Ég horfði á Brazil í gær, hún var frekar spes. Ég hafði áður séð búta úr henni hér og þar en aldrei myndina í heild. Eitt af því sem truflar mig alltaf við vísindaskáldskap er þegar persónur spyrja spurninga eða haga sér einhvernvegin einsog þær séu núna fyrst að fatta hvernig heimurinn virkar, jafnvel þótt þær hljóti að hafa alist upp í honum. Auðvitað er þetta gert til þess að útskýra ástandið fyrir okkur, áhorfendunum, spyrja spurninga sem okkur langar að spyrja. En þá er svo mun miklu betra að gefa svarið, eða gefa bendingar um svarið. Viðmiðið góða: Að sýna, ekki segja.
Þannig virkar það ótrúverðugt þegar starfsmaður í dystópískri ríkisstofnun stingur uppá því að þessi og hinn leiti til lögreglunnar; hún hljóti að leysa úr málunum. Hefur hann ekki enn fengið tækifæri til að kynnast spillingunni á þeim bæ?
Mér fannst dálítið eima af þessu í myndinni, aðalpersónan er einum of barnaleg gagnvart kerfinu sem hún er þó hluti af og ætti að þekkja betur.
Það er æðislegt að fylgjast með því hvernig hálfgerð slapstick-kómedía breytist í algera martröð undir lokin, en sú tónbreyting er frekar löng og skrykkjótt. Kannske má samt finna bestu atriðin á þessum mörkum, eins og þegar parið lítur aftur og sér lögreglumanninn í ljósum logum, berjast um og lognast útaf. Það setur einhverja vigt í flóttann, sem er annars hálfgerður ærslagangur.
Og það er náttúrulega hellingur af góðu dóti þarna, búningarnir, umhverfið, dagdraumarnir, Michael Palin.. Atriðið þar sem hann gengur að hitta Lowry í hvelfingunni, með grímuna, og skammar hann svo fyrir að koma sér í þessa aðstöðu. Algert gull. Endirinn er líka æðislegur en ég held að hann sé ekki alveg eins sterkur og hann vill vera. Hann segir kannske eitthvað um myndina í heild: Þetta sjónræna gengur fullkomlega upp, en persónurnar eru ekki alveg sannar sjálfum sér.
Þetta var aðeins lengra en það átti að vera. Því hérna er málið sko. Ég hafði enska textann á vegna þess að hljóðið er lélegt í sjónvarpinu, og vegna þess að tónlistin er dálítið áberandi í myndinni þá voru alltaf að koma lýsingar á henni: ,,[dramatic instrumental music]" eða ,,[sentimental instrumental music]" eða ,,[cheerful carnival music]". Og maður spyr sig hvort hægt væri að finna sorglega karnival-tónlist. Það langbesta kom þó undir lokin, í einu draumaatriðinu þar sem Lowry er eltur af einhverskonar skrímslum:
,,[Ominous wailing from the forces of darkness]"
Þetta er mjög sértækt en um leið algerlega huglægt. Og æðislegt.
-b.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli