06 maí 2008

Þynnkan sem tórir í vikur eða mánuði

Það small eitthvað í bakinu á mér núna um helgina.

Nei, það er ekki rétt. Sko. Ég tók bara eftir því á laugardagsnóttinni að ég var með verk í mjóbakinu. Hann var kunnuglegur, ég hef fengið svona verk áður, ég hef verið með svona verk í nokkra mánuði í senn. Það er þegar hann hverfur sem eitthvað smellur. Með látum. Síðast voru vitni að því; þetta var ekki ímyndun í mér.. þá var hann bara nokkurra daga gamall. Djöfull fer þetta í taugarnar á mér.

Ástæðan held ég að hljóti að vera þessi: Ég tók upp öxi og hamaðist á einhverri trjágrein. Einsog asni.

Nú sé ég að húsaleigubæturnar hafa hækkað um nokkra þúsundkalla. Þær eru komnar í 18.000kall, það er alveg.. 5.500króna hækkun. Nú þarf ég að endurgreiða strákunum einhvern pening. Ó mig auman.

Ég er einn heima akkúrat núna. Það er frekar skrýtið, aðallega held ég vegna þess hversu stórt plássið er. Ef ég hefði bara herbergið mitt og stigagang þar fyrir utan þá gæti ég gert einn hlut og fyllt allt plássið, en nú er ég annaðhvort í eldhúsinu, stofunni eða svefnherberginu. Á meðan ég er á einum þessarra staða sitja hinir tómir, hálfdauðir. Ef ég ætla að halda lífi í allri íbúðinni þá þarf ég að gera tvo þrjá hluti í einu, og vera á hlaupum á meðan.

Nú er talað um að gullfiskar verði aldrei of stórir fyrir búrið sitt, þeir stækki ekki umfram plássið sem þeir hafa til umráða. En það verður að vera eitt stórt svæði, ekki mörg lítil og gengt á milli. Eða synt. Hvort stækkar fólk við sig vegna þess að það fjölgar í fjölskyldunni eða öfugt? Ekki það að ég sé að fara að ættleiða kínverskt/indverskt/afrískt barn. Eða blending af öllu þrennu. Hei. Það væri bara vitleysa. Ég á eftir að horfa á The Return of the King aftur.

Ég er líka að reyna að spara pening, alltíeinu. Get ég klárað mánuðinn á 40þúsund krónum? Náms-Björn hefði getað það, eftir leigu.

Ahemm. Fleira, því ég nenni ekki að gera eitthvað annað.

Við vorum semsagt í bústað um helgina. Á sunnudaginn sátum við og gerðum lítið, voða lítið. Davíð er rólegi maðurinn, hann verður eftir þegar við förum í bæinn. En það var ekki að gerast ennþá. Sko við sátum í bústaðnum, ég var í sófanum, einhver í stólnum, eitthvað að sljákka í kamínunni. Einhver (ég?) sagðist ætla að vera veikur á mánudeginum, helgin hefði tekið á. ((Þetta gekk eftir í mínu tilfelli, ég var handónýtur í gær. En ég hafði allavega þetta andskotans bakmein, þetta var ekki bara leti.))

Einhver fór að tala um helvítis vinnuna, annar minntist á guðdómlega daga víns og rósa í Háskólanum, við rausuðum um þetta. Ég man ekki hver sagði hvað, ég held þetta hafi þó aðallega bara verið við Davíð og kannske Inga. Ég man hinsvegar að Egill sagði ,,Aumingjar. Þið viljið fara aftur í skólann til að þurfa ekki að gera neitt, en þið nennið því ekki?"

Hann hitti naglann á höfuðið. Mér fannst það óheyrilega fyndið.

En nei, úr þessu myndi ég varla nenna að fara aftur á námslán, skila verkefnum, mæta í tíma. Ef ég næ einhverntíman í helvíti að klára þessa MA-ritgerð þá segi ég skilið við draslið. For gúdd? Ag. Hver veit. Mér finnst þægilegt að eiga pening en hvað í helvíti er ég sosum að gera við hann?

Fara á Hróarskeldu. Flón.

Æ já.

Nýkominn úr bústað og það eru bara rúmlega fimmtíu dagar í næstu úti-legu. Með dýnum og veðri og tónlist og eitri. Áfengi er óhreint lyf, það sökkvir öllum líkamanum í eitur, það ræðst á þig úr öllum áttum. Það miðar ekki á og tekur fyrir einn tiltekinn viðtakanda eða slíkt, það líkist frekar napalm-teppalagningu, þarsem taugakerfið í heild fær að drekkja sér í ljúffengu etanóli.

Ég á annars nokkrar myndir og heilan helling af upptöku (sem ég efast reyndar um að sé spennandi fyrir nokkurn sem ekki var á staðnum, og ég meika varla að fara í gegnum það), ég verð að sjá hvort ég geti deilt þessu með veröldinni í gegnum internetið. Sko mig og lingóið.

Mig langar í gtaIV. Æ já. Peningar.

-b.

Engin ummæli: