04 september 2007

Hark!

En þetta situr næst mér núna. Þrír spánverjar (held ég) komu að mér þarsem ég hokraði við að læsa hjólinu mínu fyrir utan Glitni á Lækjargötu. Afsakið, geturðu sagt okkur hvar við getum fengið íslenskan mat, sem er ekki of dýr? Tja. Í fyrsta lagi, og þetta sagði ég þeim, þá er enginn staður hérna niðrí miðbæ ódýr. Í öðru lagi, en ég sagði þeim þetta ekki, þá veit ég ekki hvað íslenskur matur er. Eitthvað sumarið vildu vegasjoppurekendur meina að þjóðarrétturinn væri kjötsúpa.. en kjötsúpa er aldrei kjötsúpa nema hún sé borðuð heima hjá manni.

Ég benti þeim á fiskihlaðborðið í þessa þarna átt. Þeir höfðu jú séð það, voru víst að leita að einhverju öðru. Sorrí, segi ég, ég borða sjaldan sem aldrei hérna því það kostar allt pening. Takk takk sögðu þeir og gengu leið sína.

Svo gengu þeir hérna inná Prik þegar ég var að koma mér fyrir. Pöntuðu sér steikarsamlokur, ef mér skjátlast ekki.

...

Annars er ég búinn að vera að flytja í nýja íbúð. Ég hef bæði gaman af listum og tímalínum, þannig að hérna er listatímalína fyrir ferlið.

Föstudagur:
Ég fæ að taka jeppann að láni, fylli hann af bókakössum og öðru drasli, kaupi nokkra bjóra og keyri til Reykjavíkur. Við Davíð kíkjum á Eldsmiðjuna, en hún er full af fólki. Við kíkjum á Reykjavík pizza company, og þar er líka allt fullt, en við fáum borð eftir smá stund. Borðum. Svo förum við heim til Davíðs að drekka bjór. Víðir kemur. Gunnar og Stefán koma. Við drekkum og ég er ógeðslega lélegur í Gears of War.

Eða ég er allavega handónýtur á svona fjarstýringum. Ég stend fastur á því að mér hefði gengið betur með mús og lyklaborð. Xbox foj.

Við byrjum að horfa á The Big Lebowski en ákveðum fljótt að fara í keilu í staðinn. Við drekkum bjór og keilum í Öskjuhlíðinni. Ég dett einusinni hálfur inná brautina, einusinni allur inná hana. En ber samt sigur úr býtum. Leyndarmálið, segi ég sjálfum mér: horfa á keilurnar.

Svo förum við niðrí bæ og ég týni sjálfum mér þar einhverstaðar, en man þó eftir að hafa tekið ákvörðun um að koma mér í bælið. Vaðið mannhaf útað dyrum Kaffibarsins og andað svo bæjarmyrkri niður Njarðargötuna.

Laugardagur:
Því ég þurfti að vakna snemma. Sturta og vatnsglas, hálfur subway og útá hjólið. Má ekki vera þunnur, allavega ekki svo sjái á manni. Keypti treo-stauk í Lyfju, skoðaði bækur og mætti um það bil korteri of snemma á fund uppí Rentus. Las yfir húsaleigusamninginn, beið eftir eigandanum. Hún mætti stuttu síðar með karlinum sínum, þau nýkomin frá íbúðinni og segja að fólkið þar sé enn ekki flutt út.

Þessir jólasveinar sem voru í íbúðinni, og höfðu nú verið reknir út vegna kvartana frá nágrönnum, ætluðu að skila lyklunum að íbúðinni á föstudaginn klukkan fimm. Gerðu það ekki. Ætluðu svo að skila klukkan ellefu á laugardaginn. Gerðu það ekki heldur. Eftir að við undirrituðum samningana rúllaði ég með eigandanum til að gá hvernig gengi, og við fundum þar tvær stelpur sem dunduðu við að sópa, sögðu að strákarnir hefðu farið eitthvað á sendibílnum. Nú ætluðu þau að skila lyklunum klukkan fimm.

Eitt herbergjanna var samt laust og þrifið, svo ég henti kössunum mínum þangað inn og keyrði á Selfoss. Gunnar og Stefán hjálpuðu mér við kassaburð, blessaðir.

Þynnkan hellist yfir mig þegar ég lendi á Heiðarveginum, en mig langar að klára flutninginn. Eigandinn hringir rétt að verða fimm og segist hafa lyklana en að það sé hræðilega illa þrifið. Ég segi að við séum að stóla á að geta flutt inn í dag, svo hún segist ætla að gera einsog hún getur. Gott og vel. Ég fæ Óskar bróðir til að hjálpa mér að ferma kerruna og bílinn og við keyrum til Reykjavíkur. Fleygjum þar inn rúmi og allskonar. Förum svo á garðana þarsem ég á ennþá nokkra kassa og dót (blikk). Fermum, keyrum, affermum og þarmeð er ég alfluttur. Víðir kemur með dýnu og eitthvað dót. Ég fer með Óskari á Grillhúsið og svo heim að sofa. Sævar kom með nokkra kassa.

Sunnudagur:
Ég svaf frameftir. Uu. Sótti hjólið mitt niðrí Rentus. Það var lokað í Góða hirðinum. Mágur eigandans kom til að skipta um ljósaperur á baðinu, og við sáum hversu illa var þrifið þar inni. Spilaði Baldur's Gate. Við kíktum til Davíðs í vídjó um kvöldið, ætluðum að horfa á Slacker en hún var leiðinleg svo við slökktum. Ég lét mig hverfa, fór að sofa.

Mánudagur:
Ég hjólaði niðrí Þjóðskrá en þurfti að hafa skólavottorð til að breyta um aðsetur, ef ég vildi ekki að skipta um lögheimili um leið. Víðir skutlaðist með mig til Sýslumanns og þar borgaði ég rúman tólfhundruðkall fyrir stimpil. Þinglýsing á leigusamning sem ég þarf að sækja á morgun. Svo fórum við í Rúmfatalagerinn, Góða hirðinn og Bónus. Ég keypti stofustól, bleikan náttslopp og grænt te. Ég leitaði árangurslaust að ísskáp á netinu og fór svo á fund með Víði. Sævar kom með stofustól.

Þriðjudagur:
Æ ég nenni engu. Ætla að kíkja í einn tíma í skólanum á morgun, tala við Gottskálk á mánudaginn kemur. Sækja skólavottorð, sækja þinglýstan samning, skipta um aðsetur, sækja um húsaleigubætur. Fara að vinna?

-b.

1 ummæli:

Sævar sagði...

Skemmtileg innskot sem ég á þarna. Ég verð að halda þessu áfram...