20 febrúar 2012

Og svo eru pítsur

Hérna er uppskrift að pítsusósu sem ég rakst á um daginn.

1 dós af niðursoðnum tómötum
2 msk tómatpúrra
1-2 hvítlauksgeirar, pressaðir
2 tsk timian, þurrkað
2 tsk oregano, þurrkað
2 tsk basil, þurrkað
1 tsk salt
1/2 tsk pipar

Tómatarnir maukaðir í blandara eða þvíumlíkt, restin hrærð samanvið.

Ég prófaði þetta núna áðan og hún var nokkuð góð. Ekkert eitthvað svakalegt en samt eitthvað sem mig langar að halda áfram að gera. Hingað til hef ég keypt tilbúnar niðursoðnar pastasósur (pítsusósurnar sem eru seldar sem slíkar eru verri en ekkert), en þær sem mér finnst skástar eru seldar í það stórum pakkningum að ég á alltaf nóg á þrjár pítsur. Frysti þá rest í tveimur boxum. Sem er fínt. En með þessari uppskrift er ég bara með nóg á tvær pítsur, þá þarf ég að frysta minna. Heimilisráð!

Pítsugerðin hefur breyst talsvert hjá mér nýverið. Ég fékk pítsustein í afmælisgjöf og fór að fikta við hann. Þá varð algert möst að nota durum-hveiti með, því venjulega hveitið sauð bara í mauk á milli botnsins og steinsins. Með steininum varð eiginlega stökkbreyting í pítsunni, hún er heeelvíti góð.

Versta tilraun sem ég hef gert í seinni tíð var með gerlaust pítsudeig, sem innihélt bjór í stað vatns. Það var ógeðslegt og ég henti henni.

Það er til endalaust af greinum á netinu um það að búa til hina fullkomnu pítsu. Megnið af þessu liði notast við sama deig og ég, eða nánast það sama. Aðalatriðið virðist vera hitastigið, að geta haldið miklum og jöfnum hita á pítsunni, hvort sem maður er með þartilgerðan ofn, hitar á steini eða jafnvel forhitaðri pönnu. Þannig að steinninn er mikill plús.

Ég er að drekka vatn.

Og lesa í bók.

Í dag var frí.

-b.

Engin ummæli: