06 febrúar 2007

Allir lestarteinar færir

Ég vaknaði snemma í dag og fór niðrá Nörreport til að kaupa mér almenningssamgöngupassa. Það er hreint einstök tilfinning að geta bara gengið inn og úr lestunum alltíeinu, eftir að hafa staðið í klippikortastimpli endalaust. Frelsið, herra minn, er einsog hressandi myndlíking eftir langa göngu um heiðarnar.

Og svo fór ég í tíma. Bókmenntir eftir (og um) ellefta september tvöþúsundogeitt. Það var rosa mikið af fólki í stofunni. Ég held ég hafi verið sá síðasti til að komast á blað hjá karlinum, og fólk farið að raða sér á biðlista. Ég taldi fyrst fjórtán stelpur á móti þremur strákum, að mér meðtöldum, en svo gengu inn fjórir gaurar og settust allir í kringum mig, einhvernvegin. Tveir við hvora hlið og tveir á borðin fyrir framan mig. Og þeir voru allir með kaffibolla, allir sem einn.

Mér dreplangaði alltí einu í kaffi. Ég sendi sponsornum mínum skilaboð, en áður en ég gat gert nokkuð til að svala þessum langsvæfa þorsta byrjaði tíminn, veröld sé lof. Og svo gekk meira og meira fólk inn.

Ég átti einusinni svona kaffibolla einsog hérna sést á mynd. Minn var gulur á litinn. Ég fattaði, eftir að hafa notað hann í talsverðan tíma, að hann var ekki bara stærri en aðrir kaffibollar, heldur hélt hann líka mun meira kaffi en þessir hefðbundnu. Ég var semsagt farinn að drekka hálfan líter af kaffi eða svo án þess að taka eftir því. Svona í morgunsárið. Hrikalegt. En djöfull var það ljúft samt.. Gúd tæms.

Ég veit ekki hvernig mér leist á þennan tíma, en bækurnar gætu verið athyglisverðar. Ég keypti þá fyrstu og byrjaði á henni, en það er Mao II eftir Don DeLillo. Hörkugóður prósi. Verst að fyrir utan hana eru þetta tiltölulega nýjar bækur, og þessvegna dýrari en ella. Terrorist, eftir John Updike, er á tæpar tvöhundruð krónur. Ég var búinn að skammta mér sjöhundruðkall á viku til að hafa það út mánuðinn svo vel væri, en svo eyði ég þessari viku á öðrum degi í strætó og fagurbókmenntir.

Þrjár bíómyndir: Horfði á Stalker í gær. Ég var svona að detta inn og út fyrsta klukkutímann, en hún greip mig þegar lengra dró. Æðislegar tökur oft á stundum, og plássið sem þeir fara í gegnum er einstaklega skemmtilegt. Vel hannað. Ég skildi ekki hversvegna konan fór alltíeinu að tala við myndavélina, eða hversvegna dóttirin sýndi alltíeinu ofurmannlega krafta, en mér fannst það svalt. Það var einsog til að pota aðeins í mann þarna í blálokin, að þetta væri ekki eins einfalt og Skrifarinn og Prófessorinn vildu af láta.

Áðan sá ég Great Expectations. Ég veit ekki alveg afhverju, hún bara var þarna. Nokkuð gaman af henni, en það vantaði allan fókus. Um hvað er þessi saga eiginlega?

Eftir það horfði ég á The Queen, sem kom mér talsvert á óvart. Mér fannst skrýtið að hugsa til þess að þarna er verið að skálda heilu samtölin á milli fólks, sem er enn við völd, til að segja sögu af atburðum sem eru tiltölulega nýliðnir.. en það virkar. Drottningin og Blair eru bæði mjög góð, og myndin er helvíti fyndin á köflum.. Bretarnir eiga þó alltaf kóngafjölskylduna til að gera grín að. Þeir kreista slatta af húmor útúr Karli einum saman, sem er sýndur sem óttaleg rola - þó þar sé kannske ekki verið að ráðast á bekkinn þarsem hann er hæstur.

Ég hafði alveg þrælgaman af henni. Spurning hvort maður reyni að sjá allar Óskarsverðlaunatilnefndu myndirnar áður en það batterí rennur í gang.. En ég er bara ekkert svo spenntur fyrir Iwo Jima. Akkúrat núna er Half Nelson næst á lista..

Í öðrum áhorfsfréttum halda konur og börn áfram að gera heimskulega hluti í Los Angeles borg í 24, og Jack Bauer kennir sér vissulega um alltsaman. Annar hver karakter fer í taugarnar á mér, virðist vera, og herra Sutherland slær nokkrar feilnótur, þótt hann sé vissulega skástur af þeim. Hann fær þó allavega svona augnablik endrum og eins þarsem maður er ekki alveg viss hvar maður hefur hann. Það að drepa vitni í yfirheyrslu og skera síðan af því höfuðið til að stíga í vænginn við hóp af glæpamönnum er ansi kalt. En það er í lagi því gaurinn var jú barnanauðgari og -morðingi, eitthvað svoleiðis.

Bauer er líka með BA gráðu í enskum bókmenntum frá UCLA. Hann fær nú nokkur prik fyrir það, jafnvel þótt ég hafi ennþá ekki heyrt hann vitna í Chaucer.

-b.

Engin ummæli: