14 mars 2006

Bah!

Ég ætla að upplýsa leyndarmál, og gera það þarmeð að ekki-leyndarmáli.

Löngu eftir að ég skilaði inn BA ritgerðinni minni, meira að segja nokkru eftir að ég útskrifaðist, þá var ég að líta yfir lokaútgáfuna á tölvunni og sá að það var heil síða sem var alveg tóm fyrir utan blaðsíðutalið á botninum. Hvílíkt klúður.

Þetta er auðvitað alls ekkert mál. Ritgerðin var alveg nógu löng og rúmlega það. Ég hafði bara verið að hnika eitthvað til í textanum, koma því fyrir þannig að hver kafli byrjaði á nýrri síðu o.s.frv. og þannig hefur þetta komið fyrir. Bara lélegur frágangur. Mig langar ekkert að vita hvort þetta krækti einhverjum auka-mínus í einkunnina.

Hinsvegar stóð það alltaf til hjá mér að setja ritgerðina á netið þegar hún væri tilbúin. Hún Stella man ég að gerði það og þótt ég hafi reyndar ekki lesið gaurinn (engan veginn minn tebolli) þá fannst mér þetta sniðugt. Nú renni ég augum yfir skjalið og ég sé strax helling sem hefði mátt fara betur, en hvað um það. Hér er gaurinn í 17mb .rtf skjali. Fræðilegi grunnurinn sem ég reyndi að leggja í byrjuninni var slappur og heterótópíu-pælingin hefði mátt vera betur unnin, en greiningin á einstökum köflum í Animal Man og The Invisibles held ég að sé alveg valid, og ég veit að hefði ég ekki skrifað þetta sjálfur myndi ég hafa áhuga á að lesa það.

...

Og jú, kaldhæðnin á bakvið þessa auðu síðu fer síður en svo framhjá mér. Ef einhver spyr mig augliti til auglitis hversvegna þetta hafi farið svona hjá mér lýg ég því náttúrulega að þetta hafi verið meiningin allan tímann. Klúðrið hafi kannske verið að setja eyðuna á blaðsíðu 22 en ekki 23.

-b.

Engin ummæli: