Það er sannkölluð gósentíð í gangi hvað varðar bíómyndir. Óskarinn á næsta leiti og þá er búið að senda screener-DVD diska útúm allar trissur, sem rata nær óumflýjanlega á netið. Piratebay-gaukarnir hafa komið upp spes síðu til að vísa fólki á kvikmyndir sem tilnefndar eru til verðlaunanna, Oscartorrents.com. Þarna getur maður flett upp myndum eftir verðlaunaflokkum, sem er voða þægilegt.
Tvær myndir í gær annars. Fyrst Perfume: The Story of a Murderer. Ég las bókina þegar ég var í FSu, og mér sýndist henni vera nokkuð vel skilað á tjaldið. Slatta sleppt, svona einsog vera ber, en því sem er haldið svínvirkar.. spurning reyndar hvort maður fíli hana betur hafi maður lesið bókina, bara þessi tilfinning að sjá ímyndirnar raungerðar. Fjöldasenan undir lokin er tildæmis brilljant, ég veit ekki hvort eða hvernig maður hefði getað uppfært hana öðruvísi.
Og síðan The Last King of Scotland, sem var öðruvísi en ég hélt og mun ógnvænlegri en mér hefði dottið í hug. Kannske vegna þess að ég vissi sama sem ekkert um Amin áður. Myndin rennir sér niður brekkuna sífellt hraðar, frá því að læknaneminn flýgur til Uganda fyrir hendingu og plokkar þyrninn úr loppu ljónsins á veginum, þangað til villidýrið gerir sig loks líklegt til að éta hann. Whitaker er svakalegur. Hann sveiflast jú á milli þess að vera dansandi flón og snaróður morðingi, en skuggalegastur finnst mér hann þarsem hann situr í myrkrinu og horfir á Deep Throat. Hann spyr lækninn hvort það megi vera að kona hafi sníp neðan í hálsinum, og manni finnst hann gæti verið að hugsa um að skera nokkrar upp og gá að því.
Án þess að fara útí vangaveltur um sagnfræðilegar staðreyndir og villur, sem mér finnst ekki koma málinu við, endilega.
Báðar þessar myndir fjalla um morðingja, og báðar gera þá symptatíska, upp að vissu marki. Ég hef ekkert meira um það, ég bara var að fatta þetta núna.
Á mánudögum er annars sjónvarpsuppskera. Enginn SuperBowl í gær svo það ætti að vera nóg á línunni. Sótti The Good Shephard í nótt og held áfram með Mao II. Nóg að gera fyrir mann sem hefur ekkert annað að gera.
Og í mars fer ég á Arcade Fire tónleika á einhverjum tónleikastað þarsem Radiohead spiluðu á síðasta ári. Ýmir reddaði miða handa mér í morgun, og fær auðvitað bestu þakkir fyrir. Svo er ég búinn að vera að hlusta á Desperate Youth, Blood Thirsty Babes með TV on the Radio, I Am the Fun Blame Monster með Menomena og Hissing Fauna, Are You the Destroyer? með Of Montreal. Last.fm og myspace finna manni stundum góða tóna.
-b.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli