16 febrúar 2012

Eitt enn

Ég mundi allt í einu eftir þessu.

Fyrir svona þremur, fjórum vikum síðan var ég að hjóla niður í Ögurhvarf. Það var ennþá hellingur af snjó og færðin allt í lagi en ekkert sérstaklega góð. Ég samt á nöglum. Ég hjóla niður að brú og kem að bekknum sem er þarna hálfa leiðina niður. Þar situr maður, úti að viðra hundinn, sem stendur á stígnum. Þegar ég nálgast fer hundurinn að gelta og ég sé að hann er laus.

Bara þetta, að fólk skuli láta hundana sína ganga lausa, fer meira en lítið í taugarnar á mér. Þetta er fyrir það fyrsta bannað með lögum (nema á tilteknum svæðum innan Reykjavíkur og þar er Elliðaárdalurinn ekki með talinn) en auk þess svo mikil vanvirðing við alla þá sem deila götunni eða gangstéttinni með viðkomandi, og hafa ekki áhuga á að fá upp um sig ókunnugan hund.

Jæja. Ég gef í frekar en hitt, hundurinn heldur áfram að gelta. Maðurinn verður mín var og hrekkur við, ég horfi á hann þegar ég renn fram hjá og spyr hvort hann 'sé að grínast'. Ekkert ofboðslega frumlegt, og ekki sérlega dannað heldur. En ég var á ferðinni niður brekkuna og langaði ekki að staldra við hjá þessum hundi. En svipurinn á manninum varð til þess að mér leið hálfilla á eftir. Hann hafði svo auðsjáanlega ekki gert ráð fyrir því að neinn kæmi þarna aðvífandi, eða nokkur yfirhöfuð í þessari færð, hefði e.t.v. hamið hundinn ef hann hefði orðið einhvers var, ég veit það ekki. Í öllu falli fannst mér ég sjá á honum að þetta kæmi illa við hann.

Mér varð hugsað til þessa nokkrum sinnum síðan, ekki síst vegna þess að maðurinn býr hérna í hverfinu og ég hef séð honum bregða fyrir.

Fyrir viku síðan var ég á leiðinni í strætó, aftur er laugardagur, og ég sé manninn á gangi með hundinn. Ég mæti honum ekki, en mig hálflangar til að staldra við og biðja hann afsökunar á því að hafa hreytt svona í hann þá um daginn. Nú fer ég að gera þessum manni upp einhverjar meiningar, en það gæti allt eins verið að þeir séu tveir einir á báti og að hann leyfi hundinum sínum að komast upp með ýmislegt sem hann ætti ekki að gera, vegna þess að honum þykir vænt um hann. Auk þess er það hálfvitaskapur að hreyta einhverju (sama hversu geldu og tilgangslausu) í fólk þar sem maður brunar framhjá því. Líklega getur það átt rétt á sér í einhverjum tilvikum en sennilega ekki þarna. Hugsa ég.

En ég vík mér auðvitað ekki að honum, ég held áfram í strætó.

Í gær er ég svo á leiðinni heim (í þetta sinnið úr strætó) og ég mæti manninum með hundinn í Suðurfellinu. Nú gef ég mér að þar sem ég er hvorki á hjóli né í hjólagallanum þá þekki hann mig ekki fyrir sama fólið, ef svo vill til hann muni yfirhöfuð eftir mér síðan í dalnum. (Sennilega ekki, en hvað veit maður.) Nú er ég nokkurnveginn búinn að loka þessu máli fyrir sjálfan mig en mér líður ennþá dálítið illa yfir því sem ég gerði. En áður en ég fatta það almennilega að þarna sé sami maðurinn á ferð, þá fer hundurinn að gelta á mig. Maðurinn togar hann nær sér og lætur frekar ræfilslega en hundurinn heldur áfram. Við mætumst og ég er allt í einu kominn á sama stað og í dalnum, skil hreinlega ekki hvað þessi maður er að gera með þennan hund. Ég horfi ekki framan í hann, greikka sporið og set upp einhverskonar vandlætingarsvip.

Sem er það aumingjalegasta, mesta heigulshæli sem maður getur sveipað um sig, að stilla upp einhverri vanþóknun án þess að horfa á viðkomandi eða segja orð. En þetta geri ég. Ég er svo ekki kominn lengra en að næstu gatnamótum þegar ég fatta hvað ég er að gera, og hvernig ég er að endurtaka sjálfan mig síðan úr dalnum. Hversu mikið þarf ég að leggja á mig til að brosa og bjóða góða kvöldið, svo að manninum líði ekki illa útí á gangstétt með hundinn sinn? -- sem hann kann kannske ekki að siða en hefur þrátt fyrir allt stjórn á. Það er ekki eins og ég sé hræddur við þennan hund, eða hunda almennt. Ég er allt í einu orðinn fastur í þessari ákveðnu viðbragðsstöðu gagnvart öllum þeim sem veita hundunum sínum of mikið frelsi, og ég gleymi því að ég get líka slappað af og hagað mér eins og maður. Það er að segja: í vandlætingu minni gagnvart þeim sem mér finnst sýna grönnum sínum vanvirðingu, sýni ég þessum tiltekna manni síst minni vanvirðingu.

Þetta viðbragð er náttúrulega komið af því að þorri þeirra, sem kunna ekki að fara með hunda, er skítsama hvaða áhrif lausagangur og botnlaust gelt hafa á fólkið í kring. En ég þekki líka þær týpur og ég sé að það er ekki tilfellið hér. Og það sem meira er, ég sé það og ber kennsl á það á meðan ég læt eins og fífl. Þarna er kominn maður sem þykir vænt um hundinn sinn og gerir sér grein fyrir því að þegar hann geltir á fólk þá geti það verið óþægilegt, svo hann reynir að sýna að hann hafi stjórn á honum. Ekki ætlast ég til þess að hann hætti að ganga með hundinn sinn í Breiðholtinu? Nei, ég æpi bara og sný upp á nefið. Og nú líður mér eins og hálfvita. Mátulega.

-b.

Engin ummæli: