Ég fékk hugmynd um daginn, brotabrot af hugmynd. Opnun á einhverju sem ég myndi svo þurfa að þróa áfram, en það gerist jú ekki nema maður geri það. Ég stóð í sturtunni og var að hugsa um eitt og annað. Ég hafði nýlega séð myndband í símanum mínum, af samræðum sem ég mundi ekki eftir. Þar vorum við Davíð, Hallur og Víðir að tala um nýlega skáldsögu eftir höfund sem ég ætla ekki að nefna því ég vil ekki að það komi upp í gúgúl-leit. En bókin hefur að gera með mat og það að breyta umhverfinu í mat, að næra sig og þjóðina á landsins gæðum. Falleg bók. Ég las hana fyrir jólin en fann einhvernveginn ekki leið til að koma mér inní skrif um hana. Jæja, allavega. Í þessu myndbandi erum við að kokka upp atlögu að þessari bók. Og í lokin dreg ég mína bjórvaxta meiningu saman í þessu: "Þannig að: Matur, lundar, Davíð."
Þetta síðasta var grín: Ég myndi sennilega ekki nota Davíð sem persónu í umfjöllun um bókina. En það sem ég röflaði um lundana og matinn, þarna í Nýlenduverzluninni eitthvert kvöldið, fannst mér að gæti gengið.
Ég hafði semsagt nýséð þetta vídjó, og mín eigin ræða hafði komið mér á óvart því ég hafði ekki heyrt hana áður, í mínum huga var hún týnd í drykkju. Þannig má segja að ég hafi sjálfur sett bókina í ákveðið samhengi fyrir sjálfan mig, sem mér hafði þar til ekki dottið í hug. Eða atlöguna að þessu samhengi, öllu heldur. En já, ég hafði nýséð þetta vídjó.
Auk þess hafði ég nýverið rekist á sjálfan höfund bókarinnar. Við erum ekki málkunnugir en ég hafði séð hann í ríkinu. Það var á laugardegi rétt fyrir lokun, í Austurstrætinu, og hann hafði komið inn um það leyti sem ég valdi mér stæði í röð. En raðirnar riðluðust til og gengu mishægt og runnu saman, það endaði þannig að hann lenti á eftir mér í röð. Ég var með einhverja bjóra -- ég var einmitt á leiðinni í annað nokkurskonar geim ásamt Davíð, Víði og Halli, auk annarra -- og hann var með tvo pela að mig minnir, eða kannske einn pela og litla rauðvínsflösku, eitthvað svoleiðis. Nú fara allir í ríkið, það er ekkert sérstakt við það að rekast á mann í ríkinu, en þarsíðasta bókin sem hann sendi frá sér var flæðandi í áfengi. Botnlaust fyllerí endanna á milli. Og það sem ég hef séð af bókinni þar á undan bendir til þess að áfengi skipi þar stóran sess, en ég sel það ekki dýrara en ég keypti það. Af sjálfum mér, þar sem ég fletti í gegnum hana þarna eitt skiptið.
En þarna varð til einhver mynd af rithöfundinum í höfðinu á mér, þar sem hann stóð á einhvern hátt fyrir drykk eða drykkju. Ekki hann sjálfur í eigin lífi heldur hann sem lesa má úr textunum sem hann lætur frá sér. Og þar sem ég stóð í sturtunni rifjaðist myndbandið upp fyrir mér, þar sem ég sjálfur (í þriðju persónu) lýsi bókinni sem hugleiðingu um mat, eldamennsku, það að neyta og vera til á jörðinni, með öðrum orðum sköpun með aðstoð matreiðslu og átu. Neyslu. Allt í einu finnst mér eins og ég sjái einhvern þráð þarna á milli þessara tveggja verka, sem eru annars um það bil eins ólík og hægt er að hugsa sér. Í því liggur þetta brotabrot af hugmynd, að tengja þessar bækur saman á þennan máta. Sennilega án þess að rekja allt þetta framangreinda, þess vegna geri ég það hér.
Neysla á jákvæðan máta, eins og ég segi, á skapandi máta að einhverju leyti. Drykkjan í fyrri bókinni er eyðileggjandi en það er vegna þess að sumar persónur nota hana þannig, á meðan aðrar gera það ekki. Hann er að skoða sóknina í mat og drykk, og með öfugum formerkjum í síðari bókinni miðað við þá fyrri: Þar er neyslan alvarlegum takmörkum háð: það er ekki til nóg af mat og drykk á landinu. Hið stóra ævintýri bókarinnar er að sýna fram á gnóttina sem fer framhjá landanum, að koma auga á veisluna sem deyr annars úr dauða og myglu og rennur í hafið.
Fyrri bókin, sem snertir oggupons á Hruninu, hefur e.t.v. eitthvað að segja um ofsókn í landsins gæði, en kannske er punkturinn sá sami þegar allt kemur til alls, þ.e.a.s. nýtni. Gleðin og hamingjan sem felst í því að nýta og neyta. Frekar en að sóa eða misnota. Eða ofnota.
(Sem á rétt á sér líka, stundum.)
..ég á erfitt með að setja 'neyslu' í jákvætt samhengi, en ég held að honum takist það ágætlega.
Þannig að ég stend í sturtunni og mér dettur þetta í hug: "Ég stóð í röð fyrir framan rithöfund um daginn. Klukkan var korter í sex á laugardegi, þetta var í Ríkinu við Austurstræti og sjoppan var stöppuð af hófsömum neytendum að sækja eina rauðvín með kvöldmatnum."
Og svo heldur maður bara áfram.
-b.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli