02 mars 2006

Eina sem þú þarft að gera...

Ég er búinn að vera að baka pítsur undanfarið. Deigið er svo einfalt að ég skil ekki hversvegna í ósköpunum ég hef ekki nennt þessu fyrren núna. Ég ætla að gefa ykkur upp þessa heví þægjó uppskrift.

Látið volgt vatn renna í sirka eitt glas. Allskki heitt, bara volgt. Ég nota venjulegt vatnsglas, býst við að það sé sirka þrír desilítrar. Hellið þessu vatni í skál. Bætið hálfu bréfi af þurrgeri (betra að það sé aðeins minna en meira) útí og hrærið aðeins. Bíðið í nokkrar mínútur.

Þetta er til þess að gerið taki við sér. Það gerist ekki (eða ekki jafn auðveldlega, ég er ekki viss) í köldu vatni, en heitt vatn getur líka drepið það.

Bætið útí þetta slettu af matarolíu (rúmri matskeið) kannske teskeið af sykri og hálfri teskeið af salti. Bætið svo útí hveiti og hrærið jafnóðum þartil deigið er orðið nógu þykkt til að það sé hægt að hnoða það. Hnoðið í tvær þrjár mínútur, búið svo til bolta úr því, skellið aftur í skálina, dreifið smá matarolíu yfir, setjið skálina í kæli og látið hefast í sirka 10 klukkustundir.

Á meðan getið þið græjað sósuna, áleggið eða eitthvað.. sofið? Já, ég geri þetta gjarnan áður en ég fer að sofa, þá er það eina sem ég þarf að gera að taka gaurinn og fletja hann út. Og þið líka.

Núna er deigið mitt reyndar búið að vera að hefast í sirka fimmtán klukkustundir. Við skulum sjá hvort það sé of mikið..

-b.

Engin ummæli: