldið sér við efnið. Eitt sem maður getur gert, ef maður þarf að hugsa næstu setningu í gang, er að skrifa staf og stroka hann út jafnóðum, því þá getur hann ekki vistað heldur. En foj. Hættum þessu rugli.

Authorial authority and authorial identity. Jæja. Þetta er í það minnsta ekki praktískt.

En Breakfast of Champions er allt öðruvísi núna heldur en þegar ég las hana í fjölbraut. Spáum í því. Ég held ég hafi verið ánægðari með hana þá, en kann kannske betur að meta hana núna? Meikar það sens? En það eru nokkur gullin augnablik í þessari bók. Kona stingur uppá því við manninn sinn að þau selji hlutabréfin sín og flytji til Maui. Næsta lína: ,,So they did."

Og maður heyrir ekki frá þeim aftur. Exeunt, stage left.

Sólin veit að ég sit inni og skrifa. Hún notar tækifærið til að hita steypuna á svölunum mínum. Þegar ég stíg út er það einsog að vefja sig teppi úr ljósi.

Ríkisútvarpið hérna í Danmark sendi mér bréf um daginn. Bíðum við.. Þetta byrjaði þegar þeir bönkuðu uppá hérna fyrir áramót og ráku augun í útvarpið mitt. Þetta skaltu borga fyrir, sögðu þeir. Og sendu mér reikning. Alltaf lendi ég í því að borga afnotagjöld. Nemahvað, svo senda þeir mér bréf um daginn og segja eitthvað á þessa leið:

Við vitum að þú ert með útvarp, en nú viljum við vita hvort þú sért líka með eitthvað annað, til að mynda tölvu með svona og svona hraða nettengingu, sem þýðir að þú getur horft á DR í gegnum netið, þjófótti bastarðurinn þinn.

Fyrir neðan það eru tveir kassar, og ég á að velja einn.

Fyrri kassinn: Já ég er með allskonar græjur til að stela sjónvarpsútsendingum, og ég þoli ekki að lifa í lyginni lengur, úr takti við menn og dýr. Vinsamlegast rukkið mig um rúmlega tíu þúsund krónur danskar á ári, því ég veit hreinlega ekki hvað ég á að gera við öll þessi námslán.

Seinni kassinn: Nei, ég sver og sárt við legg að ég á ekkert sem gæti mögulega sýnt mér danskt sjónvarp og þannig haft af ykkur mögulegar tekjur. Lof sé Danmörku, dýrð sé móður Jörð, Guð geymi drottninguna og Danir eru bestir í handbolta.

Ég setti x í seinni kassann, en ég ætla ekki að senda bréfið fyrren skömmu áður en ég flyt heim. Bastarðar.

Við Ýmir kíktum á Zodiac í gær, og það ættu allir að gera. Ég segi ekki meir.

-b.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

"þetta er munurinn á því að skrifa fyrir sjálfan mig og að skrifa fyrir annað fólk: Hérna get ég skrifað það sem mér dettur í hug, af því það skiptir ekki máli. En ef ég ætla að [...] láta annað fólk lesa það, þá þarf það sem ég skrifa að mynda heild."

Sem reglulegur lesandi blóksins er ég sármóðgaður. Er maður þá ekki fólk? Eða öllu heldur "annað fólk". Annað fólk en hvað? Díses Bjössi!

-Ingi

Björninn sagði...

Æði. Mér finnst hornklofa-útklippið gott tödds.

En já, málið er að ég er að fá á bilinu 3 til 10 lesendur á dag, að mér meðtöldum. Þetta er allt fólk sem ég þekki og mér finnst ég ekki þurfa að meika sens, ekki frekar en mig langar til.

Og mér finnst það bara besta mál. Ég hugsa þetta yfirleitt þannig að ég sé að skrifa fyrir sjálfan mig í framtíðinni, afþví mér finnst gaman að fara í gegnum það sem ég hef verið að spá á liðnum árum, hvað ég gerði þessa helgi, hvaða bíómyndir ég sá þennan mánuð.. Ég fæ líka smá kikk útúr því að vinir mínir og aðrir geti lesið þetta jafnóðum, en mér finnst ég ekki vera að skrifa fyrir einhvern ákveðinn lesendahóp.

En það er bara húmbúkk. Rétta svarið er auðvitað: Þið eruð ekki annað fólk. Þið eruð mitt fólk.

*Ding*