Einn helvíti góður Battlestar þáttur núna síðast. Það er greinilegt að þeir geta sent frá sér góða stand-alone þætti, sögur sem snerta samasem ekkert á stærri framvindunni (leit að Jörð, stríð við vélmenni o.s.frv.). Það bara mistekst oftar en ella. En það hafðist núna síðast.
Ron Moore fær reyndar prik fyrir að viðurkenna það að ,,A Day in the Life" hafi verið misheppnaður, en ég er ekki viss um að hann hefði verið nokkru betri þótt hann hefði verið líkari því sem Moore hafði í huga. Mér er sléttsama um fráskilda og framliðna eiginkonu skipstjórans, og að breyta syni hans í lögfræðing á núll einni er útí hött.
Í ,,Dirty Hands" er almennileg dýnamík í gangi og innviðir flotans rannsakaðir útfrá einhverju sem skiptir höfuðmáli, en hefur varla verið snert á hingað til, nefnilega eldsneytinu. En það leiðir útí umræðu um stéttaskiptingu, verkalýðsbaráttu og syndir feðranna. Að láta Baltar skrifa sína Mein Kampf (My Triumphs and My Mistakes ef ég man rétt) í fangelsinu er sniðug hugmynd, og senan á milli þeirra Tyrols er hreint frábær. Þarna sést líka hversu auðveldlega er hægt að snúa viðteknum hugmyndum um valdhafana á haus og sjá þá sem andstæðinga, en það fellur hinsvegar í sundur alveg í blálokin, þarsem Roslyn dettur aftur í hlutverk Mömmunar. En það er smá feill á annars góðum þætti.
Og merkilegast þykir mér að þarna er sami handritshöfundur á ferð og skrifaði ,,The Passage", sem er ekki sjónvarp heldur sjóðandi haugur af mykju og hor.
Enginn Rome núna síðast, en ég var væntanlega búinn að minnast á það hversu roosalegur ,,Philippi" er. Þeir kunna sko sitt stríð.
Og eftir að hafa náð í tvo þætti í viðbót af 30 Rock gaf ég undan og sótti alltsaman. Fyrsti þátturinn er misheppnaður, en þeir batna umtalsvert þegar á líður. Snertur af Arrested Development hér og þar (þótt 30 Rock nái aldrei nálægt sömu hæðum), og annars bara snöggur húmor. Sem er gott dót.
Svo er ég að sækja I, Claudius. Man lauslega eftir þessu á RÚV í dentíð og langar að sjá hvort það standi undir hæpinu.
Kláraði 3. seríu af 24, sem mér fannst sú besta hingað til. Þeir eru ekki alveg að selja heríónfíknina, en bæta fyrir það með meiri fantaskap. Aftakan var virkilega sterkur punktur.. er það að verða þema að yfirmenn Jacks fórni sér fyrir Málstaðinn? Síðasta mínútan eða svo sýndi líka að það fer enginn heill útúr svona brjálæði - jafnvel þótt kallinn sé mættur á staðinn aftur í 4. þáttaröð. Menn verða jú að eiga salt í grautinn og svona.
-b.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli