10 september 2007

Ég lifði helgina af

Og það ætti í sjálfu sér að vera nóg. Netið hrökk í gang í gær. Sævar reddaði því.

Ég drakk helling af bjór, borðaði helling af rusli, las X-Men en veit ekki hversvegna. Gaf bækur sem afmælisgjafir.

Í dag vaknaði ég eldsnemma fyrir hádegi og fékk mér staðgóðan morgunverð. Planið var að við Víðir færum austur, hann að gera við bílinn sinn og ég að kíkja til læknis, og að sækja um húsaleigubætur. En svo birtist Már í dyrunum og ég fékk bara far með honum í staðinn. Læknirinn sagði að ég væri nærsýnn, -0,5. Á báðum. Það væri víst betra fyrir mig að fá gleraugu, svona til að fara með í bíó og á rúntinn.

Svo kannske hver veit, kannske fengjum við okkur nokkra kokteila á Hressó, ég myndi bjóðast til að borga taxa heim, eitt leiddi af öðru. Það að ganga með gleraugu þyrfti ekki að vera kvöl og pína.

Ég hitti Gunnar Marel þarsem ég stóð og beið eftir rútunni aftur í bæinn. Hann ætlar að fara til Kaupmannahafnar og vill koma í veg fyrir að Pakkhúsið verði rifið. Getur hann gert bæði í einu? Fylgist með í næsta þætti?

-b.

Engin ummæli: