26 maí 2008

It Came From Planet Monday

Ég er með harðsperrur í skrokknum öllum eftir moksturinn á laugardaginn. Ég var plataður uppí Vindáshlíð að hjálpa til við undirbúning fyrir sumarið, renndi þarna laust fyrir hádegi og fólkið á planinu tók á móti mér með skóflu og hrúgu af möl. Fyrst var mokað í hjólbörur, svo voru hjólbörurnar keyrðar á staðinn, þar var sturtað úr þeim og mölinni dreift, landið slétt. Eftir mat lögðum við þökurnar, stuttu seinna var kominn grænn völlur. Hreint ekki slæmt.

Þaðan hentist ég heim og í jakkafötin, brunaði til ömmu á Selfossi og óskaði til hamingju með útskriftina. Hún var með alltof mikinn mjöggóðan mat, ég lagði mig í hálftíma og vaknaði og þá voru allir að horfa á Eurovision. Kíkti á rúntinn með Halli, við fórum í stelpupartí í.. Spóarima? Þaðan á Krúsina og svo á 800 bar, sem opnaði sama kvöld. Þeir leyfðu sér að rukka 1.500kall inn, þessir andskotar. Þarna var hálfur bærinn.

Ég hló alla leiðina í Reykjavík, skutlaðist í Kópavog, kíkti í Kolaportið, allt á sunnudeginum. Grillaði pítsu, horfði á Simpsons, fór snemma að sofa. Djöfull var það sterkur leikur.

Og ég er með kunnuglegan verk í maganum sem er óþægilegri en hann ætti að vera, það er einhvernvegin dimmt og kalt úti þrátt fyrir góða veðrið í gær. Maður spyr sig hvort að fólk sem vekur þessar tilfinningar hjá manni sé yfirhöfuð þess virði. Og að hvaða leyti maður líkist því í samskiptum við annað fólk.

Og hversu lengi maður nennir að skrifa um verki hér og þar. Er ég gamall maður? Gamlir menn væru nú ekki sammála því. Ég sé þá á götum úti. Hinsvegar þekki ég ekki marga gamla menn, og þá sem ég þekki hitti ég sjaldan. Ég álykta því að ég komi ekki til með að þekkja sjálfan mig þegar ég er orðinn gamall, ergó ég er ekki gamall maður. Og ætti ekki að vera að skrifa um gigt-, bak-, harðsperru- og magaverki útí eitt.

Í sambandi við framtíðina: er nauðsynlegt að gera greinarmun á því hvað maður vill gera og hvað maður þarf að gera? Ennfremur: er nauðsynlegt að skipta fólki uppí tvo hópa eftir þessari tvíeind?

Ég vil fara á Hróarskeldu, og Ísafjörð, og ég vil halda áfram að vinna hérna aðeins lengur, eða þangað til mig langar það ekki lengur.

Ég þarf að klára skólann, einfaldlega vegna þess að ég byrjaði á honum og ég er kominn svona langt.. það má orða það svo að það sé sniðugra að halda áfram í áttina að hinum bakkanum en að snúa við og synda aftur til gamla landsins. Hinsvegar krefst þetta lokaskref einhverskonar áhuga (og eldmóðs?) sem ég virðist ekki eiga til einsog er. Fokksjitt. Ég er jafnlyndur maður. Í sumum samfélagskimum er það bara allt í lagi.

Ég hló alla leiðina til Reykjavíkur, sagði ég. Það eru voða litlar ýkjur. Hallur var á staðnum. Á tímabili var ég hræddur um að missa sjón og síðan stjórn á bílnum, í framhaldinu. Að einhverju leyti var þetta furðu sterk þynnka, en síðan veit ég ekki.

Hallur sendi mér sms áðan: Les Miserapeles. Getur verið að við séum bara svona fyndnir?

Það er svo margt sem ég gæti fjölyrt um í sambandi við vinnuna, rausað um djobbið, blaðrað um bókasafnið. Ég geri það ekki annarsvegar vegna þess að ég er ekki viss um að ég vilji að samstarfsfólkið finni þessa síðu í einhverju iðjuleysis-gúgli, og hinsvegar vegna þess að ég þykist vita að það sé ekki ætlast til þess af borgarstarfsmönnum að þeir deili innanbúðarmálum með umheiminum. Allavega ekki svo hægt sé að benda á sönnunargögn.

Eða svo: það er auðveldara að benda á texta á vefsíðu en á slúður yfir bjór.

Fortíðin hverfur smátt og smátt með hverjum deginum, en að ákveðnu leyti (mjög mjög ákveðnu leyti) þá á hún heima neðar í götunni. Mjög mjög ófígúratíft. Hvaða helvítis veraldarbrandari er það? Hefur einhver einhverntíman sagt þér alveg ofboðslega óþægilegt leyndarmál sem kemur þér engan veginn við? Sem þú vissir að þú gætir ekki einusinni talað um jafnvel þótt það kæmi fram í dagsljósið, hugsanlega, einhverntíman?

Helvítis helvítis helvítis

mánudagar.

Sem standa fyrir þriðjudögum.

Með von um sól á föstudaginn.

Án þess þó að hún skíni í augun þarsem ég legg á Steingrímsfjarðarheiði.

-b.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hm? Já, ég gerði það, en skrifaði reyndar les Miserape(-)ables. Les mise-rape-les er reeeyndar ókei.
hkh

Björninn sagði...

Ah, þeir eða þau eru nauðgunarleg, eða hæf til nauðgunar. Það meikar sens.