01 maí 2007

Svona skrifa ég ritgerð

og það er mjög asnaleg leið til að gera það, en ég geri það samt afþví ég kann ekki að haga mér öðruvísi.

Fyrst les ég það sem ég ætla að skrifa um. Yfirleitt veit ég ekki fyrirfram að ég komi til með að skrifa um það fyrren mun seinna, þannig að ég punkta ekki nógu mikið hjá mér á meðan ég les.

Stundum punkta ég eitthvað hjá mér í litla bók sem ég á, og stundum inní bækurnar sjálfar. Yfirleitt les ég þessa punkta aldrei aftur nema ég sé að leita að sérstöku blaðsíðutali - og ég finn það sjaldnast því ég hafði ekki fyrir því að punkta það niður á sínum tíma.. það virkaði ekki svo merkilegt þá.

Áður en ég get farið að skrifa af alvöru opna ég notepad og hugstorma. Fullt af punktum. Á einhverjum tímapunkti byrja ég að skrifa inngangsorð, og þegar ég er kominn dálítið inní þau þá kopí-peista ég þau inní wordpad og reyni að halda áfram. Ég skrifa jafnóðum punkta um framhaldið í svæðið fyrir neðan það sem ég er að skrifa. og svo ýti ég því lengra og lengra niður eftir því sem ég skrifa meira.

Fæstir af þessum punktum verða meira en punktar. Textaskjalið geymi ég einhverstaðar, en ég næ einhvernvegin aldrei að slíta mig frá þræðinum sem ég er að elta til að fara útí afmarkaðar umræður sem miðast af punktunum. Ég á erfitt með að byggja efnisgreinar eftir uppdrætti, þarsem eitt ákveðið atriði er klofið til mergjar, svo maður eigi að geta snúið sér að öðru (en þó á einhvern hátt tengdu) í þeirri næstu. Þetta er allt sama setningin einhvernvegin. Eitt leiðir óhjákvæmilega af öðru, og punktarnir eru bara eitthvað sem maður hoppar yfir, rétt einsog greinaskilin.

Einhverntíman inní þessu reipitogi sé ég að ég er kominn á blaðsíðu 18 af 20-25 umbeðnum síðum, og fer að róast niður. (Fyrir ekki svo löngu síðan átti ég í stökustu vandræðum með að fylla uppí sjö, átta síður.. en þeir dagar eru liðnir, sem betur fer.) Þá bakkar maður aðeins, þreifar eftir þræðinum sem leiddi mann inní þessa vitleysu, og rekur hann aftur tilbaka. Það erfiðasta er síðan að loka öllusaman og halda andlitinu um leið, að reyna að sannfæra lesandann um að þetta hafi allt tengst á einn eða annan hátt, og leiði svo allt að, tada, þessu hér. Og um leið að forðast klisjur, á velli þarsem allskonar sniðugur klisjuflótti er líka löngu orðinn klisja, og afneitun á honum er líka klisja. Og svo framvegis.

Bæ ðe bæ, þessi texti er ekki dæmi um það hvernig ég skrifa ritgerð. Hér eru til að mynda engir punktar sem ég notaðist ekki við.

-b.

Engin ummæli: