06 september 2007

Hvaða læti eru þetta?

Ég kíkti í tíma í íslenskum sjálfsögum hjá Jóni Karli í gær. Kúrsinn virðist mjög áhugaverður. Það vorum semsagt við tveir, ég og kennarinn, og svo tíu ellefu stelpur og konur. En hann er kenndur innan íslenskuskorar svo ég er ekki viss um að ég geti fengið hann metinn, þarsem ég hef tekið svo lítið innan bókmenntafræði proper.

En það er hinsvegar ekkert að gerast þar. Einsog Ingi hafði á orði, þá er varla hægt að skella á mann einhverjum kvóta og bjóða síðan ekki uppá neitt til að fyll'ann.
Eða, hann sagði það ekki alveg svona. Þetta var meira svona inntakið.

Ég er orðinn þreyttur á að borða ekki heima hjá mér. Fáum væntanlega ísskáp á morgun. Sævar reddaði honum. (Annað gott innskot!)

Og ég er kominn með auðkennislykil.

Og Prikið er stútfullt af MRingum og túristum. Ég veit sveimér ekki hvort er verra.

Fór og breytti aðsetri, fékk vottorð fyrir því. Fékk útprentun á skattskýrslu síðasta árs. Nú þarf ég bara að grafa upp launamiða síðustu þriggja mánaða og þá get ég sótt um styrk frá sveitarfélaginu mínu til að greiða niður 8,3% af leigunni sem við borgum.

Las House of M í gær. Þetta var víst einhver svaka crossover atburður hjá Marvel núna um árið. Það var þessi tiltekna saga og svo tengdust bókstaflega allir ofurhetjutitlarnir þeirra inní þetta, ef mér skjátlast ekki. Svona ofursögubatterí virka alltaf frekar feik og fyrir-salti-í-grautinn, en þessi saga var fín. Þannig. Enda Bendis.

Hún minnir sterklega (og meðvitað) á Crisis on Infinite Earths: Gamli heimurinn hverfur í hvítu leiftri, útvaldar hetjur kippa málunum í liðinn en þó verður heimurinn aldrei samur. Fyrren eftir nokkra mánuði.

-b.

Engin ummæli: