Davíð stingur uppá breyttri ritstjórnarstefnu hér á liðhlaupi, að í stað poppkúltúrs, fimmaurabrandara og sólipsískrar þvælu þá einbeiti ég mér að því að skrifa um veikindi. Mín eigin veikindi, þ.e.a.s. Þar meðtelur væntanlega einkenni, lyfjagjöf, læknaheimsóknir, apóteks-safarí, og almennt raus um greyið sjálfan mig. Æ æ hvaða mat get ég ekki borðað þessa dagana, ó nei mér kom ekki dúr á auga í nótt, eða þegar mér tókst að sofna þá dreymdi mig blóðsúthellingar, napalmsprengjur og Harmageddón.
Á vissan hátt er það ennþá sólipsísk þvæla, en gefum fólkinu það sem það vill. Myndu sumir segja.
Nú bregður svo við að mér finnst ég vera að skána. Í morgun gat ég hreyft augun til beggja hliða með nokkrum óþægindum, ekki stingandi sársauka. Ég tókst næstum á loft af gleði. Hitinn virðist lækka hægt og rólega (en er þó talsvert meiri seinnipart dags heldur en á morgnana. Og læknirinn minn hringdi núna áðan með frekari niðustöður.
Ég fór semsagt í vinnuna á mánudaginn og var rekinn heim aftur á innan við hálftíma. Farðu og leggðu þig og síðan aftur til læknis. Ég gerði það daginn eftir. Læknirinn virtist ekki fatta hvað var að mér, en giskaði á veirusýkingu, fyrst pensilínið hafði ekki meikað að draga úr hitanum. Tók blóðprufu. Í gær hringdi hún (læknirinn) og sagði mér að niðurstöður blóðprufunnar væru lítils virði, ekkert óvenjulegt. Hinsvegar fengi hún að ráða í ,,blóðmyndirnar" (held ég að hún hafi kallað það) síðar, og myndi hringja í mig daginn eftir (í dag). Sem hún og gerði.
Þá sýna þessar blóðmyndir hvernig blóðkornin.. líta út? Eitthvað svoleiðis. Og í mínu tilfelli er víst augljóst að um er að ræða veirusýkingu. Hún veit ekki hvaða veira það er, e.t.v. komumst við aldrei að því. Og það virðist ekki skipta öllu máli, ég á bara að liggja kyrr og drekka vatn. Áfram. Endalaust.
Ég leyfi mér varkára bjartsýni, þar sem dagurinn byrjar ágætlega. Hinsvegar þarf ég að fara í búð í dag, og ég hlakka ekki til þess. Einsog ég hef verið orkulítill undanfarið þá eru búðarferðir einsog fimmtánhundruð metra spretthlaup í gufuklefa.
Takk fyrir batnaðaróskir þeirra sem lesa og þeirra sem ekki lesa, ef það er eitthvað sem virkar einsog skyldi í alheiminum þá verður þessi næsta helgi lokahnykkurinn. Vegna þess að svona að öllu gamni slepptu þá langar mig alls ekki að skipta yfir í veikindaannál, sama hversu mikil bölvaður almúginn fílar það.
-b.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli