19 apríl 2007

Sunshine (ekkert skemm) og Shooter (dálítið skemm)

Við Ýmir, Kristín og annar Björn kíktum á Shinshine í gær. Mér fannst hún bara helvíti góð. Og alveg ekta mynd til að sjá í bíói held ég. Maður gæti sagt að þetta sé bara Alien + Event Horizon + The Core + Solaris, en það eitt og sér er frekar ófrumleg nálgun. Myndin veit alveg að hún er að einhverju leyti að ganga troðinn veg, einsog hún kemur inná í þessum orðaskiptum:
Mace: We should split up.
Cappa: I don't think that's such a good idea.
Mace: Why, 'cause then we're gonna get picked off one at a time by aliens?

Í þessum klassísku geimhryllingsmyndum þá er svarið auðvitað já. Um leið og þið skiptið liði koma geimverur og drepa ykkur. Áhorfendurnir vita þetta og þessvegna hlýtur sú hugmynd að skipta liði að vera sjálfsmorð. En þetta kaldhæðna svar segir okkur að þessir gaurar hafa líka séð Alien, og að það sé bjánalegt að vera hræddur við skrímsli því þau eru ekki til. Þannig ýtir myndin öllum þessum gömlu geimræmum til hliðar og stillir sér upp í okkar raunveruleika, þó svo að hún sér auðvitað jafn fantasísk og hver einasta geimskipamynd sem manni dettur í hug.

Sunshine minnti mig dálítið á The Others að því leyti að hún notar ljós á sama hátt og aðrar sambærilegar myndir nota myrkur. Enda er sólin hrikalegt fyrirbæri ef maður spáir í því, og hvað þá þegar maður er kominn jafn nálægt og Ikarus-geimskipið er í myndinni. Skelfilegir, óhugnalegir hlutir sem þarf að fela eru ekki huldir í myrkri heldur baðaðir í ljósi. Sálfræðingurinn um borð kemur inn á þetta í byrjun myndarinnar, þar sem hann ber þetta tvennt saman. Myrkrið er einhverskonar fjarvera, segir hann. Maður getur týnst í algeru myrkri, flotið í tóminu. En andstætt þessari fjarveru sé ljósið alger vera: Það umlykur þig og fyllir þig að innanverðu (ahemm).

Fyrir honum er það einskonar trúarleg reynsla að baða sig í geislum sólarinnar, en ,,sólin sem Guð" er þema sem liggur til grundvallar allri myndinni, og teygir sig náttúrulega langt aftur í aldir. Maður getur síðan velt því fyrir sér hvað það þýði að vilja ,,endurræsa" Guð með því að fleygja í hann atómsprengju.

Ég er að leggja mig fram við að skemma ekkert, en það má vera að fólk sé búið að sjá mun meira en þetta í treilernum. En gott og vel. Ég hafði þrælgaman af myndinni og mér finnst að fólk ætti að sjá hana í bíó. Basta.

[Viðbót:] Hérna er helvíti fínt viðtal á guardian.co.uk við Danny Boyle og Cillian Murphy. Fullt af spoilerum samt.

...

Svo horfði ég á Shooter þegar ég kom heim. Hún leit út fyrir að vera blanda af öllum flóttamannamyndum sem ég hef séð (og ekki séð), plús hermannaklám og Syriana-stæl svartsýni á bandarísk stjórnmál og efnahagslíf. Og það er bara nákvæmlega það sem hún er. Skotbardagarnir eru kannske fínir svona út af fyrir sig (og ég er pínu veikur fyrir leyniskyttu-byssuklámi), en þetta pólitíska maus sem liggur til grundvallar öllu saman er útí hött. Gaurinn er drepinn afþví hann ætlaði að segja sannleikann? Hvaða máli skiptir það fyrir þessa tappa? Bófarnir eru einhliða repúblikana-skítseiði sem eru greinilega svo illgjörn að þeim vantar bara börn til að éta og hvíta ketti til að klappa. Hérna er kvót frá einum þeirra, sem er í treilernum:
There's always one confused soul out there who thinks that one man can make a difference. And you have to kill him to convince him otherwise.

Og þetta er í raun og veru myndin í hnotskurn. Hún reynir bæði að vera pólitískt drama á gráa svæðinu og um leið svarthvít saga af einum manni sem breytir heiminum. Já, og hrikalega skrifuð. Hún rennur áfram á annarri brautinni lengi vel, þarsem Wahlberg eyðileggur sönnunargögn sem hefðu hugsanlega getað hjálpað honum ,,afþví heimurinn er of flókinn til að þetta geti komið illa við þá sem ráða" og er loks fangaður af yfirvöldunum ,,því einn maður getur ekki sett sig upp á móti heiminum".. og svo snýr hún sér á punktinum og fer í hina áttina, þar sem hetjan sannar sakleysi sitt með hjálp Guðs-úr-vélinni, og leysir loks vandann með byssunni sinni.

Þú getur ekki látið óþokkana vera BÆÐI þingmenn og fjölskyldufólk, sem gerir það sem því sýnist vera heiminum fyrir bestu OG morðóða ofurbófa sem traðka á kettlingum og snúa uppá yfirvaraskeggið sitt. Og þú getur ekki spýtt svarthvítu harðhausasiðgæði inní raunhæfa mynd af geopólitískum flækjum og kapítalisma á heimsgrundvelli. Að minnsta kosti ekki ef þú vilt láta taka þig alvarlega, en Shooter vill greinilega ekkert frekar.

Næst á dagskrá: The Fountain og meira Star Trek: DS9.

Og já, einhver skóli líka..

-b.

Engin ummæli: