21 september 2007

Sögur af Guðmundi kíki

Ég sótti bókina Setið við sagnabrunn niður í Borgarbókasafn um daginn. Ég hafði hugsað mér að skrifa hérna upp nokkrar af þessum sögum sem okkur fannst svo frábærar hérna í þynnkunni í den. Við Sölvi og Hallur lágum í krampa einhvern laugardags- eða sunnudagsmorguninn með þessa bók í höndunum, að lesa sögurnar af Guðmundi kíki. Bestar eru nú Komið í fjós (en sá titill er á frekar gráu svæði við annan lestur), Blótneytið og Sláttumorgunn. Það eru nokkrar þarna sem ég skrifaði ekki upp, en kannske maður geri það síðar. Mér fannst þær bara ekki eins góðar.

Orðsmíðin er rosaleg og karakterinn sem kemur þarna fram á engan sinn líka. Hann er bara að segja sögur af því þegar hann var að vinna (á við nokkra menn og/eða eldsnemma að morgni) og eitthvað gerðist svo hann nennti ekki að vinna lengur. En sögurnar eru góðar fyrir því. Það er einhver spes týpa sem sér vinnumanninn dröslast niðrá völl við sólarupprás og hreytir þá úr sér að þarna fari kaupasnápurinn með sláttuþvöruna reidda um öxl.

En ókei. Gó Gvendur.

...

Guðmundur Kíkir

Guðmundur Guðmundsson frá Nýjabæ í Meðallandi (1840 - 1928) hefur af sumum verið nefndur síðasti flakkarinn og þó naumast með réttu. Fælestir þekktu hann undir nafninu Gvendur kíkir. Víða kom hann við á langri ævi og flestir Sunnlendingar kunnu á honum meiri eða minni skil á löngu tímabili. Ferðir hans voru tímavissar. Tvær voru aðalferðir hans á hverju ári. Með vordögum reið hann sunnan frá Faxaflóa austur til átthaga sinna og átti dvalir á vissum bæjum. Lengst var farið austur í Fljótshverfi. Þar átti hann bestheimili inni á Seljalandi hjá Þórarni Þórarinssyni og gekk þar að heyskap að eigin vild í vinakynnum. Að hausti hélt hann til baka og fór hægt yfir. Reiðhross hans var löngum folaldsmeri og hnýtti hann folaldinu aftan í hana til öryggis. ,,Það er úr henni," sagði Gvendur er um var rætt. Hann var stærilátur og reyndist ýmsum erfitt að gera honum til hæfis. Orð var gert af góðri frásagnargáfu Guðmundar og segja mátti að hann kynni margar fornar sögur utanbókar. Páll Þorgilsson frá Svínafelli í Öræfum þekkti Guðmund vel og kunni margt frá honum að segja. Rödd hans náði hann svo vel að blekkt gat ókunnuga. Hann hafði yfir við mig kvæðalag hans og færðist um leið í annan ham svo að Guðmundur virtist þar kominn með lífi og sál. Ein vísa öðrum fremur var Guðmundi oft tiltæk:
Vinir horfnir virðast mér
völt er þeirra hylli.
Lýðir fáir leika sér
lífs og dauða milli.

Mikil festa var í öllum frásögnum Guðmundar og Páll Þorgilsson kunni margar þeirra orði til orðs. Nokkrar þeirra fara hér á eftir:

...

Komið í fjós

Einu sinni var það þar sem ég var næturgestur á bæ að ég gekk út nokkru fyrir mjaltir um kvöldið og varð reikað út í fjós. Þar hitti ég fyrir fagra konu og hóf þegar við hana samræður sem hún tók með mikilli blíðu. Eftir stundarþögn sem á varð segir hún upp úr eins manns hljóði: ,,Fallegur maður ertu, Guðmundur." Ég svara: ,,Fríður hef ég aldrei verið en gæfusvipinn hef ég borið." Í þeim töluðu orðum vafði ég hana örmum og settist með hana í auðan fjósbás. Þegar unaður okkar stóð í algleymingi kemur stelpulæða í fjósdyrnar og hleypur hrópandi út: Mamma, mamma, hann Gvendur er að fljúgast á við hana ömmu úti í fjósi. Það þarf að hj´lapa henni, hún hefur dottið." Þegar ég sá hvað verða vildi, lét ég kné fylgja kviði af miklu snarræði og sáust engin verksummerki er að var komið.

...

Á Landakotsspítala

Einu sinni kom það fyrir mig að ég var fluttur sjúkur og þjáður á Landakotsspítalann. Þegar inn kom birtust tvær engilhvítar abbadísir. Þær rétðust umsvifalaust að mér og drógu af mér hverja einustu spjör. Eftir þá afhjúpun líkama míns steypa þær mér í baðkerald mikið með logheitu vatni. Þar taka þær til að þvo allan minn auma kropp, lim fyrir lim, allt um kring af móðurlegri nákvæmni. Þar var enginn eftirskilinn. Ekki varð ég var við að meydómsandi þeirra sypi hveljur yfir nekt minni en það sló fölva á helgisvipinn þegar þær að síðustu taka föt mín upp með fýldum grönum og segja: ,,En lýsin, lýsin, lýsin, Guðmundur."

...

Blótneytið

Eitt sinn var ég úti árla morguns við slátt. Heyri ég þá ógurlegar drunur og dynki í fjarlægð. Stafar þetta af jarðeldum? hugsaði ég og litaðst um. Sé ég þá reykjarmekki mikla þyrlast í loft upp og nálgast þeir mig með ofsahraða. Fer ég þá að hafa mig til vegs og hleyp sem mest ég má og næ við illan leik hesthúskofa sem stóð þar í túninu og fer þar inn og upp í stall. Í því kemur ófreskjan og verður föst í dyrunum. Hvað haldið þið að þetta hafi verið? Það var ógurlega stór, grár uxi. Þegar hann loks hafði fjarlægt sig skreið ég út aftur. Slátt lét ég niður falla þann daginn en rímur kvað ég mér til hugarhægðar.

...

Gist á Kolviðarhóli með Einari stopp

Eitt sinn sem oftar kom ég að Kolviðarhóli síðla kvölds og baðst gistingar. Í sama mund birtist ásjóna Stopparans í gættinni og það varð að ráði að við sænguðum saman. Þó upphófst svo mikið rifrildi og ræðuhald að engum varð vært. Því linnti ekki fyrr en flysjungur austan af Bakkabæjum kvaddi sér hljós og mælti: ,,Setjið þið nú Stopparann á Kíkirinn." Allir hlógu nema Stopparinn. Hann venti sínu kvæði í kross, tók tötra sína í skyndi, kvaddi garðinn með blóti og formælingum og hefur hann ekki drepið þar á dyr síðan.

...

Sjóferðin

Eitt sinn réðst ég hjá Hákoni hinum ríka í Stafsnesi. Eins og lög gera ráð fyrir, kom ég þar daginn fyrir kyndilmessu. Til allrar óhamingju var sjóveður daginn eftir. Þá var hinn ríki árla á fótum með miklum fyrirgangi og vígamóði. Hann tekur glerharðan leðurbambara ofan úr eldhúsi, þeytir fram á gólfið og skipar hinum fílelfda jötni, Jóni Nikulássyni að norðan, að binda á mig sjóskóna. Hann kvað nei vi ðog mælti að drambhrottarnir austan úr sveitum væru ekki of góðir til að skinnklæða sig sjálfir. síðan rerum við til miða og renndum. En veistu hvað? Þá dregur óvinurinn fyrstur fisk. Hann leggur hann fram á bitann og mælti: ,,Þekkirðu þennan, Guðmundur?" Hvað heldur þú að hann hafi meint, ætli hann hafi ekki hitt á það. Hann var einsýnn eins og ég en sá er munurinn að ég er blindur borinn en þorskurinn hafði fengið áfall til sjós. Síðla dags var hankað upp, mastrað og undin upp segl. Þegar fór að hvína í rá og reiða, hrópar sá mikli Jón: ,,Staflið nú öllum ræflum í skut og barka," og þar var ég einn. Að síðustu rerum við þöglir til lands og lentum með frægð og hamingju. Í fjörunni var afla skipt með makt og veldi. En þá dró til stórra tíðinda: Sá ríki hvessir augun á mig og segir: ,,Hirtu nú hlut þinn, Guðmundur." En ég svara og segir: ,,Ekki húki ég lengur undir háði þínu, Hákon," og tek poka minn, labbaði af stað og lofaði að koma þar aldrei framar. Þar kom ég þó ári síðar og þá tók höfðinginn mér með mestu sæmdum.

...

Sláttumorgunn

Um sólarupprás í ágústmánuði var ég eitt sinn sem oftar fyrstur manna kominn á teig og renndi yfir fen og foræði og ljáhljóðið kvað við sem mjúkur þytur í lofti. Á eftir mér kom svo kaupasnápurinn með sína sláttuþvöru reidda um öxl. Hann byrjar við hliðina á mér og slær um sig með háum vindhöggum og hjakk krukki. Ég gætti mín ekki og vissi ekki fyrri til en hann skammskælir sinni ryðskófu þvert yfir minn spegilfægða eggtein. Mér varð að orði: ,,Ógæfumaður ertu að eyðileggja minn góða eggtein." Af slætti varð ekki meira hjá mér þann daginn.

...

Báruball

Einu sinni barst ég með straumnum inn á ball í Bárunni. Þar sat nikódemarinn í landsuðurshorni og þandi djöfulinn. Á eftir mér komu tvær stelpuglennur sem slógu á lær þegar inn kom og sögðu: ,,Drall drall, ball i aften." Það hitti svo sem naglann á höfuðið. Dólgarnir kepptust um að hremma bráðina og þurftu ekki lengi eftir henni að ganga.

...

-b.

Engin ummæli: