Love in the Time of Cholera er ennþá auglýst sem ,,stórvirki óskarsverðlaunahafans Gabriels Garcia Marquez." Getur verið að ég sé eini maðurinn á landinu, í heiminum, sem les blaðið, og að ritstjórnin lesi ekki þessa síðu mína?
Þetta síðarnefnda er reyndar nokkuð öruggt.
En ég fór að spá í þessu í gær. Márquez fékk reyndar Mexíkósku Ariel verðlaunin, æðstu viðurkenningu Mexíkósku kvikmyndaakademíunnar og nokkurskonar bróðurverðlaun Óskarsins í Suður-Ameríku, fyrir handrit myndarinnar Año de la peste, eða Ár plágunnar. Þetta var árið 1980, fimm árum áður en Kóleran kom út. Semsagt: virtustu kvikmyndaverðlaun tiltekinnar Ameríku, veitt á níunda áratugnum, fyrir sögu um plágu á ákveðnu tímabili. Er hugsanlegt að ritari auglýsingarinnar hafi ruglast á þessu tvennu?
Að vandamálið hafi ekki verið það að hann kunni engin deili á Márquez, heldur að hann vissi of mikið um Nóbelsskáldið, og ruglaðist bara pínulítið í ríminu þegar á hólminn var komið?
Ég ætla allavega að leyfa honum að njóta vafans, það er miklu skemmtilegra þannig.
-b.
2 ummæli:
Ég held að sá er ritaði umtalaða setningu hafi, frekar en að um misskilning (fáfræði?) sé að ræða, verið að koma obskúr vísun í brandarann af því þegar HKL var fjörgamall á sjúkrahúsi á framfæri. Hann spurði einhverja hjúkkuna hvort hún væri nokkuð portkona. Hún fór fram í sjokki og spurði á kaffistofunni hvað portkona væri. Þegar hún var innt eftir því af hverju hún væri að velta þessu fyrir sér, anzaði hún:
Æ, kallinn þarna sem vann óskarinn sagði þetta.
Hei það er frábært!
Ég vil helst hallast að því að báðar tilgátur séu réttar: Sá sem pikkaði er bersýnilega mikill menningarspekúlant, velkunnugur kvikmyndaferli Márquez og síðari árum íslenska Nóbelskáldsins. Þarna hefur hann séð sér leik á borði og kastað agni fyrir velþenkjandi béusa einsog okkur.
Við ættum náttúrulega að gefa sjálfum okkur hæ-fæv á bakið fyrir að hafa gripið þetta, þó ekki sé nema á seinni degi.
Skrifa ummæli