20 maí 2008

Kvikmynd úr óminni bernskunnar, seinni hluti

Í febrúar á síðasta ári bað ég lesendur internetsins að hjálpa mér að finna tvær bíómyndir. Þetta voru myndir sem ég sá þegar ég var strákur og ég mundi kannske eina eða tvær senur úr, og ég vildi fá að vita hvað þær hétu. Nú hef ég væntanlega séð helling af kvikmyndum í gegnum tíðina sem ég man ekki hvað heita akkúrat núna, en minningarnar af þessum tilteknu myndum vógu þyngra en aðrar. Jæja.

Á vitleysingum sté fram einn gaur og sagði að önnur myndanna væri Flash Gordon. Það var hárrétt, ég sótti myndina og hafði mjög gaman af. Senan sem ég átti í höfðinu var allt önnur en sú sem var í myndinni sjálfri (og ég vil nú meina að mín hefði verið betri.. það er einsog ég hafi bætt við búningum og umhverfi úr Star Trek eða þvíumlíku) en myndin var samt þrælskemmtileg. Enginn kannaðist við hina myndina.

Fyrren núna á föstudaginn. Ég fór í partí til Marvins, og þar var hrúga af kvikmyndafræðinemum. Allir voru að spjalla og drekka og einhver gaur, sem ég man nú hvorki hvernig leit út né hvað hét, fór að tala um kvikmyndir sem hann hafði verið að horfa á daginn áður, eða fyrr um kvöldið. Önnur þeirra fjallaði um CIA útsendara sem þurftu að hitta geimverur. Ég hváði. Voru þeir að skipta á vatnsglasi og einhverskonar vúdú-húbúdjúbú til að losna við mengun í heiminum? Já, eitthvað í áttina, sagði hann. Hvað heitir þessi mynd, spurði ég. Real Men, sagði hann. Með Jim Belushi og John Ritter.

Ég útskýrði fyrir honum og örugglega þeim sem sátu í kring að ég hefði verið að leita að þessum titli í talsverðan tíma. Nú skyldi ég sjá myndina. Ég gerði það núna í gær. Og hún er hræðileg.

Þetta er svona bjánaleg löggugamanmynd sem reynir ofboðslega mikið að vera skrýtin og absúrd, en er í raun og veru bara pollur af lélegum bröndurum og endalaust þreytandi samtölum. Það er engin persónusköpun í gangi, engin tilfinningaleg dýpt eða neinskonar tilraun til að gera persónurnar sympatískar. Einstaka brandari gengur upp en oftast eru þeir alltof lengi á leiðinni til að gera nokkuð eða þeir lognast einfaldlega útaf og Belushi hrækir þeim andvana útúr sér með sama svipnum og í öllum hinum atriðunum.

Í ofanálag er þarna í gangi ,,ádeila" á mengun og vopnakapphlaupið. Þá á ég við að handritshöfundurinn tekur upp þrjátíu punda sleggju sem á stendur ÁDEILA, og danglar henni með hangandi hendi utaní skjáinn minn. Þetta er bara illa illa skrifað. Ekta dæmi: Þegar rolan hann John Ritter fær loksins hugrekki til að berja frá sér og bjargar félaga sínum frá trúðaárás (!) þá yppir hann öxlum og segir ,,Hva, ég þurfti bara smá sjálfstraust." Já er það já. Var það einmitt það sem þig vantaði? Og þú ert búinn að fá það núna semsagt?

Líklega voru það McGyver taktarnir í aðal-CIA gaurnum sem mér þóttu svona merkilegir þegar ég sá hana í dentíð. Makkæver maður, úff. Ég var heilmikill fan.

Einstaka góðir punktar en á heildina alger hörmung. Og Jim Belushi, Jesús Satan.

Hér er samt eitt: Í byrjun myndarinnar, þegar Belushi er dulbúinn sem fisksali, þá er Kahn-inn þar mættur að selja kjötvörur, væntanlega orðinn leiður á lífi sínu sem einráður í Parmistan, þarsem menn eru alltaf að elta og drepa hvern annan.

...

Nú er planið að keyra á Ísafjörð og sjá nokkrar heimildamyndir. Hérna er prógrammið, á pdf og hér er svo heimasíða hátíðarinnar/málþingsins.

Til þess þarf ég að skipta út nagladekkjunum og yfirfara bifreiðina. En mikið er ég spenntur fyrir því að kíkja aðeins útá landstein.

-b.

Engin ummæli: