10 febrúar 2012

Þetta kemur allt, föstudagur

Jæja þar fór sú hugmynd. Eða nei, hugmyndin er ennþá á lífi, en eftirfylgnina vantaði. Hei það var mikið að gera í gær. Bætir það eitthvað fyrir að ég hafði aldrei orðað hugmyndina sérstaklega? Má ég segja að loforð sem aldrei er nefnt sé ekki hægt að svíkja?

Æ hverjum er ekki sama um loforð. Á netinu í það minnsta. Frá fólki sem maður þekkir ekki. Fyrir langa langa löngu síðan?

Núna er semsagt allt að nálgast suðupunkt hérna í vinnunni. Keppnin er að fara af stað eftir rúma tvo tíma, prufurnar eftir tæpan klukkutíma. Það er ekki svo ýkja margt sem þarf að gerast áður en þær hefjast. Ég held að við séum nokkuð seif.

Eins og Páll Óskar.

Talandi um tónlist. Núna heyri ég sömu línurnar úr Pixies laginu þarna aftur og aftur. I can see this lady, it is shady, I am leaving tomorrow tomorrow tomorrow. Þetta hlýtur að vera Surfer Rosa? Ég hef ekki heyrt þessa plötu í háa herrans tíð. Hvar varst þú úti að svalla í nótt, undirmeðvitund?

Annars leiðist mér Surfer Rosa. Maður þarf allavega að vera mjög akkúrat stemmdur til að hafa gaman af henni. (Stemning / stemndur? Það gengur ekki?) Neibb, ég fíla Doolittle best. Ég man eftir einhverju viðtali við Kidda (?) í Hljómalind eða Kanínunni eða hvað þetta hét alltsaman, þar sem hann var að rifja upp þegar hann heyrði Smells Like Teen Spirit. Til þess að setja söguna í samhengi talaði hann aðeins um það hvernig liðið á Tunglinu (?) var geðveikt að fíla Pixies en svo hafði Doolittle komið út og þá fíluðu þá allir, og þá var það ekkert gaman lengur.

Hipsterar.

Ég held hann hafi verið að tala um Tunglið. Var það ekki eini skemmtistaðurinn á jarðríki fyrir fimmtán árum síðan? Einhverntíman sat ég slasaður á heilsugæslustöð á Hvolsvelli og las í endemis gömlu Mannlífsblaði grein um Tunglið og 'íbúa' þess. Þetta hefði allt eins getað verið fyrir þrjátíu árum síðan, mín vegna. Ég minntist á þetta við kærustuna þegar ég kom til Reykjavíkur daginn eftir, þá hafði hún farið á Tunglið í denn. Fljótt að gerast. Og stelpur, þær eru svo bráðþroska!

!

Svo brann það eða eitthvað. Sennilega var það fínt, allir hættir að fíla Pixies. Tími til kominn að einkavæða allskonar.

-b.

Engin ummæli: