18 febrúar 2012

Bjóreiðar

Sumarið 2007, síðsumarið 2007, var 'sumar pilsners og hjólreiða'. Þá bjó ég í íbúð sem Helgi tvíburi var enn með á leigu en ekki að nota, á Stúdentagörðum, ég vann á Ægisíðunni og frístundunum eyddi ég í miðbænum. Ég hjólaði allt sem ég fór. Fyrst á 'Græna demantinum', litlu grænu hjóli af Diamond-gerð (ég man ekki vörumerkið) sem maður að nafni Hjalti hafði gefið mér; og síðan á Mongoose Threshold hjólinu sem ég fékk gefins á Ægisíðunni. (Demanturinn var að detta í sundur og var auk þess heldur lítill fyrir mig, ég skildi hann eftir í hjólageymslunni á Stóra garði að lokum. Þröskuldinn nota ég ennþá.)

Ég hafði eitthvað hjólað áður en ég fór út til Kaupmannahafnar en það var ekki mikið. Mér fannst því að þetta sumar væri ég að enduruppgötva hjólreiðarnar sem samgöngumáta.

Vaktirnar á Ægisíðunni voru fáránlegar. Ég var að vinna tvær af hverjum þremur helgum. Það kom því fyrir oftar en einu sinni að ég komst á snoðir um einhvern gleðskap á meðan ég var á kvöldvakt á föstudegi eða laugardegi, og langaði að kíkja en hafði ekki tök á að fara í ríkið. Þá lét ég mér nægja að taka með mér nokkra léttbjóra úr sjoppunni, eitthvað svipað því kannske og að naga blýant í stað þess að kveikja í sígarettu.. En mér fór að þykja pilsnerinn góður. Eða hann hætti a.m.k. að vera hlægilegur í mínum huga. Kannske ekki síst vegna þess að ég var þá hættur að drekka gos, en ég man reyndar ekki hversu nýskeð það var.

Þannig að eitthvert skiptið renndi ég niður á Austurvöll að hitta Inga Björn eða Frikka eða Davíð, með þrjá ískalda pilsnera í poka eftir morgunvakt, og ég áttaði mig á því (sem hljómar betur en að ég hafi ákveðið að mér þætti það sniðugt) að þetta væri sumar pilsners og hjólreiða.

Pilsner á Austurvelli, í partíi á Bergþórugötu, á ljóðahátíð Nýhils eða bara uppí dívan.

Tæpum fimm árum seinna snýst ennþá heilmikið um bjór og hjólreiðar. Í gær (ég byrjaði að skrifa þetta á laugardag) sótti ég hjólið mitt úr viðgerð og betrumbótum. Nýjar bremsur (v-bremsur, sem ég hef ekki notað áður), nýir bremsuarmar, nýir vírar í allt; hnakkurinn lagaður og festingin fyrir luktina; og nýr og stöndugur bögglaberi festur oná allt saman. Það stóð til að kaupa tösku til að festa á þennan bögglabera en það verður að bíða betri tíma - bíllinn var líka að koma úr viðgerð og LÍN ber á dyrnar. En jeminn hvað það er gott að hjóla á svona nýyfirförnu. Svo er ég á leiðinni niður Breiðholtsbrekkuna núna í hádeginu þegar festingin fyrir afturbrettið, plaststykki sem skrúfast í boddíið, smellur í sundur. Armarnir slást utaní pílárana og tómt vesen. Ég þurfti að beygja þá alveg út á hlið og hjóla restina með brettið utaní afturdekkinu.

Þannig að það þarf að laga það. Sennilega þarf að skipta um tannhjól að framanverðu líka, keðjan helst varla á því.. ég var að vona að það hefði bara verið slakinn í vírnum, en svo virðist ekki vera. En þegar það er búið! Þá! Þá verður nú gaman.

Og á föstudag setti ég hafra porter á flösku. 20 lítrar. Þar með hef ég farið í gegnum ferlið þrisvar sinnum, maður má fara að kalla sig byrjanda. Ég kann þetta orðið nógu vel til að búa til tékklista til að fara eftir, sem er ekki ónýtt. Hann smakkaðist alveg ágætlega, greinilega dökkur og sætur, ekki of sterkur. FG alveg 1,018 samt, það hefði alveg mátt fara aðeins neðar. Bíðum í nokkrar vikur og sjáum til.

Annars á ég pilsner inní ísskáp.

-b.

Engin ummæli: