Núna rétt áðan hringdi kona hingað í vinnuna til mín og vildi fá að vita hvaða plagg þetta væri sem Kristján níundi heldur á þarna fyrir framan Stjórnarráðið. Ég gúglaði þetta snöggvast og sagði henni að plaggið ætti að tákna stjórnarskrána frá 1874, síðasti kóngurinn yfir Íslandi væri þarna að rétta fráfarandi þegnum sínum pappírana.
Þá komu náttúrulega fleiri spurningar: Var Hannes Hafsteinn fyrsti ráðherrann, skrifuðu Danir þessa stjórnarskrá, var Kristján örugglega síðasti konungurinn.. og hún síendurtók að hún væri fæddur og uppalinn Íslendingur og henni finndist svo skammarlegt að vita þetta ekki -- var þetta sneið til mín, þarsem ég er sjálfur Íslendingur og ég veit þetta ekki heldur? Kannske var það ekki meiningin.
En er þetta ekki til í einhverjum bókum þarna hjá ykkur, heldurðu að þú gætir ekki skoðað þetta fyrir mig?
Þetta er ekki alltaf að gerast, en endrum og eins. Fólk vill í alvörunni bíða í símanum á meðan ég leita að heimildum, les mér til um efnið og sit síðan fyrir svörum. Ég hef nú aldrei sagt fólki beint út að það geti komið hingað niður á safnið og ég geti þá bent því í áttina að sagnfræðibókunum, ég gef samband áfram og læt þau í fræðadeildinni um það. En mér þykir þetta merkileg beiðni. Er þetta tilætlunarsemi eða heldur sumt fólk í einlægni að bókasafnið virki svona?
Og maður heyrir draugasögur. Ein sagði frá því þegar háskólanemi -- önnum kafin kona á fertugsaldri -- kom á safnið í leit að heimildum. Hún sagðist vera að fara að skrifa ritgerð um þetta og þetta, spurði hvort bókavörðurinn gæti ekki fundið þetta til fyrir sig, hún gæti svo komið og sótt heimildirnar eftir tvo þrjá tíma?
Bókasafnið sem bifreiðaverkstæði eða barnaheimili.
Fyrir stuttu síðan las ég pælingu um það að ef strætó væri ókeypis þá myndu farþegarnir missa kvörtunarréttinn. Fyrst þeir væru ekki að borga fyrir ferðina þá hefðu þeir ekkert með að klaga vagnstjóra eða kalla eftir breytingum á leiðarkerfi eða slíkt. Sem er náttúrulega fráleitt: ef strætisvagnarnir væru reknir á kostnað ríkisins þá værum við öll að borga fyrir ferðirnar, og værum skyldug til að láta í okkur heyra ef skattfénu væri illa varið. Hvernig svo sem ríkinu áskotnast peningarnir til að byrja með.
Ég skil samt hvaðan þetta viðhorf kemur, og má e.t.v. súmma það upp með þessari endalaust röngu og margþvældu tuggu ,,viðskiptavinurinn hefur alltaf rétt fyrir sér." Þetta hefur þau áhrif að lygilega margt fólk telur sig eiga þig með húð og hári um leið og það hefur rétt þér debetkortið sitt. Þegar ég vann á bensínstöðinni horfði ég uppá það að fólki var skipað að biðja slefandi dóna og hálfvita afsökunar, þegar það neitaði að veita þjónustu sem hefði brotið gegn reglum fyrirtækisins, vegna þess að þjónustudeildin þorði ekki að styggja núverandi og tilvonandi viðskiptavini.
Finnst mér sagan um heimildaleitina meira sjokkerandi vegna þess að safngesturinn rétti ekki fram debetkortið um leið og hún sagðist skyldi koma aftur eftir hádegi? Hefði bónin verið á einhvern hátt réttmætari? Sagan er náttúrulega draugasaga vegna þess að hún er undantekningin frá reglunni, ég held að flestir geri sér grein fyrir því hvaða þjónustu bókasafnið veitir, og að þeir hafi rétt til að kvarta ef þeim finnst illa farið með sig. Kannske þykir viðkvæmum sálum erfiðara að ganga aftur í barndóm með grenji og heimtufrekju ef þær þurfa ekki að borga fyrir viðvikið á staðnum.
Og ganga jafnvel svo langt að leggjast gegn aukinni og ódýrari almenningsþjónustu vegna þess að það gæti þurft að haga sér einsog fullorðið fólk.
En liðið sem hringir inn og vill láta lesa í sig sögu Íslands frá heimastjórn til fullveldis.. Það er náttúrulega bara kreisí.
-b.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli