Það var tvöfalt lengri bið eftir metrónum um morguninn en venjulega, og ljósaskiltin sögðu að lyftur væru bilaðar á Nörreport og Bella Center. Þessi grafa ýtti þessum trukk upp brekkuna hjá stöðinni, en ég veit ekki hvort það kom veðrinu neitt við.
Mér var boðið í mat með þessum loðdýrahóp á Hereford steikhúsinu við Tívolíið og það var helvíti fínt. Það er sama vitleysan í gangi þarna og heima, maður skal panta sósu og/eða salat sérstaklega, en ef þú færð þér bara ,,steik" er það steik og bökuð kartafla og punktur. Þetta tvennt var hinsvegar mjög gott útaf fyrir sig, svo það var ekki beint ónýtt. Þegar ég fór á klósettið var grey maðurinn ekki með neinar hendur.
Seinna rölti ég á Hovedbane og ætlaði að ná fyrstu lest til Nörreport og þaðan með metrónum heim. Beið í tuttugu og fimm mínútur í svona djúpum snjó
og ákvað þá að taka skjátextann á orðinu, en þar stóð að maður skyldi ekki treysta á S-lestirnar til að koma manni á leiðarenda, það væri ekki víst að þær kæmust yfirleitt inná stöðina það sem eftir lifði nætur. Eitthvað með snjóinn sem gerði það illmögulegt að svissa á sporum..
Svo ég fór upp og út og sá þar strætó sem á stóð ,,Islands Brygge." Glæsilegt, á Íslandsbryggjustöðinni gæti ég tekið metróinn áfram heim. En endastöð hjá þessum vagni var í botnlanga sem ég kannaðist ekki við. Ég sá það um leið og ég var kominn út. Ég hringdi í Ými, sem sagði að ég gæti labbað yfir garðinn þarna rétt hjá til að komast á metróstöð, en mér skildist að það væri svolítill gangur. Sem betur fer kom annar strætó og stoppaði rétt hjá. Ég danskaði því einhvernvegin útúr mér að ég væri villtur og þyrfti að komast á metróstöð, að því gefnu að metróinn væri yfirleitt í göngu þá stundina. Jú, hann sagðist halda það, og hann myndi stoppa á Íslandsbryggjustöðinni. Þar náði ég lest sirka korteri fyrir lokun.
Þannig að það reddaðist, sem betur fer. Ég hugsa ég muni það næst að lesa betur utaná strætóa sem ég stíg uppí.. Og vera helst ekkert að þvælast útí svona danskt ofsaveður.
Heyrðu svo splæsti hún mamma í skó handa mér á Fiskitorfunni. Æði.
-b.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli