Ljóðaslammið var haldið á föstudaginn, ég tók allt saman upp. Í gær setti ég upptökurnar af fyrstu þremur sætunum á vefinn. Það er ekkert ofboðslega langur tími sem líður þarna á milli, ekki miðað við fyrri ár.
Nú skrifaði ég reiðinnar býsn um vandamálin sem hafa skapast í kringum þetta síðustu ár, en sennilega kemur það ekki umheiminum við, svo ég stroka það aftur út. Sorrí, umheimur.
Almennt séð þá höfum við reynt ýmsar leiðir í þessu hingað til og það hefur aldrei gengið alveg nógu vel. Nú er þetta í fyrsta sinn gert algerlega innanhúss. Við eigum vélina, ég sé sjálfur um upptöku, vinnslu og dreifingu. Hljóðið er tekið beint inn á vélina. Og við erum bara með eina vél, sem þýðir að vinnslan kallar ekki á neinar klippingar fram og til baka. Reyndar er framsetningin ósköp mínímalísk, í flestum tilfellum er fókusinn á keppandanum eða keppendunum allan tímann, órofið. Mér líst vel á það, það er ákveðinn veruleiki í því sem endurspeglar upplifunina af keppninni sjálfri.
Við Canon og ffmpeg ráðum við það.
Hinsvegar er dálítið leitt að við getum ekki hýst upptökurnar sjálf, heldur vörpum þeim út í heim svo fólk hér geti sótt þær þangað. Það væri náttúrulega ekkert mál að hlaða þessu upp á vefþjóna borgarinnar -- og ég kem sjálfsagt til með að dreifa þessu til keppendanna með því móti -- en til þess að geta fellt afspilunina inn í vefina svipað og hægt er að gera með YouTube (eða Vimeo, en það er ástæða fyrir því afhverju við notum það ekki frekar) þá þarf að vera gert ráð fyrir því, það þarf að vera einhver fídus til þess að birta upptökurnar. Je minn eini þetta er hundleiðinlegt, af hverju í ósköpunum er ég að röfla um þetta.
Hugsandi upphátt. Á skjá.
Eníhú. Þetta er eitthvað sem kemur til með að verða fyrirferðameira hérna hugsa ég, og eitthvað sem ég þarf að læra betur.
Heyrirðu það, ég?
-b.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli