23 apríl 2007

Fréttir! (og bónustrakk: skattleg heimilisfesti)

Það er þetta helst.

Hallur er að koma í heimsókn. Hann er búinn að kaupa miða og lendir hér eftir eina og hálfa viku. Sem er náttúrulega súper.. gaman að fá heimsókn hingað, maður þurfi ekki að drösla sér alla leið vestur til að sjá í andlitið á mönnum.

Ég þarf að fjárfesta í smá bjór áður en hann mætir. Ég hef trú á af því fáist mikill arður. Því við erum allir um arðinn, gæskan.

Ég er líka búinn að fá íbúð þessa þrjá aðalsumarmánuði. Helgi og Anní ætla að flytja á Selfoss í sumar og svo fer Helgi í skóla í Svíþjóð svo þau þurfa ekki að halda í íbúðina lengur. Ég get krassað þar. Sem er líka súper.

Þetta var dálítið fyndið, ég lá og var að lesa í bók (eins og ég á til að gera), en var annars hugar. Ég skal segja ykkur hvað tosaði huga minn frá stöfunum á síðunni: Það var sumarið. Hvar á ég að sofa? hugsaði ég. Og ef ég sef, hvert á ég að mæta þegar ég vakna í fyrramáli? hugsaði ég ennfremur. Og ég ákvað að spyrja Helga hvort hann vissi um eitthvað laust eða að losna. Og við duttum niður á þessa lausn.

En þetta er einmitt og akkúrat og nákvæmlega það sem ég hefði gert hefði ég vitað að Víðir hygðist flytja til Reykjavíkur núna í haust. Sett hann í íbúðina mína og komið svo að henni ylvolgri (og vaðandi í pítsakössum, smokkabréfum og linsuboxum) að sumri.

Þegar sumarið er úti verð ég svo vonandi kominn með eigin íbúð.

Ennfremur: Ég brotnaði í dag, bögglaðist niður af stressi yfir því að vera ekki kominn með vinnu. Hei, það er fokking apríl fjandinn hafi það. Við erum að tala um rúman mánuð í viðbót og svo er það hei mister Glitnir ég skulda þér á á áái ég veit ég skulda þér aaaahhhggg skulda þér pening, ég sé að þarna liggur hnéskelin mín á jörðinni, viltu ekki taka hana uppí á meðan ég finn til restina mister Glitnir?

En já. Ég hef semsagt vinnu þegar ég kem heim. Ég er ekki stoltur af því sem ég gerði, en ég gerði það.

Þegar sumarið er úti verð ég svo vonandi kominn með eigin vinnu.

...

Ennfremur ennfremur: Ég þarf dauðfokkingnauðsynlega að sækja um skattlega heimilisfesti hjá vini mínum Ríkisskattstjóra. Þetta er eitthvað sem ég átti að gera á skattframtalinu mínu núna í mars, en enginn benti mér á kassann þarsem ég tikka. Eða hefði betur tikkað sko. En mér heyrðist semsagt vera hægt að redda þessu. Þá þarf ég að skila inn skólavottorði og einhverju svoleiðis dúlli, og þá verður það bara abrakadamm einsog ég hafi verið í skóla heima allan tímann að safna upp persónuafslætti.

Persónuafsláttur er mjög mikilvægt fyrirbæri fyrir námsmann einsog mig. Hann getur brúað bilið á milli 'dauðasúpu í skel (ath. lepjist!)' annarsvegar, og 'bjórs á föstudegi með bita á leiðinni heim' hinsvegar. Og hann stendur líka alltaf á milli mín og mister Glitnis. Ég á honum ýmislegt að þakka.

En já. Þá gæti ég semsagt komið heim og byrjað að vinna, og átt einn eða tvo góða mánuði áður en skatturinn læsir í mig ísköldum klónum.

Óttalega er maður skrifandi eitthvað. Er það svona að vakna klukkan níu á morgnana?

-b.

Engin ummæli: